Halldór Ólafs Stefánsson fæddist á Arnarstöðum í Núpasveit, N-Þingeyjarsýslu 12. september 1927. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík hinn 18. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Oktavía Stefanía Ólafsdóttir, f. 30.9. 1891, d. 4.1. 1934, ættuð frá Saurbæ á Langanesströnd og Stefán Tómasson, f. 4.3. 1881, d. 19.2. 1967, ættaður frá Arnarstöðum í Núpasveit. Systkini Halldórs eru Gunnþórunn Ingibjörg, f. 11.3. 1915, d. 23.5. 1961, Ólafur Þorsteinn, f. 30.1. 1917, d. 13.1. 1999, Valgerður, f. 1.2. 1919, d. 26.5. 1994, Þóra Steinunn, f. 12.5. 1920, d. 19.10. 2005, Petra Guðrún, f. 27.1. 1922, Halldór Gunnar, f. 11.3. 1923, Jón Gunnlaugur, f. 16.2. 1925, Ingibjörg Sigríður, f. 9.8. 1929, d. 8.2. 2002, Bragi, f. 16.8. 1931. Hálfsystir Halldórs er Oktavía Erla, f. 30.3. 1938. Eiginkona Halldórs var Dóra Gunnfríður Brynjólfsdóttir, f. 18.11. 1930, d. 18.8. 2004. Halldór og Dóra giftu sig 15.3. 1949. Dætur þeirra eru a) Bára, f. 23.11. 1948, fyrrverandi maki hennar er Hrafnkell Björnsson. Börn þeirra eru Hrafnhildur, Dóra Brynhildur, Linda Hrönn og Börkur Halldór. b) Brynja, f. 19.1. 1953, fyrrverandi maki er Manfred Adam. Dóttir þeirra er Brynja Adam-Radmanic. Núverandi maki Brynju er Axel Priebs. Börn þeirra eru Solveig og Ragnar. Barnabarnabörn Halldórs eru Daníel Þröstur, f. 24.2. 1986, Áróra Sif, f. 26.12. 1988, Adam Benjamín, f. 29.4. 1992, Anthony Halldór, f. 28.9. 1995, Maximilian, f. 6.10. 2004, Steinþór Freyr, f. 9.5. 2005, Rafael, 14.1. 2008, Hrafnkell Örn, f. 15.12. 2008. Eftir fráfall móður Halldórs var hann tekinn í fóstur 5 ára gamall að Efrihólum í Núpasveit. Hann fór sem ungur maður til Reykjavíkur og lærði í Iðnskólanum. Hann vann lengi sem veggfóðrarameistari í Reykjavík og víðar um land. Síðar vann hann í Málningu hf., var með verslunarrekstur í Grímsbæ (Blómabúðina Ígulkerið og Bókabúð Fossvogs), en endaði sinn starfsferil í Húsasmiðjunni. Dóra og Dóri bjuggu frá 1968 í Gautlandi í Fossvoginum, en árið 2004 fluttu þau á Hjúkrunarheimilið Eir. Útför Halldórs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 27. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Við andlát föðurbróður okkar, Halldórs Ólafs Stefánssonar, Dóra, 18. janúar síðast liðinn langar okkur að minnast hans og eiginkonu hans, móðursystur okkar, Dóru Gunnfríðar Brynjólfsdóttur, sem lést þann 18. ágúst 2004. Okkar æskuminningar eru nátengdar þeim hjónum og dætrum þeirra Báru og Brynju. Fjölskyldurnar tvær þar sem að feðurnir voru bræður og mæðurnar systur voru nánar. Það þótti skrítið að segja frá skyldleikanum og því sögðum við stundum að við værum hálfsystur, það var einfaldara en að útskýra frændskapinn. Bæði Dóra og Dóri voru fædd í Þingeyjarsýslu.

Bæði gengu þau í gengum það að missa annað foreldri sitt ung að árum. Dóri missti móður sína 6 ára gamall og eftir það var heimilið leyst upp og Dóri fór í fóstur eins og systkini hans sem voru ellefu.  Það hlýtur að hafa verið sárt fyrir ungan dreng að missa á sama tíma móður sína og fara í burtu frá föður og öllum stóra systkina hópnum. Á þessum tímum var ekki talað mikið um tilfinningar barna, en ljóst er að þessi lífsreynsla hefur markað líf þessara einstaklinga. Dóra missti föður sinn ung, en hún ólst upp með móður sinni og systrum og naut elsku og umhyggju móður sinnar og samneytisins við systur sínar. Ung að árum komu Dóra og Dóri suður, Dóri lærði veggfóðrun og dúklagningar og Dóra gætti dætranna. Dóri starfaði við iðn sína og hann rak um tíma í félagi við aðra verslunina Klæðningu. Síðar ráku Dóra og Dóri blómaverslanir og bókaverslun í Grímsbæ. Dóra vann í skóverslun um árabil, í apóteki og á rannsóknarstofu HÍ. Dóri lauk sínum starfsferli í verslun Húsasmiðjunnar þar sem hann gat notað fagþekkingu sína. Dóra var mikil hannyrðakona peysur prjónaði hún af stakri snilld og eru þær ófáar lopapeysurnar sem hún prjónaði seldi og gaf. Það var eftir því tekið hversu glæsileg ungu hjónin voru, falleg jakkaföt frakki og hattur og fallegir kjólar og dæturnar í heimaprjónuðum kjólum. Um þetta bera vitni minningar okkar og ljósmyndir sem til eru frá þessum tíma.

Í huga okkar lifir minningin um 17. júní, það var alltaf gott veður og allir prúðbúnir. Jólin áttum við saman á heimilum fjölskyldnanna til skiptis. Systurnar útbjuggu hátíðarmatinn á meðan bræðurnir fóru með dætur sínar í messu. Á jólum var sungið og spilað. Dóra var ljúf og amaðist ekki við ungum fingrum sem vildu fá takka af jólasteikinni áður en komið var að mat. Hún leyfði líka litlum höndum að moka í hveiti-og sykurskúffunum. Dóri var söngelskur eins og systkini hans, hann lék líka á píanó og harmonikku. Þegar þeir bræður hittust þá var gjarnan sunginn söngbálkurinn Gunnar og Njáll og allt fram á síðasta mánuð hafa þeir sungið saman þegar þeir hittust.

Að spila á spil var góð fjölskylduskemmtun og oft spilaður Lomber sem er lítið spilaður í dag. Spilað var upp á smápeninga og við börnin fengum þá að gæta peninganna. Dóra var líka góður kokkur og sérlega smekkleg kona og þekkt fyrir rausnarskap. Hún var gjafmild með eindæmum og vildi þá alltaf gefa það besta. Dóra vildi helst alltaf vera innan um dýr og til eru sögur af henni sem lítilli stúlku að taka á móti kettlingum, það var ekkert mál fyrir hana. Það þótti líka sérstakt að þegar Dóra fór í sveit á sumrin, hvarf kötturinn og sást ekki aftur fyrr en daginn sem Dóra kom aftur. Hún naut þess síðustu árin að umgangast bæði hunda og ketti.

Bára hefur hugsað afburðavel um föður sinn sérstaklega eftir að Dóra dó 2004, en Brynja hefur verið búsett í Þýskalandi frá því fyrir tvítugt. Bára hefur setið með honum og leyst krossgátur og lesið fyrir hann allt fram á síðasta dag. Dóri var alla tíð mikill lestrarhestur og las hverja bókina á fætur annarri sér til mikillar ánægju.Á þessum tímamótum viljum við þakka þeim hjónum, frænku okkar og frænda samfylgdina í gegnum lífið. Við eigum mikið af góðum minningum um þau dætur þeirra og barnabörn. Þau eiga nú stóran ættboga eða 7 barnabörn og 8 barnabarnabörn. Foreldrar okkar sem bæði eru á lífi þakka þeim líka ánægjulega samfylgd. Bestu kveðjur til allra í fjölskyldunni frá okkar fjölskyldum.

Sigrún, Guðrún og Bryndís.