Dagur Jónsson: „Hingað til hefur netverslun einkum verið bandarískt fyrirbæri og helst á síðstu árum að aukinn kraftur hefur færst í vefverslun á Bretlandseyjum. Skandinavía og raunar öll Evrópa og Ísland þar á meðal hafa verið nokkuð á eftir í þessum málum en netverslunin er hægt og sígandi að sækja á.“
Dagur Jónsson: „Hingað til hefur netverslun einkum verið bandarískt fyrirbæri og helst á síðstu árum að aukinn kraftur hefur færst í vefverslun á Bretlandseyjum. Skandinavía og raunar öll Evrópa og Ísland þar á meðal hafa verið nokkuð á eftir í þessum málum en netverslunin er hægt og sígandi að sækja á.“ — Morgunblaðið/Golli
Á röskum áratug hefur netið breyst frá því að vera vettvangur fyrir stráklinga fiktandi við heimasíðugerð yfir í að vera í raun markaðs- og sölutól.

Á röskum áratug hefur netið breyst frá því að vera vettvangur fyrir stráklinga fiktandi við heimasíðugerð yfir í að vera í raun markaðs- og sölutól. Það er jafnvel ekki fyrr en á allra síðustu árum sem netið hættir að verða „nördafyrirbæri“ og verður það sem það er í dag: ómissandi hluti af daglegu lífi þorra fólks,“ segir Dagur Jónsson.

Dagur er framkvæmdastjóri Libius ehf. en fyrirtækið sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu og rekstri vefverslana. Hann segir innkomu Google hafa haft mikið að segja með þá breytingu sem varð á notkun almennings á netinu, en því samfara hafi netverslanir orðið mun aðgengilegri og loks á síðustu árum að samfélagsvefir bættu við nýrri vídd í netnotkun og samskiptum fólks á netinu.

Nálægð stendur fyrir þrifum

Þrátt fyrir að mælast í fremstu röð þjóða í alþjóðlegum könnunum yfir netnotkun segir Dagur að svo virðist sem markaðsstarf á netinu sé frekar skammt á veg komið hér á landi. „Hingað til hefur netverslun einkum verið bandarískt fyrirbæri, og helst á síðustu árum að aukinn kraftur hefur færst í vefverslun á Bretlandseyjum. Skandinavía og raunar öll Evrópa og Ísland þar á meðal hafa verið nokkuð á eftir í þessum málum en netverslunin virðist engu að síður hægt og sígandi sækja á,“ segir hann.

Ástæðuna fyrir lítilli útbreiðslu vefverslunar hér á landi segir Dagur einkum mega skýra með smæð markaðarins. „Tæknimálin eru í fínu lagi hérna og vefir mjög vel gerðir. En markaðurinn er lítill og nálægð viðskiptavina við verslanir og vöru eftir hefðbundnum leiðum er miklu meiri hér en víðast hvar erlendis, sem gerir það að verkum að vefverslun á erfiðara uppdráttar og þá frekar að vefhlið verslunarrekstrarins styðji við búðina þar sem kúnninn síðan lítur inn og verslar í eigin persónu.“

Dagur nefnir sem dæmi vefverslun 66° Norður sem Libius annast. Þar er langstærstur hluti innlendra kaupenda búsettur á landsbyggðinni, á meðan gestir búsettir á höfuðborgarsvæðinu heimsækja vefverslunina til að skoða úrvalið en gera síðan innkaupin í einni af verslunum fataframleiðandans.

Neytendur vilja nota netið

Þó svo að sala gegnum netið geti verið lítil, að minnsta kosti á innanlandsmarkaði, leggur Dagur á það áherslu að fyrirtæki vanmeti ekki mikilvægi þess að gera vörur sínar og þjónustu sýnilega á netinu. „Væntanlegum viðskiptavinum þykir gott að geta skoðað vöruúrvalið í tölvunni, skoðað myndir, lesið sér til um vöruna og borið saman verð,“ segir hann. „Vandinn er sá að það er erfitt fyrir eiganda fyrirtækisins eða verslunarinnar að mæla þessi áhrif sýnileika á netinu. Kostnaður við að koma upp vefverslun í einhverri mynd á þó ekki að þurfa að standa fyrirtækjum fyrir þrifum enda fer kostnaður við uppsetningu og hönnun vefverslana hratt lækkandi.“

Ljóst er að verslun á netinu á bara eftir að aukast. „Þrátt fyrir miklar vinsældir er til dæmis netsala í Bandaríkjunum ekki nema 3,7% af heildarsmásölu. Á meðan hefðbundin smásala dregst saman eða stendur í stað er netsala í stöðugum vexti og nálgaðist 10% af heildarsölu í Bandaríkjunum síðustu jól.“

Sendingarkostnaðurinn erfiður

Hann bendir þó á að þegar kemur að sölu á erlenda markaði þurfi íslenskir seljendur að takast á við stóra hindrun: sendingarkostnað. „Venjulegir viðskiptavinir gera sér ekki grein fyrir þeim erfiðleikum sem fylgja sendingum frá Íslandi og gera kröfu um hraðfara og ódýra sendingu rétt eins og hjá vefverslun í eigin landi. Þeir hafa líka lítinn skilning á að tollar og gjöld bætist við verð vörunnar áður en hún berst þeim í hendur,“ útskýrir Dagur. „Á meginlandi Bandaríkjanna og innan Evrópusambandsins er þetta ekki vandamál. Hraðsending innan Evrópu kostar til dæmis þriðjung af því sem kostar að senda frá Íslandi til meginlands álfunnar. Sumir fara þá leið að færa dýran sendingarkostnaðinn inn í vöruverðið sem veldur því að vænlegast er að selja mög góða og nokkuð dýra vöru hér á landi, en það er líka um leið næsta ómögulegt að selja ódýrari vöru nema þá í magnsölu. Sum fyrirtæki hafa jafnvel farið þá leið að opna vöruhús vestan- og austanhafs og senda pantanir þaðan en eru þá um leið að skapa færri störf hér á landi en ella.“

Netið kallar á nýjan hugsunarhátt

Um vefinn gilda að sumu leyti önnur lögmál en hefðbundna verslun. Sýnileikinn, sem áður fékkst með auglýsingakaupum eða staðsetningu á vinsælum verslunargötum fæst nú með því að koma upp í niðurstöðum leitarvéla. Hugsa þarf markaðssetningu á öðrum forsendum, þar sem jafnvel það eitt að velja rétta nafnið á vöruna getur skilið á milli feigs og ófeigs.

„Það þarf að skoða vandlega hvers konar vörumerki við erum með í höndunum. Bláa Lónið, 66° Norður, Icelandair og Iceland Express eru dæmi um fyrirtæki sem geta selt í krafti síns eigin vörumerkis. Meirihlutinn af sölu 66° Norður verður til dæmis til við það að viðskiptavinir slá inn orðið „66 North“ í ýmsum útgáfum í leitarvélina og færast þaðan yfir á vef verslunarinnar,“ útskýrir Dagur. „Ef um óþekkta vöru er að ræða þarf að skoða hvort ekki sé hægt sé að koma henni á framfæri með leitarorðum sem tengjast ákveðinni ímynd, til dæmis með tengingu við Ísland, norðurljós eða hreina náttúru þ.e.a.s. með leitarorðum sem þeir sem sækjast eftir vöru af þessu tagi eru líklegir til að tengja við viðkomandi vöru.“

Til nánari útskýringar segir Dagur að ef slegið er inn leitarorðið „Sweaters“ í Google komi óteljandi niðurstöður og því mjög erfitt fyrir venjulegt íslenskt fyrirtæki að vera í hópi fyrstu leitarniðurstaðna fyrir þetta tiltekna leitarorð. Mun markvissara er að aðgreina enn betur leitarorðin og í þessu tilviki að vera með meira lýsandi leitarorð eins og „Icelandic Sweaters“ eða „Icelandic Wool Sweaters“.

Er vit í vefverslun?

Dagur segir þurfa að huga vel að nokkrum lykilatriðum áður en vefverslun er opnuð. „Hafa þarf í huga hver viðskiptavinahópurinn er og hvort vefurinn er besta leiðin til að koma vörunni til viðskiptavinanna,“ segir hann. „Markaðurinn innanlands er smár og þarf að skoða hvaða möguleikar eru til að stækka kúnnahópinn með því að selja út fyrir landsteinana.“

Þá bendir Dagur á að vefurinn geti hentað fyrir afmarkaðan hluta verslunarrekstursins. „Það getur til dæmis hentað að nota vefinn til að selja vöru sem illa hefur gengið að koma úr versluninni, svo sem með bitastæðu tilboði fyrir netkaupendur,“ útskýrir hann. „Umfram allt þarf að huga að þörfum viðskiptavinanna, hvaða eftirsóttu þjónustu vefverslunin getur veitt þeim.“

Ef vefverslunin gengur vel þurfa verslunareigendur að vera viðbúnir því að leggja töluverða vinnu í sölustarfið. „Ef til dæmis rekin er verslun á Laugaveginum og samhliða vefverslun þar sem salan er mjög lífleg getur komið að því að líta þurfi á vefverslunina sem búð númer 2 og reka hana sem slíka jafnvel með sér starfsmanni. Einnig þarf að hafa í huga að vefverslunin er opin allan sólarhringinn, allan ársins hring, og nauðsynlegt að vera alltaf á tánum, svara fyrirspurnum hratt og vel og uppfæra efni síðunnar reglulega.“