Fundur Íslensku leikmennirnir slökuðu á fyrir liðsfund í gær þar sem að Sverre Jakobsson fékk sér kaffibolla.
Fundur Íslensku leikmennirnir slökuðu á fyrir liðsfund í gær þar sem að Sverre Jakobsson fékk sér kaffibolla. — Morgunblaðið/Kristinn
,,Við gerum okkur alveg grein fyrir mikilvægi leiksins. Þetta er staða sem við vildum komast í og við kvörtum ekki yfir að glíma við Norðmenn.

,,Við gerum okkur alveg grein fyrir mikilvægi leiksins. Þetta er staða sem við vildum komast í og við kvörtum ekki yfir að glíma við Norðmenn. Þetta er enn úrslitaleikurinn og við komum vel undirbúnir til leiks,“ sagði Snorri Steinn, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, við Morgunblaðið í gær en í dag mæta Íslendingar liði Norðmanna í lokaumferð milliriðilsins á EM.

Eftir Guðmund Hilmarsson í Vín gummih@mbl.is

ÞAÐ er mikið í húfi en með sigri tryggja Íslendingar sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í annað sinn í sögunni en undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar komst íslenska liðið í undanúrslit á EM í Svíþjóð 2002 og endaði í fjórða sæti eftir töp gegn Svíum og Dönum.

,,Norðmenn eiga möguleika á að komast áfram og þeir koma örugglega til með að selja sig dýrt gegn okkur. Við getum ekki treyst á neina aðra. Við erum í þeirri stöðu að geta sjálfir tryggt okkur sætið í undanúrslitin og það ætlum við að gera,“ sagði Snorri.

Spurður út í styrkleika norska liðsins sagði Snorri; ,,Þeir eru með vel mannað lið og góða leikmenn í flestum stöðum. Það er skandinavískur bragur á leik þeirra og þeir eru ekkert ósvipaðir danska liðinu. Þeir eru með góða 6:0 vörn, frábæran markmann, sterkan línumann og svona mætti lengi telja. Þeir eru með leikmenn sem spila í góðum liðum og norska liðið hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum. Þetta verður hörkuleikur þar sem ekkert verður gefið eftir.

Arnór mætir þremur samherjum

Arnór Atlason mætir þremur af samherjum sínum hjá danska liðinu FCK þegar Íslendingar og Norðmenn eigast við í Wiener Stadthalle í Vín í kvöld. Það eru markvörðurinn Steinar Ege, skyttan Erlend Mamelund og Einar Sand Koren.

,,Ég bý við hliðina á Ege og Mamelund og ég nenni ekki að hafa það á samviskunni að tapa á móti þeim og klúðra því að komast í undanúrslitin. Þessi leikur fyrir mér er eins og Danaleikurinn. Við verðum bara að vinna. Það er til mikils að vinna. Ekki bara að komast í undanúrslitin heldur líklega farseðill í lokakeppni heimsmeistaramótsins. Allan tímann í keppninni höfum við stólað á okkur sjálfa og það er sama er uppi á teningnum hvað þennan leik varðar,“ sagði Arnór við Morgunblaðið en hann hefur átt einstaklega góða leiki með íslenska liðinu á EM.

,,Það er frábært að eiga fyrsta leik á þessum lokadegi. Þá þurfum við ekkert að hugsa um neitt annað en okkur sjálfa. Við getum gleymt því að komast áfram ef við töpum. Ef það gerist þá held ég að Danirnir fái byr í seglin og vinni hreinlega Króatana.“

Arnór segir að góður stígandi hafi verið í leik liðsins. ,,Við erum búnir að komast tiltölulega vel frá síðustu leikjum. Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá hef ég fengið góða hvíld sem var mjög gott og nú mætir maður endurnærður í leikinn við Norðmenn. Mér líður eins og fyrir fyrsta leikinn okkar á mótinu. En við verðum að átta okkur á því að Norðmenn eru með frábært lið og við verðum að halda vel á spilunum til að leggja þá af velli.“

Tala fyrst við AG

Arnór segist ekki vera búinn að spá hvað taki við hjá sér eftir tímabilið en samningur hans við FCK rennur út í sumar. Eins og fram hefur komið mun lið Arnórs sameinast AG Håndbold á næstu leiktíð og leika sem AG Köbenhavn í dönsku úrvalsdeildinni.

,,Ég hef ekki fengið nein tilboð. Það hafa komið fyrirspurnir frá liðum í Þýskalandi og á Spáni en ekkert meira en það, sagði Arnór en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er þýska liðið Lemgo eitt þeirra sem er með Arnór undir smásjánni. ,,Allur minn hugur er með íslenska landsliðinu hér á EM. Ég mun fyrst tala við AG af öllum og það er minn fyrsti valkostur.