[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margvíslegra leiða þarf að leita eigi að takast að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins Álftaness. Hagræða þarf í rekstri, breyta skuldum í langtímalán og losna við skuldbindingar vegna framkvæmda.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

SVEITARSTJÓRN Álftaness samþykkti drög að „tillögum bæjarstjórnar um fjárhagslegar aðgerðir“ á tæplega átta klukkustunda löngum fundi sínum á þriðjudagskvöldið. Skýrslan, sem Pálmi Þór Másson afhenti eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga í gær, gerir ráð fyrir verulegum niðurskurði auk skattahækkana. Með því móti á að auka ráðstöfunartekjur sveitarfélagsins um 228 milljónir kr. í ár og 291 milljón kr. árið 2011. Þær aðgerðir duga þó ekki til að sveitarfélagið geti skilað hallalausum rekstri eða staðið við allar sínar skuldbindingar, enda hefur áður verið talið að útgjöld sveitarfélagsins þyrftu að minnka um 900 milljónir á þessu ári, miðað við fyrri tekjur, ætti það að standa undir skuldbindingunum.

Samkvæmt skýrslu KPMG þarf sveitarfélagið annaðhvort að selja eignir eða fá aukin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Skuldir og skuldbindingar þessa 2.500 manna sveitarfélags nema samtals 7,4 milljörðum kr. Þar af nema skuldbindingar sem stofnað var til við Búmenn, Ris og Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. 4,1 milljarði kr. og mælir endurskoðunarfyrirtækið með að Álftanes leiti allra leiða til að losna undan þessum skuldbindingum. Stærsta og erfiðasta skuldbindingin er við síðastnefnda fyrirtækið, en tæplega þriggja milljarða króna skuld er tilkomin vegna leigu á íþróttahúsi og sundlaug.

Skuldbreytt í langtímalán

Í skýrslunni er einnig lögð til skuldbreyting skulda í langtímalán og mælir KPMG með að sveitarfélagið forðist að óska niðurfellingar skulda með nauðasamningi.

„Það þurfa að koma til margþættar aðgerðir, segir Pálmi Þór, „og við værum ekki að setja fram aðgerðir sem við héldum að gengju ekki eftir.“

Gerð er tillaga um að öllum skuldum Álftaness við Arion, viðskiptabanka sveitarfélagsins, verði skuldbreytt í 23 ára lán sem eingöngu verði með vaxtagreiðslum næstu þrjú árin. Skammtímaláni hjá Lánasjóði sveitarfélaga verði þá skuldbreytt til langs tíma, auk þess sem óskað verði eftir nýju láni hjá Lánasjóðnum til að greiða upp skammtímaskuldir og fjármagna hallarekstur ársins 2010.

Pálmi Þór telur bæjarstjórn geta verið hóflega bjartsýna á að hugmyndunum verði vel tekið. „Þessi mánuður sem við fengum til að setja fram skýrsluna hefur verið afar vel nýttur. Við erum búin að eiga fundi með lánardrottnum og viðsemjendum út af samningum og þær tillögur sem þarna eru settar fram eru allar með þeirra vitund og út frá fundum sem við höfum átt með þeim.“

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kvaðst í viðtali í Morgunblaðinu í gær fylgjast vel með málum Álftaness, en engar ákvarðanir hefðu verði teknar um aðkomu ríkisins.

Leikskólagjöld hækkuð og tómstundastyrkir lagðir niður

Hagræðingar í rekstri er einnig þörf eigi að létta skuldastöðu Álftaness, en 1,2 milljarða kr. skammtímaskuldir sveitarfélagsins eru á gjalddaga á þessu ári.

Meðal aðgerða sem lagt er til að gripið verði til er niðurskurður í rekstri grunnskóla og leikskóla auk þess sem leikskólagjöld verði hækkuð og tómstundastyrkir til foreldra og foreldrastyrkir aflagðir. Ekki verði heldur starfræktur vinnuskóli á vegum sveitarfélagsins næsta sumar. Ennfremur verði stöður byggingafulltrúa, fræðslustjóra, félagsmálastjóra og leikskólafulltrúa lagðar niður. Þá verði viðhald gatna í lágmarki og dregið úr viðhaldi fasteigna sveitarfélagsins.

Talið er að ávinningur af þessari rekstrarhagræðingu nemi 103 milljónum kr. á þessu ári og svarar það til 13,5% af öllum rekstrargjöldum sveitarfélagsins á síðasta ári. Árið 2011 er síðan gert ráð fyrir að hagræðingin nemi 167 milljónum kr. Stærstur hluti viðbótartekna sveitarfélagsins á árinu kemur þó til vegna aukins útsvars og hækkunar fasteignaskatta, en áætlað er að auknar tekjur vegna þessa nemi 124 milljónum kr.

Lofuðu ábyrgum rekstri

Í stefnuskrá Álftaneslistans fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar er bygging sundlaugar og 40 öryggisíbúða fyrir aldraða meðal þeirra málefna sem voru á dagskrá.

Þar kemur einnig fram að Álftaneslistinn ætli að „vinna að endurskipulagningu fjármála sveitarsjóðs af ábyrgð og festu“ og hagræðingu í rekstri sveitarfélagins.

Tillögur liggi fyrir í næstu viku

Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur fengið afhentar tillögur bæjarstjórnar Álftaness um fjárhagslegar aðgerðir. „Við byrjum að fjalla um hana á morgun,“ segir Ólafur Nilsson, formaður eftirlitsnefndarinnar. Skýrslan verði síðan til meðferðar hjá nefndinni fram í næstu viku.

Hann vill ekki tjá sig um tillögurnar að svo stöddu, en segir ljóst að fjárhagsstaða sveitarfélagsins sé afar slæm. „Ég reikna með að nefndin afhendi ráðherra sínar tillögur um framhaldsmeðferð málsins í lok næstu viku.“

Hljóðið í íbúum þungt

JÓN Örn Arnarson býr með fjölskyldu sinni á Álftanesi. Hann segir íbúa uggandi yfir stöðu mála. „Þetta er hrikalegt og hljóðið í íbúum er mjög þungt. Mér finnst margir hafa meiri áhyggjur af þessu en Icesave,“ segir hann.

Þau hjónin eiga þrjú börn og koma hagræðingaraðgerðir bæjarstjórnar niður á fjölskyldunni. „Tvö okkar barna hafa verið í tónlistarskólanum sem talað hefur verið um að leggja niður og þau eru líka í tómstundastarfi sem niðurgreitt hefur verið af sveitarfélaginu.“

Hækkun fasteignagjalda og útsvars hafi ekki síður áhrif. „Okkur líður vel hérna, en þó að við vildum flytja þá kæmu fasteignagjöldin í veg fyrir það.“

Hefur áhyggjur af framtíðinni

„ÞVÍ miður er þetta allt mjög neikvætt eins og þetta er annars dásamlegur staður að búa á,“ segir Erna Sif Auðunsdóttir sem búsett hefur verið á Álftanesi frá því í æsku.

„Ég er sjálf með ung börn og maður getur ekki annað en haft áhyggjur af framtíðinni.“

Hækkanir á leikskólagjöldum og stækkun deilda mun enda hafa áhrif á fjárhag fjölskyldunnar, ekki síður en hækkun útsvars og fasteignaskatts. Hún bendir á að fjárhagsaðstæður sveitafélagsins geti t.a.m. haft áhrif á söluhæfi húsnæðis. „Nú erum við í fjögurra herbergja íbúð og þetta mun ekki auðvelda okkur að flytja og stækka við okkur, því það er enginn spenntur fyrir að flytja í samfélag þar sem staðan er svona.“

Sjálf telur hún sameiningu ekki slæman kost. „Auðvitað er leiðinlegt til þess að hugsa því ég er fædd og uppalin hér á Álftanesi. En ef sú lausn gagnast sveitarfélaginu þá ber að skoða hana betur.“