Fallinn Hvítabjörninn sem felldur var í Þistilfirði um 20 mínútur fyrir fjögur í gær. Talið var að um unga birnu væri að ræða, litla en vel á sig komna. Jón Stefánsson, lögregluvarðstjóri á Þórshöfn, sést hér gæta að birnunni.
Fallinn Hvítabjörninn sem felldur var í Þistilfirði um 20 mínútur fyrir fjögur í gær. Talið var að um unga birnu væri að ræða, litla en vel á sig komna. Jón Stefánsson, lögregluvarðstjóri á Þórshöfn, sést hér gæta að birnunni. — Morgunblaðið/Líney
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jón Pétur Jónsson, Kristján Jónsson og Líneyju Sigurðardóttur LÖGREGLAN í Þingeyjarsýslum og Umhverfisstofnun sendu frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem fólk á Norðausturlandi var beðið um að hafa allan vara á sér á ferðum úti við, í ljósi þess...

Eftir Jón Pétur Jónsson, Kristján Jónsson og Líneyju Sigurðardóttur

LÖGREGLAN í Þingeyjarsýslum og Umhverfisstofnun sendu frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem fólk á Norðausturlandi var beðið um að hafa allan vara á sér á ferðum úti við, í ljósi þess að hvítabjörn var felldur í Þistilfirði síðdegis í gær. Um ungt dýr hefði verið að ræða og því ekki hægt að útiloka þann möguleika að það hefði verið í fylgd með fullorðnu dýri. Landhelgisgæslan myndi leita úr lofti á svæði með ströndinni strax í birtingu í dag.

„Það er búið að fella það,“ sagði Jón Stefánsson, lögregluvarðstjóri á Þórshöfn, í samtali við mbl.is í gær, um tveimur stundum eftir að fyrst sást til dýrsins. Bjarndýrið sást fyrst við bæinn Sævarland við Þistilfjörð um kl. 13 þegar Svanhvít Geirsdóttir, íbúi á bænum, kom auga á það þegar hún ætlaði í fjárhús. Hún náði sér í sjónauka til að vera alveg viss og lét síðan neyðarlínuna vita.

Var að nálgast sauðfé

Jón sagði að bjarndýrið hefði verið komið í námunda við sauðfé rétt áður en það var skotið. Það var fellt um kl. 15:40. Þegar skytta kom á vettvang ásamt ökumanni svipuðust þeir um niðri við ós Svalbarðsár en misstu sjónar á dýrinu, sem fór mjög hratt yfir, en dimmt él gekk þá yfir og skyggni var því lélegt. Ökumaðurinn Sigurður Jens Sverrisson fór aftur heim að bænum og aðstoðaði Svanhvíti við að setja féð í fjárhúsin og loka þeim. Bjarndýrið var svo fellt nokkru austar, skammt frá eyðibýlinu Óslandi í Þistilfirði. Það var birna, ekki mjög stór en hún virtist vel á sig komin og kviðfull.

Ekki góðar aðstæður til að ná dýrinu lifandi

Reynt var með miklum tilkostnaði að fanga lifandi björn, sem gekk á land, í búr árið 2008 en það mistókst. Umhverfisstofnun segir að ákvörðun um að fella björninn að þessu sinni hafi verið tekin á grundvelli niðurstöðu starfshóps sem vann skýrslu um viðbrögð við landgöngu hvítabjarna fyrir umhverfisráðherra. Niðurstaða hópsins var sú að fella bæri hvítabirni sem ganga á land. Til þess að reyna björgun þurfa aðstæður að vera ákjósanlegar. Fólki má ekki standa hætta af dýrinu, skyggni þarf að vera gott og tryggt að dýrið sleppi ekki út í vatn eða sjó. Aðstæður í Þistilfirði voru ekki ákjósanlegar til þess að reyna björgun, segir stofnunin.

Geta flutt með sér hættuleg sníkjudýr

Starfsmenn Umhverfisstofnunar munu nú rannsaka hræ bjarnarins, innyflin verða tekin og beinin varðveitt. Þorvaldur Björnsson, starfsmaður stofnunarinnar, átti eftir að skoða dýrið sjálfur en hann sagði að ekki væri um fullvaxta dýr að ræða. Hann sagði líklegt að dýrið yrði stoppað upp.

Dýrin tvö sem felld voru 2008 voru greinilega búin að synda lengi en hafís var langt frá landi eins og núna. Þorvaldur bendir á að dýrin séu oft illa útleikin eftir volkið í hafinu. Annað dýrið var að sögn Karls Skírnissonar dýrafræðings illa haldið af varasömum sníkjudýrum sem gætu vel breiðst út hér á landi.

Ekki í neinni útrýmingarhættu

Um 19 stofnar ísbjarna eru til í heiminum, flestir í Kanada en einnig á Grænlandi og í Síberíu, alls 22.000 dýr. Að sögn Karls Skírnissonar dýrafræðings hafa verið gerðar miklar rannsóknir á tegundinni. Venjulegir skógarbirnir og ísbirnir geta, fræðilega séð, eignast frjó afkvæmi.

Ísbirnir eru á svonefndum válista Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, IUCN, sem merkir að svo geti farið að stofnunum verði ógnað vegna breyttra skilyrða. Er þá einkum átt við hlýnandi loftslag og mengun. Tegundin er hins vegar alls ekki í útrýmingarhættu, veiða má um 800 dýr á ári.

Oft gestir á Íslandi

Minnst 500 hvítabirnir hafa sést hér við land frá upphafi Íslandsbyggðar. Fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar að elsta heimildin sé frá því um 890 þegar Ingimundur gamli, landnámsmaður í Vatnsdal, sá birnu með tvo húna og að sögn varð þá til örnefnið Húnavatn í Þingi í Austur-Húnavatnssýslu.

Einkum var mikið um birni á 19. öld. Sum ár hafa komið hingað til lands tugir hvítabjarna sem oftast eru nú kallaðir ísbirnir.

Björninn fór í kollhnís í gömlum rabarbaragarði

„Maður veit aldrei hvernig þessi dýr bregðast við“

SVANHVÍT Geirsdóttir á Sævarlandi við Þistilfjörð varð fyrst vör við björninn, það var um klukkan eitt. „Ég var á leiðinni upp í fjárhús sem eru líklega um 25 metra frá íbúðarhúsinu og sá þá björninn koma utan af Rauðanesi sem er í um 100 metra fjarlægð,“ segir Svanhvít.

„Hann kom gangandi eftir kindagötunni og fór meðfram girðingunni fyrir ofan bæinn og fram á þjóðveg. Hann var frekar lítill og mér fannst hann óttalega ræfilslegur. Ég heyrði engin hljóð í honum við fjárhúsið. En hann var ekki nema um 10 metra frá mér og ég flúði inn í íbúðarhúsið, ég ætlaði alls ekki að verða á vegi hans. Maður veit aldrei hvernig þessi dýr bregðast við og þau eru fljót að hlaupa.

Hann fór í kollhnís hérna í gömlum rabarbaragarði við fjárhúsið, hefur víst rekist á girðingu. Hann hnaut bara, þetta var ekki leikur í honum, ég horfði á hann út um gluggann.

Ég hugsaði með mér að ég yrði að láta vita af þessu hvort sem nokkur tryði mér eða ekki. Hann margspurði mig, sá sem svaraði í 112, og hringdi aftur í mig til að sannreyna þetta en hringdi svo í lögregluna, sem mætti birninum svo á veginum við Svalbarðsárbrúna.“

Björninn flýði undan lögreglubíl Jóns Stefánssonar, hljóp niður í gil fyrir neðan bæinn og niður að árósnum og hvarf.

– Veltirðu fyrir þér hvort dýrið væri mjög soltið og gæti reynt að komast inn í húsið?

„Já, ég passaði að hann myndi ekki geta náð mér. Ég fór upp á háaloft þegar ég var búin að hringja, ég hélt að hann ætlaði að dyrunum, þangað upp hefði hann ekki komist.“

Svanhvít er fædd og uppalin á Sævarlandi og býr þar með bróður sínum Geir sem ekki var heima í gær. Svanhvít var einmitt að hugsa um að fara í heilsubótargöngu en hætti við fyrir tilviljun. Ef hún gert það hefði hún lent beint í fanginu á dýrinu, sagði hún. kjon@mbl.is