Léttvín Hugsanlegt er að áfengiskaupaaldur verði lækkaður niður í 18 ár.
Léttvín Hugsanlegt er að áfengiskaupaaldur verði lækkaður niður í 18 ár. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andra Karl andri@mbl.is ENDURSKOÐA ætti áfengiskaupaaldur, heimila áfengisauglýsingar með miklum takmörkunum, koma til móts við íslenska áfengisframleiðendur og styrkja stöðu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

ENDURSKOÐA ætti áfengiskaupaaldur, heimila áfengisauglýsingar með miklum takmörkunum, koma til móts við íslenska áfengisframleiðendur og styrkja stöðu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps fjármálaráðuneytis um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni.

Samræma réttindi

Starfshópurinn telur óraunhæft að ætla að hægt sé að koma í veg fyrir áfengisauglýsingar að öllu leyti. Því sé heillavænlegra að heimila auglýsingar með miklum takmörkunum. Það myndi eyða réttaróvissu og gera eftirlit skilvirkara, auk þess sem slíkt er í samræmi við reglur flestra Norðurlandaþjóða.

Hvað varðar endurskoðun áfengiskaupaaldurs telur starfshópurinn að hann þurfi að samræma öðrum réttindum. Leiðrétta þurfi kerfið til þess að lögunum sé framfylgt og þau séu í samræmi við setta stefnu stjórnvalda í áfengismálum.

Starfshópnum var einnig falið að leggja mat á lagaumhverfi ÁTVR, en lög um stofnunina eru frá árinu 1969 og hafa tekið litlum breytingum síðan þá. Hópurinn telur í því ljósi ákaflega mikilvægt að lög um ÁTVR séu endurskoðuð í heild. Jafnframt að óæskilegt sé að afnema einkasölu ríkisins á smásölu áfengis heldur þvert á móti að styrkja stöðu stofnunarinnar.

Frumvarp lagt fram í haust

Starfshópnum var einnig gert að leggja mat á skattlagningu áfengis. Í skýrslunni kemur fram það mat hópsins að þó nokkurt svigrúm sé til hækkunar ef miðað er við vísitölu neysluverðs. Aukinheldur að ekki eigi aðeins að horfa til skattlagningar áfengis sem tekjulindar fyrir ríkissjóð heldur sem tækis til að stýra áfengisneyslu landsmanna, s.s. í samræmi við áfengisstefnu stjórnvalda.

Skýrslunni hefur verið skilað til fjármálaráðherra sem hefur lagt til að starfshópurinn starfi áfram, til ráðgjafar við gerð frumvarps til nýrra áfengislaga. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi í haust.

Í starfshópnum sitja Þórður Reynisson, fjármálaráðuneytinu (fór í leyfi í byrjun ágúst 2009), Guðmundur Jóhann Árnason fjármálaráðuneytinu (tók við formennsku frá byrjun ágúst 2009), Heiða Gestsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu, Anna Björg Aradóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneytinu, og Helga Hauksdóttir, tilnefnd af tollstjóra.

  • Frumvarp um áfengislög lagt fram í haust
  • Gjörbreyting á áfengislöggjöfinni
  • Skattur notaður til að stýra áfengisneyslu
  • Afnám einkasölu ríkisins talið óæskilegt