Kristrún Guðjónsdóttir fæddist í Arabæ í Gaulverjabæjarhreppi 13. október, 1919. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 11. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðjón Þorsteinsson, f. 22. febrúar, 1888, d. 4.ágúst, 1968, og Bjarnheiður Magnúsdóttir, f. 29. október, 1890, d. 9. apríl, 1921. Systkini hennar samfeðra eru: Sigurður f. 7. maí, 1924, d. 15. júní , 1982, Ingigerður Margrét, f. 29. janúar, 1927, Bjarnhéðinn, f. 16. febrúar, 1928 og Pálmar, f. 17. apríl, 1934. Frá 9 ára aldri ólst hún upp á Ásmundarstöðum í Ásahreppi hjá föðurbróður sínum, Þorsteini Þorsteinssyni, f. 13. október, 1884, d. 27. júlí, 1964 og konu hans, Sigríði Ólafsdóttur, f. 6. janúar, 1889, d. 31. ágúst, 1980. Uppeldisbróðir hennar er Baldur Óskarsson, f. 28. mars, 1932. Kristrún giftist 1941 Magnúsi Guðmundssyni, f. 16. janúar, 1918, d. 15. ágúst, 1995. Foreldrar hans voru Guðmundur Tómasson, f. 11. maí, 1884, d. 2. desember, 1963 og Gróa Einarsdóttir, f. 22. september, 1890, d. 24. mars, 1988. Kristrún og Magnús eignuðust tvo syni: Heiðar f. 16. september, 1941 og Guðmund, f. 13. janúar, 1957. Dóttir Heiðars er Heiðrún P. Heiðarsdóttir, f. 14. nóvember, 1970. Hún er gift Garðari G. Gíslasyni, f. 19. október, 1966. Heiðrún og Garðar eiga þrjú börn: Gísla, f. 17. nóvember, 1991, Karitas Rán, f. 3. ágúst, 1996 og Sæbjörn Hilmi, f. 11. ágúst, 2004. Kristrún og Magnús hófu búskap í Mykjunesi í Holtahreppi 1941 og bjuggu þar fram yfir 1970, er þau fluttu til Reykjavíkur. Þar unnu þau ýmis störf. Hann hjá Sláturfélagi Suðurlands, en hún aðallega við umönnun eldra fólks. Útförin fór fram frá Fossvogskapellu 21. janúar í kyrrþey.

Elsku amma, nú ertu farin frá okkur í stóru ferðina sem þú talaðir stundum um. Það er skrítið til þess að hugsa að við hittumst ekki meir, a.m.k. ekki í þessu lífi. Hér sitjum við eftir og yljum okkur við minningarnar. Þú reyndist mér ávallt vel og alltaf var þér umhugað um Gísla, Karitas og Sæbjörn. Þú spurðir mig alltaf hvernig þeim gengi, svo einnig um sönginn hennar Karitasar sem þið áttuð svo innilega sameiginlegan.

Við gátum spjallað um heima og geima. Það var líka stutt í grínið, þú varst nefnilega heilmikill húmoristi.

Lengi vel fórstu allar þínar ferðir sjálf, tókst strætó og ef þú varðst þreytt þá tókstu bara leigubíl til baka. Mér fannst það bera vott um kraftinn sem í þér bjó.

Erfið veikindi knúðu dyra hjá þér og þrátt fyrir háan aldur þá sigraðist þú á þeim.

Mér er það alltaf minnisstætt þegar ég var nýlega búin að eignast frumburðinn minn og þú hringdir einn morguninn í mig og sagðir ákveðin að ég ætti að taka mig til af því að nú færum við saman að kaupa barnavagn og ég ætti að velja hann. Stuttu seinna varstu komin til mín og við röltum af stað. Svona var gjafmildi þín.

Þegar ég kom til þín í Stóragerðið þá beiðstu alltaf út í glugga þegar ég kom og þegar ég fór þá vinkaðir þú mér út um gluggann, en það var á meðan heilsan leyfði. Svo varstu alltaf með góðgjörðir eins og þú kallaðir það, handa okkur.

Þú varst atorkukona, listræn í eðli þínu og lagðir stund á myndlist, málaðir margar gullfallegar landslags- og blómamyndir. Einnig gerðir þú fallega vasa. Ljóðelsk varstu og mikill bókaunnandi.

Við eigum eftir að sakna heimsóknanna, símtalanna og pakkaferðanna til þín á aðfangadag, sem var ávallt fastur liður hjá okkur.

Ég sakna þín.

Með þessum orðum kveð ég þig elsku amma.

Takk fyrir allt.

Það var eitt kvöld að mér heyrðist hálfvegis  barið,
ég hlustaði um stund og tók af kertinu skarið,
ég kallaði fram, og kvöldgolan veitti mér svarið:
Hér kvaddi Lífið sér dyra, og nú er það farið.
(Jón Helgason.)

Heiðrún Perla Heiðarsdóttir og fjölskylda.

Elsku langamma, ég sit hér og hugsa, og minningarnar streyma fram.

Það er svo ótrúlegt að hugsa til þess að ég muni aldrei heimsækja þig aftur í gömlu blokkina sem þú bjóst í. Ég mun alltaf muna hvað mér þótti lengi vel undarlegt hvað þú varst ekki alltaf á sama staðnum, þá meina ég að við heimsóttum þig svo oft annað hvort heim til þín eða á spítala. Nú loks skil ég hvers vegna.

Þrátt fyrir mikil veikindi, þá barstu þig oft svo vel. Ég man vel þegar það var óvíst hvort þú myndir lifa ein veikindin af, þá nótt lá ég í rúminu mínu og bað. Ég bað til Guðs að þú myndir jafna þig, sem þú síðan gerðir.

Ómögulega get ég sagt að ég hafi þekkt þig mjög vel, enda einmitt núna þegar ég er farin að tala af viti, þá munum við ekki tala saman meir, en þú varst mér alltaf góð. Alltaf þegar við mamma og Gísli komum í heimsókn, þá gafstu okkur kökur, mjólk og gos, spjallaðir við okkur um allt mögulegt. Því miður man ég svo lítið af því, ég var svo lítil.

Minnisstæðast er það mér þegar ég kom á spítalann til þín í eitt skiptið og eins og venjulega, spurðirðu mig hvernig mér gengi í söngnum. En ekki nóg með það, heldur baðstu mig um að syngja. Þó ég væri fremur feimin til þess, enda á spítala, þá endaði það þannig að við sungum Álfareiðina saman. Síðan spurðirðu hjúkrunarkonuna sem átti leið hjá, hvort við hefðum ekki sungið glæsilega. Aldrei mun ég koma til með að gleyma þessu.

Takk fyrir yndisleg þrettán ár, þó ég muni kannski ekki mjög mikið af þeim, þá eru þau mér afar kær. Vita máttu að ég mun aldrei gleyma þér.

Upp himininn stjörnurnar lýsa, því kvölda bráðum fer.

Þó þær séu sem gull, þá er eitt sem fegurra er.

Ljósið í augum þínum, svo undurfagurt og skært,

sem sýndi mér allt það góða og allt sem er mér kært.

Þó líf mitt haldi áfram, þá fer hamingjan þverr,

því ljósið sem þar var, núna slokknað er.

Og þó ég felli tár, þá brosi ég í senn,

því þó þú sért farin, þá lifir minningin enn.

Þitt langömmubarn,

Karitas Rán Garðarsdóttir.

Í sumar sem leið skrapp ég austur í Mykjunes eftir að hafa ekki komið þangað árum saman, sennilega ekki síðan daginn eftir stóra skjálftann á þjóðhátíðardaginn árið 2000 sem risti sundur túnið austur í Gerði, austur undir Pokalá sem hét nú raunar Baggalág en var alltaf kölluð Pokalá.

Sem ég gekk ögn austur fyrir bæinn upp í litla brekku gat ég horfið inn í lundinn trjáa sem Rúna plantaði þar um miðja síðustu öld, svo hávaxin og mikil um sig eru þau orðin eftir allan þennan tíma og byrgja næstum sólarsýn og gætu gefið skjól fyrir hitabylgju.

Sé eitthvað að marka það sem Sobbeggi afi skrifar í Sálminum að látnir lifi, og ekki þannig endilega að þeir fari til himna heldur lifi áfram ósýnilegir allt í kringum okkur sem höldum áfram þessu hversdagslega lífi, þá ætti það að vera leikur einn fyrir Rúnu að skreppa austur í Mykjunes og láta sig hverfa þar inn í lundinn háu trjánna og hlusta á þytinn í greinunum í golunni sem búast má við að geri þá eins og í gamla daga þegar leið á dag og að kvöldi.

Og rétt eins og Sobbeggi afi og Mammagagga gátu brugðið sér að  heiman, úr handanheiminum, hann frá skriftum og útvarpshlustun í  fjallakofanum og hún frá því að mála myndir við svanavatnið, til þess að horfa á Lilluheggu dansa ballett, ætti Rúna núna að geta brugðið sér á hverja þá tónleika aðra sem hana langar á og til dæmis þá hlustað á Heiðar spila á nikkuna eða Guðmund á píanóið, syni sína; og Magnús er þarna einhversstaðar líka náttúrlega á sveimi.  Og allir á besta aldri.

Trausti Steinsson.