John Stanley Martin var fæddur 9. júlí 1933 í Melbourne. Hann lést 17. janúar 2010. Foreldrar hans voru John Herbert Martin og Eileen Gladys Martin. Jim, bróðir John, sem er sex árum eldri, býr í Melbourne. Kona Johns var Helen Elizabeth Lawrence Tucker hjúkrunarfræðingur, sem lést 29. október 2007. Þau ættleiddu synina Nigel og Robert. Robert er kvæntur Emma Ristow Martin og saman eiga þau dótturina Olivia Grace. Áður átti hann dótturina Sarah Elizabeth. John hóf skólagöngu 1938 og stundaði síðan nám við ýmsar menntastofnanir í Ástralíu og á Norðurlöndum. Hér á landi var Sigurður Nordal helsti kennari hans. John hóf kennslu 1955 og varð prófessor við Háskólann í Melbourne 1969 í sænsku og forníslensku. Eftir hann liggur fjöldi ritsmíða. Hefur hann m.a. tekið saman yfirlit um landnám Íslendinga í Ástralíu. Hann var forsvarsmaður Ástralsk-íslenska félagsins í Melbourne frá um 1969 til dauðadags, en það félag var reist á grunni starfs Augustin Lodewyckx. Auk þess að vera forsvarsmaður og stjórnandi í íslenska félaginu var John á sama hátt stjórnandi félaga annarra norrænna þjóða í Melbourne. Voru þau hjónin einnig í fjölmörgum öðrum félögum og störfuðu í sænsku kirkjunni í Melbourne og voru þar í kirkjukór. Útför John Stanley Martin fór fram frá sænsku kirkjunni í Melbourne 22. janúar 2010.

Dr. John Stanley Martin fæddist 1933 og var því á 77. aldursári þegar hann lést.
Eftir að kona hans Helen lést fór hann í ferðalag til Evrópu og heimsótti þá ættarslóðir sínar á Írlandi. Eftir ánægjulega ferð var hann staddur á Ítalíu þegar hann veiktist skyndilega. Það kom í ljós að hann hafði fengið krabbamein og þrátt fyrir góða læknisaðstoð tókst honum ekki að sigrast á því meini.
Árið 1958 kynntist ég John þegar ég var 12 ára í sveit á Litlu-Laugum í Reykjadal hjá systkinunum Degi og Sigurbjörgu. John sem þá var við nám í Háskóla Íslands dvaldi á Litlu-Laugum hluta úr sumri. Man ég vel eftir að hann talaði oft við systkinin á ensku. Þar sem hann var þegar farinn að tala íslensku töluðum við John einnig saman um ýmislegt, en hann var fjölfróður og Ástralía og suðurhvelið var alveg nýr heimur fyrir mér. Hann spurði gjarnan um tilurð orða og málshátta. Búskapur á Litlu-Laugum var þá ekki stór í sniðum og að hluta til eftir gamla laginu. Sum orðatiltæki urðu því ljósari fyrir bragðið.
Árið 1993 heimsótti John okkur hjónin ásamt eiginkonu sinni Helen, en við höfðum þá verið í bréfasambandi um skeið. Hér á landi átti hann marga kunningja og vini. Einn af þeim var Vilbergur Júlíusson sem tók vel á móti honum ásamt eiginkonu sinni Pálínu Guðnadóttur, en á námsárum sínum hér hafði John búið á heimili þeirra og var alltaf mikill kunningsskapur á milli þeirra.
Þegar ég var á ferðalagi 1997 ásamt konu minni heimsóttum við John og konu hans í Melbourne. John hafði þá látið af störfum sem prófessor við Háskólann í Melbourne. Hann var þó enn við kennslu- og fræðistörf. Þó að það kæmi mér ekki á óvart varð mér ljóst meðan ég dvaldi þar að samband Johns við Íslendinga í Melbourne var mikið.
Allt frá því Augustin Lodewyckx var í því starfi, sem John tók við síðar, var samband norrænu deildarinnar við Íslendinga mikið. Var John í sameiginlegu starfi samtaka Íslendinga í Ástralíu, en einkum í Melbourne. Hann var einnig af fullum krafti í starfi samtaka annarra norrænna þjóða. Starf norrænuþjóðanna í Melbourne tengdist svo sænsku kirkjunni þar. John hafði því samskipti við margra þjóða fólk og sýndi menningu þess og tungumálum mikinn áhuga.
Þegar við hjónin komum í sænsku kirkjuna með John var sænski presturinn að slá blettinn fyrir utan. John sagði okkur að presturinn þjónaði Íslendingum og sækti helstu samkomur þeirra.
Það er sagt að það hafi orðið mikil þáttaskil í lífi Johns þegar hann tók þá ákvörðun að læra forníslensku. Frá þeim tíma hafi hann verið eins og í leynifélagi fyrir lífstíð. Kennari hans í upphafi var Prófessor Augustin Lodewyckx, sem var fyrirrennari Johns við norrænu deildina í Melbourne. Augustin var mjög áhugasamur um íslenskukennsluna og nemendur hans fengu að vita af því að John væri á Íslandi í námi. Í norrænu deildinni kynntist John einnig m.a. fræðimanninum prófessor Ian Maxwell.
Eftir námsdvöl sína á Íslandi fór John til náms í Kaupmannahöfn og í Uppsölum. Í Svíþjóð var hann sæmdur sænskri orðu 1988 vegna starfa sinna.
Norrænu þjóðirnar í Melbourne kunnu að meta hlutverk Johns í starfi sínu. Kunnátta hans í tungumálum þjóðanna var rómuð og að hann ruglaði málunum ekki saman.
Mér er sagt að Íslendingar í Melbourne séu þakklátir fyrir fjörutíu ára starf Johns í þágu íslenska félagsins, en félagið var stór hluti í lífi hans. Frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar gaf hann út nær árlega ritið: Á suðlægri strönd og naut þá stuðnings Vilbergs Júlíussonar sem hafði dvalið í Ástralíu um nokkurt skeið. Fram að sjötta áratug síðustu aldar töldust vera fáir Íslendingar í Melbourne. Það breyttist síðar þegar fólksflutningar Íslendinga hófust eftir 1968. Þeir komu þá í menningarheim sem þeir þekktu ekki og sagt er að þá hafi John fundið þörf fyrir föðurlega umsjá sína. Hann ásamt Sigmundi Finnssyni stofnaði því Ástralsk-íslenska félagið. Í byrjun var starfsemi félagsins blanda af félagslegum og menningarlegum viðburðum og þá mjög í anda íslenskrar sögu.
Við fráfall Sigmundar 1976 og vegna námsferðar Johns 1977 til Evrópu dró nokkuð úr starfsemi félagsins um tíma. Við komu Johns til baka jókst starfsemin aftur og var með svipuðu sniði. Þjóðhátíðardagurinn 17. júní varð þá hápunktur í starfi félagsins.
Straumhvörf urðu í félaginu milli 1970 og 1980 vegna fjölgunar innflytjenda frá Íslandi og einnig af því að Ástralar fóru í fiskvinnu til Íslands eða sem ferðamenn. Íslendingar komu svo líka sem námsmenn eða vegna tengsla við Ástralíu. Félagið varð félagslegur klúbbur og mánaðarlega var þar haldin kvöldvaka. Heimili Johns og Helen stóð alltaf opið þegar halda skyldi slíkar kvöldvökur. John var mjög ánægður þegar í boði var hefðbundinn íslenskur matur. John þótti eiga heiður skilinn fyrir hlut sinn í jólatrésskemmtun barnanna. En þar kom hinn raunverulegi jólasveinn norðurpólsins. Þá var dansað í kringum jólatréð og sungnir hefðbundnir íslenskir jólasöngvar. John var þá alltaf fremstur í flokki í dansinum.
John var vel menntaður, fjölfróður og minnisgóður. Hann talaði fjölda tungumála auk norrænu tungumálanna. Hann var vinsæll kennari og félagslyndur. Hann hafði unun af ferðalögum og kynnum af ólíkum þjóðum og menningu þeirra.
Sagt er að John hafi gjarnan verið fullur glaðværðar og þannig hef ég kynnst honum. Hann hafði ríka réttlætiskennd og var á bandi Íslendinga í deilum okkar við Breta að fornu og nýju.
John kynntist mörgum Íslendingum um ævina, en flestir vinir hans hér á landi eru horfnir. Það var gæfa Íslendinga sem komu til Melbourne að kynnast honum og njóta starfskrafta hans.
Líklega er norræn samvinna hvergi sterkari en í Melbourne og allar norrænu þjóðirnar voru John kærar. Í tilviki hans hefur íslenskur fornmenntaarfur haft í för með sér félagslegan stuðning við Íslendinga stadda í fjarlægri heimsálfu eins og stundum verður þegar mest þörf er á.
Votta ég sonum Johns þeim Nigel og Robert og öðrum í fjölskyldum Johns og Helen dýpstu samúð við fráfall Johns og kveð mikinn öðlingsmann.

Örn Gíslason.