Þuríður Jónsdóttir fæddist í Syðri-Tungu í Staðarsveit 4.10. 1925, hún lést 8.3. sl. á Dvalaheimilinu Höfða á Akranesi. Hún var dóttir hjónanna Elínborgar Sigurðardóttur og Jóns Kristjánssonar en eldri hálfsystkin voru Rannveig, Guðrún og Lárus en þau eru öll látin. Trausti albróðir Þuríðar er nú einn eftirlifandi úr systkinahópnum. Hún flutti í frumbernsku í Melabúð á Hellnum og ólst þar upp fram á fullorðinsár. Þuríður giftist 26.3. 1949 Sigurði Kristni Árnasyni sjómanni, f. 24.9. 1926, d. 8.1. 1995. Þeim varð 5 barna auðið. Þau eru í aldursröð: Jón, f. 11.12. 1948, kvæntur Rún Elfu Oddsdóttur, þeirra börn eru þrjú. Kristín, f. 16.11. 1951, d. 16.2. 2009, hennar maður var Gunnar Þór Júlíusson og eiga þau einn son. Árni, f. 28.12. 1953 og á hann tvo syni. Sævar, f. 17.8. 1959 og á hann einn son. Grétar, f. 23.9. 1961, d. 27.4. 1993. Barnabörn Þuríðar eru 7 en 2 eru látin, og langömmubörn 14 en 1 er látið. Auk þess að sinna húsmóðurstörfum vann Þuríður við fiskvinnslu og við ræstingar á Sjúkrahúsi Akraness en það var hennar seinasti vinnustaður. Þau hjónin bjuggu lengst af sínum búskap á Vesturgötu 134 á Akranesi. Hún hefur síðustu 19 árin verið vistmaður á Dvalaheimilinu Höfða á Akranesi þar sem hún hefur notið frábærrar aðhlynningar. Útför Þuríðar fór fram í kyrrþey að hennar ósk frá Akraneskirkju 23. mars sl.

Elsku amma. Það er með söknuði að ég rita þessar línur. Við áttum saman margar ógleymanlegar stundir á liðnum árum. Ég man fyrst eftir ferðalagi með ykkur afa þegar þið bjugguð á Vesturgötunni. Þá fórum við hringinn og man ég vel eftir mörgu úr þeirri ferð, þó ungur hefði verið. Þegar afi veiktist var ég bara 6 ára og ég man vel eftir hversu frábærlega þú stóðst þig í að annast hann öll árin sem hann lifði. Þú varst í mínum huga ein af alþýðuhetjum þessa lands. Þú tókst hvaða hlut sem var af æðruleysi og leist frekar á vandamál sem verkefni sem þyrfti að leysa en einver vandamál. Við amma vorum alla tíð mjög góðir vinir og gátum rætt saman um alla mögulega og ómögulega hluti. Ég gisti oft hjá ömmu og afa og kom mikið við hjá þeim alla tíð, var á tímabili daglegur gestur hjá þeim þegar þau bjuggu á Höfðabrautinni. Við ritun þessa orða koma tvær einstaklega skemmtilegar minningar upp í hugann sem lýsa ömmu ágætlega. Önnur gerðist sumarið 1991 þegar haldið var ættarmót á Arnarstapa. Ættarmótsnefndin hafði leigt samkomuhúsið á staðnum og á laugardeginum gekk ég með ömmu og fleiri ættmennum gömlu leiðina sem hún gekk í skólann á sínum yngri árum, þ.e. með sjónum frá Hellnum yfir á Arnarstapa. Þetta var frábær ganga í góðu veðri og unun að heyra lýsingar ömmu á því hvernig þetta var þegar hún var ung. Um kvöldið var svo kvöldvaka þar sem heimatilbúin skemmtiatriði voru á boðstólnum. En þannig vildi til að á sama tíma var auglýstur rándýr skemmtikraftur að sunnan með tónleika í Arnarbæ. Ég laumaði mér yfir með konunni og bjóst ekki við að nokkur saknaði okkar. Þegar við settumst í salinn var hann nánast tómur þannig að við komum okkur fyrir framarlega við sviðið. Fjölgaði svo í salnum er leið á tónleikana og skemmtikrafturinn að sunnan virtist vera ánægður með undirtektirnar í salnum, en það átti heldur betur eftir að breytast. Í miðju lagi heyri ég einhvern skarkala aftast í salnum. Skiftir engum togum að amma rýkur upp á svið vopnuð stól, skellir honum í gólfið, þannig að skemmtikrafturinn snarþagnaði, og þrumaði yfir salinn þið eigið að vera á ættamóti og viljið þið hunska ykkur yfir. Kom nú aldeilis hreyfing á mannskapinn og allir nema þrír þustu út. Það höfðu greinilega fleiri en ég fengið sömu hugmyndina. Úr varð hin besta kvölskemmtun og enginn skemmti sér betur en amma. Ég var ótrúlega stolltur af ömmu þetta kvöld. Árið 1995 var ég að vinna í Ísafjarðardjúpi og amma kom í heimsókn til viku dvalar. Þá var spjallað og spilað og hún prjónaði helling, en að því kom að umræðuefni þraut og ákváðum við að bregða okkur á næsta bæ í smá kaffi. Það var allt á kafi í snjó og ég skellti ömmu í kraftgalla og fórum við á vélsleðanum upp að bænum. Ferðin gekk vel og fór ég varlega með þennan dýrgrip á sleðanum. Við bæinn hafði myndast mikill og hár skafl og keyrði ég upp á hann og stöðvaði sleðann fyrir ofan dyrnar. Sennilega var hallinn á sleðanum of mikill því þegar ég drap á honum heyrði ég einhver undarleg hljóð að baki mér. Þegar ég leit við blasti amma við mér á bakinu á fullri ferð afturábak og stefndi niður á tún. Ég og bóndinn tókum undir okkur stökk og reyndum að hlaupa hana uppi, en til að byrja með dró heldur í sundur með okkur. Loksins eftir að mér fannst heila eilífð stöðvaðist hún og við náðum til hennar með öndina í hálsinum. Gamla konan skríkti og veinaði af hlátri og sagði að þetta hefði verið ein skemmtilegasta salibuna sem hún hefði nokkru sinni farið. Hún rölti svo með okkur í kaffi á bæinn algerlega ómeidd með öllu. Elsku amma, far þú í friði og þakka þér fyrir allar ógleymanlegu stundirnar.

Þinn

Sigurður Arnar Jónsson.