Berglind Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 15. desember 1964. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 9. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Bjarni Ólafur Helgason, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, f. 7. maí 1930, d. 9. febrúar 1983, og Hrönn Sveinsdóttir, f. 31. maí 1936. Systkini Berglindar eru Helga Bjarnadóttir, gift Eiríki Ellertssyni, Sveinn Frímann Bjarnason og Svava Bjarnadóttir gift Guðjóni Pétri Arnarsyni. Berglind giftist hinn 7. október 1989 Sigurði Blöndal, f. 28. janúar 1953. Foreldrar hans eru Magnús Blöndal, f. 29. júní 1918, og Ingiríður Jónasdóttir Blöndal, f. 9. október 1920, d. 8. mars 2005. Berglind og Sigurður eignuðust tvíburana Indriða Hrannar Blöndal og Bjarndísi Helgu Blöndal 22. apríl 1994. Fyrir átti Berglind Söndru Sigurðardóttur, f. 6. febrúar 1983, með sambýlismanni sínum, Sigurði Sigurðarsyni. Börn hennar og Davíðs Heimissonar eru Birta Marín og Bjarni Marel. Sigurður átti fyrir Elísabetu Ósk, f. 19. júní 1976. Hennar börn eru Aron Pétur og Viktor. Bjarki, f. 11. janúar 1981. Sonur hans er Tómas Valur. Sólveig Hrönn, f. 1. mars 1985. Berglind lauk námi sem leikskólakennari 1988 og starfaði við það þar til hún gerðist leiðbeinandi við Grunnskólann á Þingeyri 1991. Hún kenndi síðan við Grunnskólann í Hveragerði frá 1998, en lauk kennaraprófi í fjarnámi með kennslu frá KHÍ 2004. Útför Berglindar fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 21. maí 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Ó hversu sárt er að kveðja þið elsku mamma mín. Það er ósanngjarnt að þurfa að kveðja þig svona snemma. Eins og þú sagðir sjálf og þá varstu svo ung og ungleg  að það mátti varla sjá hvor væri mamman, ég eða þú. Enginn á að þurfa að kveðja þennan heim svona snemma.  En ég veit að þú ert á góðum stað og munt vaka yfir okkur.  Ég ætlaði ekki að kveðja þig í bráð og eins og þú sagðir sjálf, þá hélt  ég að þú ættir nóg eftir, ætlaðir að minnsta kosti að sjá Bjarna minn fermdan og ef þú næðir því ekki þá var næsta markmið að sjá tvíburana með stúdentshúfuna á höfðinu. En krabbinn  spyr ekki að því, hann var of erfiður. Þér of erfiður og læknunum of erfiður. Það var þó ekki að spyrja að lífsviljanum, baráttunni  og kraftinum sem þú bjóst yfir. Ekkert var ómögulegt og þú gast allt og gerðir allt sem þú ætlaðir þér. Þrjár lyfjameðferðir með öllu því sem tilheyrir. Það á enginn að þurfa að ganga í gegnum þetta. Ekki kvartaðir þú, heldur fórst í gegnum þetta  á hörkunni og húmornum.

Elsku mamma, þú varst sérstök, það kemst enginn með tærnar þar sem þú varst með hælana og það reynir enginn að feta í þín fótspor. En ég get sagt með stolti að þú ólst mig upp, kenndir mér á lífið og gafst mér óendanlega mikla þolinmæði, hlýju, ást og kærleika. Ég er þér mikið þakklát fyrir það, ég get stolt sagt, að þú varst mamma mín!!

Þú varst límið sem hélst fjölskyldunni saman, þú varst kjarninn í systkinahópnum, þú varst gleðigjafi allra og allsstaðar sem þú komst varstu hrókur alls fagnaðar. Þar sem þú komst var aldrei lognmolla, maður heyrði langar leiðir þar sem þú varst. Þar var hlátur og fjör. En loforð gáfum við þér og það var að standa saman hvað sem á gengur, að standa saman sem fjölskylda og það munum við gera. Þó það sé sárt að kveðja þá veit ég að þú hefur það núna gott

og líður vel, enginn krabbi, engin lyf og ekkert sjúkrahús lengur!!!

En við höfum margar góðar minningar til að minnast þín, já heldur betur margar. Við vorum meira eins og vinkonur heldur en mæðgur, við tvær. Gátum hlegið, rifist, skammast, fíflast og kjaftað saman. Hvað gerir maður án bestu vinkonu sinnar og mömmu. Hvert snýr maður sér þá ..... ég á eftir að sakna minnstu og sjálfsögðustu hlutunna mest.

Að heyra ekki í þér á hverjum degi, fara í biltúr á nýja kagganum þínum, leggjast uppí rúm til þín og kjafta. Að heyra þig kalla á ömmuengilinn þinn og ömmuljósið þitt. Ég er þér ævinlega þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og börnin mín. Þú sagðir alltaf að þitt hlutverk væri að sjá um trúarlegt uppeldi á börnunum  mínum líkt og amma Helga sá um þitt trúarlega uppeldi. Þínu hlutverki var ekki lokið líkt og svo mörgum öðrum hlutverkum í lífi þínu var ekki lokið. Nú stýrir þú og skipar fyrir uppi, hjá afa Bjarna, ömmu Helgu og ömmu Beggu.

Ó elsku mamma hvað geri ég án þín ..... allar spurningarnar sem ég var vön að leita til þín með, hver svarar þeim núna?

Þú ert horfin elsku móðir mín
mildur Drottinn tók þig heim til sín.
Eftir langan og strangan ævidag
ljóma sló á fagurt sólarlag.
,/
Mínar leiðir lágu burt frá þér.
Ljúfar kærleiksbænir fylgdu mér.
Í veganesti fékk ég frá þér kjark
sem fylgt mér hefur gegnum lífsins
hark.
,/
Ég þakka af hjarta elsku móðir mín.
Hve mild og hlý var alltaf höndin þín.
Langt er síðan leiddir þú við hlið
litla stúlku út í sólskinið.
(K.J.)

Þín verður ávallt minnst með söknuði og gleði í hjarta. Elska þig óendanlega mikið.

Þín

Sandra.