11. júní 2010 | Minningargreinar | 7161 orð | 1 mynd

Pétur Sigurgeirsson

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Sigurgeirsson fæddist 2. júní 1919 á Sjónarhæð á Ísafirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 4. júní sl. Foreldrar hans voru Guðrún Pétursdóttir húsfreyja og Sigurgeir Sigurðsson, prestur og prófastur á Ísafirði og síðar biskup Íslands. Pétur var elstur fjögurra systkina. Eftirlifandi systir hans er Guðlaug, næringarfræðingur, gift Sigmundi Magnússyni lækni.

Eftirlifandi eiginkona Péturs er Sólveig Ásgeirsdóttir, f. 1926, en þau gengu í hjónaband árið 1948. Sólveig og Pétur eignuðust fjögur börn. Elstur er Pétur, f. 1950, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann er fráskilinn og á fjögur börn og fjögur barnabörn. Guðrún, f. 1951, er látin. Hún var ógift og barnlaus. Kristín, f. 1952, húsmóðir, gift Hilmari Karlssyni lyfjafræðingi. Þau eiga tvö börn. Sólveig, f. 1953, starfar sem félagsráðgjafi. Hún á tvö börn og tvö barnabörn. Sambýlismaður Sólveigar er Ásgrímur Halldórsson bóndi.

Pétur lauk prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1944 og hélt eftir það til framhaldsnáms til Bandaríkjanna og hlaut meistaragráðu við Mt. Airy Seminary í Philadelphia. Hann nam einnig blaðamennsku, ensku og biblíufræði við Stanford-háskóla í Kaliforníu. Fyrst eftir heimkomu frá námi vann hann við ritstjórn Kirkjublaðsins. Árið 1947 vígðist Pétur aðstoðarprestur á Akureyri og ári síðar var hann skipaður sóknarprestur í Akureyrarprestakalli. Árið 1969 varð Pétur vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi og árið 1981 tók hann við embætti biskups Íslands sem hann gegndi til ársins 1989.

Útför Péturs verður gerð frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag, 11. júní 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Með andláti herra Péturs Sigurgeirssonar biskups hverfur af sjónarsviðinu einstakur maður. Pétur var einn göfugasti maður sinnar samtíðar. Í hans persónuleika fór saman heiðarleiki, mikil og sönn trúarvissa, góðleiki og drengskapur.

Pétur var glæsilegur maður á velli og geislaði af honum göfuglyndið og góðmennskan. Ég gleymi því aldrei, þegar ég sá hann í fyrsta skipti. Það var árið 1981, en þá var stutt viðtal við hann í sjónvarpi. Pétur var þá í framboði til biskupskjörs. Ég vissi engin deili á þessum manni, enda nýkominn til Íslands eftir langa dvöl erlendis. Þegar Pétur birtist á skjánum sá ég í kringum hann undursamlega hvíta birtu, sem hjúpaði hina fögru ásýnd hans. Ég var djúpt snortinn og sagði ósjálfrátt við sjálfan mig: „Mikið vona ég að þessi maður verði næsti biskup Íslands.“ Mér varð að ósk minni og síðar varð ég svo lánsamur að kynnast Pétri og hans yndislegu konu, frú Sólveigu. Það eru mikil forréttindi að hitta manneskjur á lífsleiðinni, sem af stafar þvílík birta kærleika og göfuglyndis. Slíkt fólk lýsir upp og eyðir öllu óhreinu í kringum sig ósjálfrátt. Slíkur maður var herra Pétur Sigurgeirsson biskup.

Við hjónin kveðjum hann með hjartans þakklæti. Eiginkonu hans og fjölskyldu sendum við dýpstu samúðarkveðjur.

Gunnar Kvaran.

Sr. Pétur var sannkallaður mannvinur. Hann sá leiðir og möguleika í öllum aðstæðum lífsins og benti alltaf á hið góða í fari manna. Það geislaði af honum og nærvera hans var sterk og máttug.

Frá bernsku naut ég þess að eiga hann að vini. Hann lét sér annt um mig og mína líðan og fylgdist með mér í öllum verkum mínum allt til hinstu stundar. Pétur gaf líf sitt og starf til þjónustu við kirkju og kristni. Hans hugmyndir um kirkjuna voru ekki að gera hana að hárri stofnun sem stefndi til himins. Hann vildi breiða hana út svo hún mætti snerta sem flesta. Að ofan kom svo krafturinn og eldmóðurinn.

Sr. Pétur var leiðtogi okkar unglinganna í æskulýðsstarfi á Akureyri ásamt sr. Birgi Snæbjörnssyni. Nærvera Péturs hafði sterk áhrif á okkur. Hann kenndi okkur að vera bjartsýn. Kenndi okkur að gefast aldrei upp, hlusta ekki á úrtölur heldur sjá vonina og möguleikana. Hann tók ekki nei fyrir nei. Mér er minnisstætt þegar við fórum saman á fund bankastjóra Landsbankans á Akureyri, Jóns Sólnes, til að biðja um fyrirgreiðslu vegna Sumarbúðanna að Vestmannsvatni. Pétur bað um víxillán sem bankastjórinn sagði að væri ekki lengur í boði hjá bankanum. Eftir nokkrar umræður stóð Pétur upp, tók í hönd Sólnes og þakkaði honum fyrir elskulegheitin og víxillánið. Sólnes yggldi sig og spurði mig hvort þessi maður skildi ekki hvað hann segði. Þá bætti Pétur við: „Við erum báðir afar þakklátir fyrir þín elskulegheit,“ og með það fórum við. Lánið kom sem víxillán og vakti furðu meðal starfsfólks bankans. Þessi litla frásaga lýsir sr. Pétri vel. Hann sá alltaf ljós og kunni að koma því gegnum læstar dyr.

Sr. Pétur var mér ekki aðeins vinur, því hann var vígslufaðir minn og vígði mig í Akureyrarkirkju til prestsþjónustu, þá sem vígslubiskup. Hann var einnig fermingarfaðir minn. Hann virti mínar skoðanir og átti ekki erfitt með að tala um ólík viðhorf ef slíkt var uppi. Oftar en ekki sagði hann við mig: „Vertu þú sjálfur og hlustaðu á þína eigin samvisku, svo opnar Guð leiðina.“ Líf hans og nærvera var mótandi og gefandi. Þau Sólveig voru vinir foreldra okkar bræðranna og Guðrún heitin dóttir þeirra bekkjarsystir mín frá sjö ára aldri til stúdentsprófs. Í öllum þess samskiptum var Pétur heill og óskiptur. Fyrir slíkt ber að þakka. Þakka leiðsögn og líf sem var sterk fyrirmynd. Guð blessi minningu hans og gefi fjölskyldu hans styrk í bjartri og helgri minningu hins sanna og trúa mannvinar.

Pálmi Matthíasson.

„Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.“

Þessi orð Páls postula koma mér í hug þegar ég minnist vígsluföður míns, herra Péturs Sigurgeirssonar biskups. Hann var svo sannarlega fullur af áhuga og eldmóði, glaður og hress í hvert sinn er fundum okkar bar saman. Hann átti sterkt innra ljós sem lýsti skært og hafði djúp áhrif á alla sem honum kynntust.

Pétur kom víða við á akri mannlífsins. Hann hafði breiðan skilning á eðli kirkjunnar og sá þjóðfélagið allt, mannlífið í heild, sem líkama Krists, að verki fyrir mann og heim til dýrðar Drottni. Hann vissi það sem lúterskur guðfræðingur að félög og stofnanir þjóðfélagsins gegna mikilvægu hlutverki sem er í flestum tilfellum trúarlegt þegar dýpst er skyggnst. Þjóðfélagið þarfnast hugsjónamanna og félaga sem vinna að eflingu mannlífsins, rækta manninn. Kirkjan og æskulýðsfélög innan hennar, Skátahreyfingin, Lionshreyfingin, Góðtemplarareglan, Oddfellowreglan og Frímúrarareglan eru til að mynda félög sem sinna mannrækt og góðgerðarstörfum. Pétur kom víða við í störfum sínum og vann með fólki í mörgum félögum og hreyfingum.

Hann gekk í Frímúrararegluna lýðveldisárið 1944. Hann starfaði þar af áhuga og voru honum falin vandasöm verk sem hann leysti af stakri prýði. Með starfi sínu í Frímúrarareglunni fetaði hann í fótspor föður síns og gegndu þeir báðir, hvor á sínum tíma, embætti æðsta kennimanns reglunnar. Fyrir störf Péturs á þeim vettvangi var mér falið að færa þakkir fyrir mikið framlag hans og votta fjölskyldu hans samúð.

Pétur gekk jafnan hreint til verks og glaðbeittur. Hann hafði sterka köllun. Á seinasta fundi okkar talaði hann m.a. um kirkjuna og Regluna, friðarmál og íslenskt þjóðfélag. Hann fylgdist ætíð vel með öllu sem var að gerast og sá hvarvetna verðug verk að vinna og mál að leysa. Hann fór með ritningargreinar sem hann kunni utanbókar, til að mynda þessi orð:

„Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar. Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð. Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.“

(2. Kor 5.19-21)

Ég tel að köllun hans birtist skýrt í þessum orðum postulans, að boða sátt milli Guðs og manns. Sú sátt er í Kristi. Hann er meðalgangarinn milli Guðs og manna. Hann tengir saman himin og jörð, tíma og eilífð. Pétur biskup var og er Guði falinn. Hann var trúr og góður þjónn Drottins á akri mannlífsins. Blessuð sé minning hans og Guð blessi fólkið hans allt, kirkjuna og mannlífið í leitinni að ljósi og sannleika.

Örn Bárður Jónsson.

Minning Péturs Sigurgeirssonar biskups er björt og hlý. Þannig var hann sjálfur, uppörvandi, umhyggjusamur og einlægur.

Ég kynntist þeim heiðurshjónum, frú Sólveigu og séra Pétri, þegar ég hafði prédikunarskyldu við Akureyrarkirkju sumarið 1981, langt kominn í guðfræðinámi. Þau tóku mér strax opnum örmum og oft á seinni árum nefndi Pétur að fyrra bragði þessa góðu sumardaga á Akureyri.

Eitt laugardagskvöldið var þó illt í efni hjá mér, kominn með 39 stiga hita en átti að prédika í Akureyrarkirkju morguninn eftir. Eftir umhugsun hringdi ég í séra Pétur, greindi frá stöðunni og taldi sjálfgefið að ég gæti ekki prédikað. Sennilega hefur hann haldið að ég væri að reyna að koma mér undan verkefninu og lét sem hann skildi ekki vandann, prestar yrðu að geta staðið frammi fyrir söfnuði þótt illa stæði á hjá þeim sjálfum. Vitanlega steig ég í stólinn daginn eftir og þetta atvik varð mér til blessunar en ekki tjóns. Jafnframt sýndi það mér að Pétur gat verið ákveðinn og óhagganlegur þótt hann héldi alltaf sínu ljúfa fasi og sýndi aldrei hroka eða yfirgang í samskiptum.

Síðsumars var séra Pétur kjörinn biskup Íslands og vorið 1982 vígði hann mig prestsvígslu. Alla tíð síðan reyndist hann mér sem góður og umhyggjusamur faðir, óspar á hvatningu og hrós og brennandi í andanum þótt líkamlegri heilsu hrakaði stöðugt. Síðustu árin átti hann það til að hringja til að ræða hugðarefni sín eða öllu heldur hugsjón því öll hugsun hans snerist um að varðveita og styrkja kristna trú meðal þjóðarinnar og láta fagnaðarerindið hljóma.

Þrátt fyrir trúnaðarstörf og vegtyllur og þrátt fyrir að gegna æðsta embætti íslensku þjóðkirkjunnar varðveitti Pétur Sigurgeirsson ævilangt einlægni barnsins. Hann flækti ekki málin heldur kom ótrúlega miklu góðu og jákvæðu til leiðar með einfaldri framsetningu og yfirlætislausri framkomu.

Við hlið hans stóð frú Sólveig, það var einhvern veginn alltaf svo sjálfsagt og sjálfgefið. Hafi hún þökk fyrir sinn þátt í ævistarfi og lífshlaupi Péturs Sigurgeirssonar og blessuð sé minning hins góða vinar, trúfasta þjóns og ástsæla leiðtoga.

Ólafur Jóhannsson.

„Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum.“ Þessi orð postulans koma strax upp í hugann þegar ég með nokkrum orðum vil minnast Péturs biskups Sigurgeirssonar. Eitt af aðaleinkennum hans sem persónu var ljúflyndi hans, kærleikur og umhyggja fyrir öllu samferðafólki.

Það var fyrir rúmum fjörutíu árum að ég hélt til Akureyrar ásamt félögum í nýstofnuðu æskulýðsfélagi Langholtskirkju. Fyrir norðan tók séra Pétur Sigurgeirsson sóknarprestur á móti okkur, á ógleymanlegan hátt.

Í þeirri ferð kom í ljós að barna- og æskulýðsstarfið á Akureyri átti hug hans allan. Síðar átti eftir að koma í ljós að séra Pétur lyfti grettistaki á vettvangi æskulýðsmála.

Heimsókn æskulýðsfélaganna átti sér stað að vetrarlagi og var mikil ófærð á götum Akureyrar vegna snjóþyngsla. Eitthvað hafði ég heyrt um það getið fyrir sunnan að akstursmáti sér Péturs væri merkilegur um margt. Eftir heimsóknina varð mér ljóst að sögusagnir um akstursmáta prestsins voru ekki ýktar. Hvað eftir annað máttum við „æskulýðsfélagarnir“ teljast heppnir að komast á áfangastað, eða þannig.

Nokkrum árum síðar heimsótti ég Akureyri ásamt nokkrum guðfræðinemum við Háskóla Íslands. Fyrir norðan tók á móti okkur Jón Sólnes bankastóri og forseti bæjarstjórnar Akureyrar, síðar alþingismaður. Jón greindi okkur frá skemmtilegu viðtali við séra Pétur. Viðtalið snerist um málefni Vestmannsvatns, hinna glæsilegu sumarbúða er þar risu og voru séra Pétri einkar hugleiknar. Þannig var þá komið í bankamálum, að íslensku bankarnir voru að koma á svonefndri verðtryggingu. Bankastjórinn benti séra Pétri á að svo yrði að vera, svo að lánin brynnu ekki upp í verðbólgunni. Eftir þó nokkrar umræður um verðtrygginguna kvaddi séra Pétur bankastjórann, og sagði: „Ég held, Jón minn, að við höldum okkur við gamla kerfið.“ Sem sagt, enga verðtryggingu lána og Vestmannsvatn naut góðs af.

Pétur kom ýmsum nýjungum á innan þjóðkirkjunnar. Það var hann sem kom fram með þá tillögu, að gera uppstigningardag að degi eldri borgara á Íslandi. Kirkjusókn var ekki mikil þennan dag, en eftir að hann var tileinkaður eldri borgurum landsins varð kirkjusóknin mjög mikil.

Séra Pétur fylgdist vel með prestum sínum sem biskup landsins og hirðir þeirra. Hann hafði það fyrir sið að hringja í þá eftir að þeir höfðu messað á öldum ljósvakans. Ræddi hann um prédikun sunnudagsins og sálmana, og ósjaldan sendi hann okkur prestunum frumorta sálma sína. Þessum sið, að hafa samband við prestana, hélt hann alla tíð á meðan heilsa leyfði.

Við hjónin, Elín og ég, þökkum honum Pétri og Sólveigu eiginkonu hans einstaklega blessunarríkt samstarf bæði fyrir norðan og síðar hér sunnan heiða, í kirkjunni og í öðrum félagsmálum.

Megi hin ljúfa minning um hann séra Pétur lifa þótt ár og dagur líði.

Vigfús Þór Árnason.

Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.

(Orðskv. 22, 6)

Þessi Ritningarstaður var sr. Pétri afar hjartfólginn. Hann notaði hann oft, og í raun má segja, að orð hans hafi verið einhver sterkasti þátturinn í boðun Péturs bæði sem prests og biskups. Hann sagði oft, að þetta væri svo einfalt. Þetta byrjar allt með börnunum og ef okkur tekst að ná til þeirra með leiðsögn og sáningu og fylgja því eftir í æskulýðsstarfi, þá munum við sjá hinn eftirsótta árangur:

„...gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,

sem þroskast á Guðs ríkis braut.“

Hjá Pétri voru þetta ekki bara fögur orð. Hann fylgdi þeim eftir og varð sterkur frumkvöðull í barna- og æskulýðsstarfi á Akureyri. Til hans var leitað um fyrirmyndir, og áhrif hans urðu sterk, fyrst og fremst á Norðurlandi, en með tímanum miklu víðar. Ég sótti til hans ráðgjöf fyrir starf mitt á Sauðárkróki og naut þess að vinna með honum og sr. Sigurði Guðmundssyni í stjórn ÆSK í Hólastifti. Á þeim árum var aðalverkefnið uppbygging Sumarbúðanna við Vestmannsvatn. Áhuginn, sem það átak vakti, var nánast einstakur. Sr. Pétur var þar óumdeildur leiðtogi, sr. Sigurður öruggur fjármálastjóri, og Vestmannsvatn varð víða fyrirmynd.

Sr. Pétur var sviphreinn maður, gæska og góðvild fylgdu honum, hvar sem hann fór. Hann bar með sér ljós kærleika og vonar, laðaði fólk að sér og til starfa fyrir kirkjuna.

Leiðir okkar lágu einnig saman innan Frímúrarareglunnar. Hann var þar um hríð æðstur kennimanna og við bræður hans þar eigum afar hlýjar minningar um stuðning hans við leit okkar að ljósi og sannleika.

Það var sjálfsagt að kjósa Pétur til vígslubiskups á Hólum. Síðan tók hann við starfi biskups Íslands og sinnti því eins og öðru í auðmjúkri þjónustu við embættið og þjóðina, án þess að slá nokkru sinni af, hvað varðar kirkjulegan rétt og trúarleg markmið. Kærleikur og sannleikur áttu þar samleið. Þess vegna hefur sagan valið honum sæti meðal ástsælustu biskupa okkar.

Ég bið Guð að blessa hann og ástvini hans og þakka honum fyrir mína hönd, fjölskyldu minnar og þeirra annarra sem hans hafa notið í því sem hann fyrir mig gerði. En jafnframt hlýt ég að minnast hugsana sem við ræddum á okkar síðasta fundi í Sóltúni. Hrunið bar á góma og vaxandi hirðuleysi um helgar hugsjónir og siðgæði. Þá leitaði hugur okkar beggja í Orðskviðina til orðanna, sem ég vitnaði til hér að upphafi um að vísa hinum ungu á veginn sem til farsældar liggur, Veginn með stórum staf. Og við spurðum hvor annan, hvort það myndi ekki renna upp nú fyrir þjóð okkar, að kannski hefði það ekki borgað sig að draga svo úr kennslu kristinna fræða í skólum landsins, sem raun ber vitni. Við vorum sammála um afdráttarlaust svar, að það hefði ekki orðið til heilla. En þetta er spurning, sem ekki má stöðvast í tali tveggja manna. Ég hlýt að beina henni áfram til allra, sem orð mín lesa og spyr: Vitið þér enn eða hvað?

Þórir Stephensen.

„Sælir eru hjartahreinir... Sælir eru friðflytjendur...“ Þessi orð Jesú úr fjallræðunni leita á huga þegar Péturs Sigurgeirssonar biskups er minnst og horft til embættisferils hans sem farsæls prests, prófasts og biskups Íslands. Hann var hjartahreinn og friðarboðið var honum virk hugsjón um réttlæti, sátt og sanngirni í samskiptum.

„Í friðarmálum verður kirkjan að gegna stafnbúahlutverki á siglingu jarðarskipsins og halda vöku sinni,“ skrifaði Pétur og gerði frið á háskatíð að umræðuefni fyrstu prestastefnu sinnar sem biskup Íslands. Með því hafði hann þau áhrif á kirkju og samfélag er höfðu sitt að segja til þess að Ísland var valið fyrir fund stórveldaleiðtoga sem hittust í Höfða til að leita friðar í köldu stríði. Öruggur fylgdi Pétur leiðarvísi Jesú. „Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis“ og greindi glöggt kjarna máls.

Hann lifði viðburðaríka ævi svo sem fram kemur í sjálfsævisögu hans „Líf og trú“. Með framhaldsnámi í guðfræði í Vesturheimi lærði hann blaðamennsku og lýsir vel lífsreynslu sinni og horfir vítt yfir svið. Stíllinn er lipur og látlaus en oft tilþrifamikill. Prédikanir hans, ljóð og framganga voru einlæg, hispurslaus og hlý. Pétur hefur í því líkst föður sínum Sigurgeiri Sigurðssyni biskupi. Margt gott fékk hann líka í arf frá Guðrúnu Pétursdóttur móður sinni.

Lýsingar Péturs á uppvaxtarárum sínum og systkina á Sjónarhæð í Ísafirði og námi og langri prestsþjónustu á Akureyri eru fjörlegar. Hann hreif fólk með sér í öflugt kirkjustarf er setti mark á bæjarbraginn og ruddi brautir í æskulýðsstarfi. Kappróðrasveitir sýndu að vel var róið.

Sólveig Ásgeirsdóttir ástrík eiginkona Péturs efldi hann til dáða. Þau hittust fyrst í samkvæmi í Höfða sem síðar varð þekktastur fyrir leiðtogafundinn en þeim dýrmætastur fyrir ástargeislann hlýja er greip þau þar og börn þeirra fjögur yljuðu sér við. Þau hr. Pétur og Sólveig voru glæsileg biskupshjón sem breiddu með elsku og trúartrausti út birtu Guðsríkis. Þau heimsóttu Hafnarfjarðarkirkju og söfnuð hennar á sérstökum hátíðarstundum og endranær og færðu með sér hjartans fögnuð og frið.

Pétur biskup vígði Þórhildi og þau urðu hollvinir okkar hjóna. „Opin kirkja“, hirðisbréf Péturs biskups, birtir þrá hans um samfélag kirkjunnar. „Tilveran byggist á fórnarþjónustu... er tengir veröld saman í eina heild,“ segir Pétur og fjallar um hjálparstarf kirkjunnar sem hann vildi efla. „Að baki hjálparstarfi er það hugarfar sem hvergi er að finna til lausnar á neyð heimsins nema í boðskap kirkjunnar.“ „Verið með sama hugarfari og Kristur.“ Til þess að svo yrði þyrfti „þjónusta sáttargjörðarinnar“ að koma fram í einingu í fjölbreytni að sama marki.

Áhrifarík var stundin þegar Pétur biskup og Jóhannes Páll II breiddu út faðminn hvor mót öðrum við samkirkjulega helgistund á Þingvöllum.

Pétur biskup var blindur síðustu æviár en horfði hjartahreinn til Guðsríkis og stóð undir nafni sem klettur í trúarvissu sinni. Guð gefi góðan ávöxt af verkum hans í kirkjunni sem hann unni og blessi ástvini hans.

Gunnþór Ingason.

Ekki þarf ég að fletta upp í neinum bókum til að staðhæfa að grunnstefið í boðun og lífsstarfi Péturs Sigurgeirssonar biskups hafi verið kærleikurinn. Öll framganga hans og framkoma bar það með sér. Hann var einstaklega hlýr og viðfelldinn maður sem laðaði að sér jafnt börn sem fullorðna.

Þessi var líka reynsla mín og fjölskyldu minnar, en kynni okkar af honum urðu mest í gegnum Pétur son hans, samstarfsmann minn og vin.

Pétur biskup hringdi gjarnan, stundum til að þakka eitthvað sem hann hafði heyrt eða lesið en ekki síður til að ræða einhvern biblíutexta. Mér finnst það segja nokkuð um afstöðu hans að hann hringdi nokkrum sinnum til að ræða um kærleiksboðið eins og það er að finna í 3. Mósebók 19.18. Í stað hinnar hefðbundnu þýðingar „Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig“ hreifst Pétur af túlkun fræðimanns úr röðum Gyðinga sem hann hafði hitt og sá haldið því fram að réttari þýðing væri: „Þú skalt elska náungann af því að hann er eins og þú.“ Þessi skilningur á textanum fannst Pétri einfaldlega fallegri og í betra samræmi við trú hans. Gamla testamentið kennir að öll erum við sköpuð í mynd Guðs (1Mós 1.26-28) og skilningur rabbíans á kærleiksboðinu, sem hreif Pétur svo mjög, fellur vel að þeirri hugmynd. Titillinn á hirðisbréfi Péturs biskups „Kirkjan öllum opin“ er í sama anda. Það var fjarri honum að fara í manngreinarálit.

„Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona, þið eruð öll eitt í Kristi Jesú“

(Gal 3.28)

Mér er minnisstætt að í einni af fyrstu Strandarkirkjugöngum hóps sem gengið hefur þá göngu um 20 ára skeið kom Pétur biskup að sækja okkur, opnaði skottið á bíl sínum, dró þar fram dýrindis smurbrauð sem Sólveig kona hans hafði útbúið af annálaðri list og svo tók hann fram kók í glerflöskum og lék sér að því að opna þær án upptakara. Ekki áttu menn von á slíkum töktum frá biskupi. Og loks talaði hann til okkar í kirkjunni, á svo einfaldan og eðlilegan hátt, vitnaði í frægustu ræðu allra tíma, fjallræðuna, og hreif viðstadda þannig að síðan hefur þótt ótækt annað en að enda göngurnar á hugvekju í hinni vinsælu kirkju.

Margs er að minnast í samskiptum við hinn ástsæla biskup og fjölskyldu hans en aðrir verða til að gera grein fyrir störfum hans á biskupsstóli. Ég þakka góð kynni mín og minna við biskupsfjölskylduna, votta vandamönnum samúð og kveð Pétur biskup með orðum Páls postula:

„En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“

(1Kor 13.3)

Gunnlaugur A. Jónsson.

Minningar um gefandi samstarf koma upp í hugann við fráfall séra Péturs Sigurgeirssonar biskups. Reyndar var það ekki fyrr en eftir að hann tók við biskupsembætti sem ég kynntist honum að einhverju marki. Fram að því hafði hann verið sóknarprestur í fjarlægu prestakalli og síðar vígslubiskup, lengra náðu kynnin ekki. En þar var hann mikill frumkvöðull á vettvangi barna- og æskulýðsstarfs. Þar nýttust honum ferskar hugmyndir um safnaðarstarf sem hann flutti með sér vestan um haf þar sem hann hafði stundað framhaldsnám. Hann gerði þær að veruleika á Akureyri í samfélagi sem var opið fyrir gróskumiklu kirkjustarfi með börnum og unglingum. Eftir innsetningu hans í embætti biskups Íslands 1981 hófust kynni okkar séra Péturs með því að hann kallaði mig á fund sinn vegna undirbúnings undir fyrstu prestastefnu sína, sem hann hugðist halda á Hólum í Hjaltadal, meginefni hennar voru friðarmálin, sem þá voru farin að setja sterkan svip á opinbera umræðu. Þessi fyrsta prestastefna nýs biskups vakti athygli, hún er eftirminnileg fyrir málefnalega umfjöllun um heitt pólitískt málefni; – en einnig fyrir sólbjarta sumardaga á sögufrægum stað, að ógleymdri Drangeyjarferð. En hún sýndi einnig leiðtoga sem fór ekki í manngreinarálit. Samstarf okkar var gott og gefandi alla tíð. Þar ber hæst kirkjulistarhátíðina á páskum 1983 og kirkjuþingin síðustu ár hans í biskupsembætti. Á kirkjuþingi kom hann mörgum góðum málum til leiðar, m.a. lögum um jöfnunarsjóð sókna árið 1987, sem höfðu veruleg áhrif, einkum fyrir minni sóknir landsins. Séra Pétur mótaðist sem guðfræðingur á stríðstímum og á uppbyggingarárunum í kjölfar þeirra. Hann var fulltrúi framsækinnar kirkjustefnu sem þekkti mótlæti stríðsins en fann að starf hennar átti hljómgrunn og boðskapur hennar féll í góða jörð á tímum þegar spurt var um nýja von í hrundum heimi. Í því efni ávaxtaði hann arf hinnar breiðu, samfélagslega sinnuðu, frjálslyndu þjóðkirkjuhefðar með áherslu á aðkomu að málefnum líðandi stundar, hvort sem var á vettvangi hinnar pólitísku umræðu, á sviði menntunar og menningar eða með fjölþættu safnaðarstarfi. Séra Pétur Sigurgeirsson var farsæll í biskupsembætti og naut verðskuldaðs trausts innan kirkju sem utan. Góðvild hans var smitandi og eldmóður hans fyrir málstað Jesú Krists ekki síður, trúareinlægni hans snerti hvern sem kynntist honum og ljúflyndi hans kom frá hjartanu. Samhent leiðsögn biskupshjónanna átti sinn þátt í að efla virðingu kirkjunnar í íslensku samfélagi meðan séra Pétur gegndi embætti biskups Íslands. Við Anna Margrét sendum frú Sólveigu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Péturs Sigurgeirssonar.

Gunnar Kristjánsson.

Hann vígðist aðstoðarprestur síra Friðriks J. Rafnars, þegar fjöldi manns í prestakalli hans ýmist lá veikur í hinni svonefndu Akureyrarveiki eða dó við hinar óviðráðanlegu kringumstæður 1947. Vetur var snjóþungur og veittist nágrannaprestunum næsta erfitt að létta undir við prófast sinn, síra Friðrik. Viðlíka langt er að sækja utan frá Möðruvöllum og innan úr Grundarþingum til Akureyrar.

Síra Pétur vígðist til Akureyrarbrauðs hinn 23. febrúar 1947 og þókti áræðinn að fara norður við þessar kringumstæður. Hálfu öðru ári síðar var hann skipaður sóknarprestur og þjónaði nyrðra til 1981, í rúm 34 ár við heillaóskir, þökk og vináttu sóknarbarnanna. Þá og lengi síðan var samvinna prestanna á Akureyri, frammi í Eyjafirði og úti í Möðruvallaþingum mikil og náin. Raunar hafði svo lengi verið, en við hinar ógnvekjandi aðstæður 1947 bundust þau nánu vináttu- og bræðralagsbönd, er ekki slitnuðu, en skarð kom í samstarfsveruna, er síra Friðrik lét af embætti 1954, en lést fimm árum síðar, minnilegur höfðingi í heimahéraði sínu. Tók þá faðir minn við embætti vígslubiskupsins í Hólastifti, en síra Pétur af honum 1969.

Ekki minnkaði reisn hans og höfðingsskapur við þau skipti, en hann var svo kjörinn biskup Íslands 1981 eftir hina langæju og góðu prestsþjónustu á Akureyri og svo heiðurleg störf Hólabiskups í 11 ár. Hann stofnaði Æskulýðsfélag Akureyrarkirkju og vann manna mest að sumarbúðunum við Vestmannsvatn. Nýverið hitti ég eitt fermingarbarna síra Péturs frá vorinu 1947, en þau kvað hún hafa verið um 90. Hjá þessu fermingarbarni hans fyrir 60 árum og svo fjölda mörgum á okkar aldri og yngri hef ég fundið hið hlýja hugarþel, sem sóknarbörnin á Akureyri og úti í Lögmannshlíðarsókn báru til prestsins síns, sem kom þegar verst gegndi og vildi hvers manns vanda leysa.

Fyrir stjórn örlaganna var síra María dóttir mín með biskupshjónunum á annan dag hvítasunnu og gat vikið sér til þeirra í fullum skrúða og veitt hina helgu og síðustu þjónustu. Þannig störfuðu síra Pétur og afi hennar fyrr, þegar kallað var í orði Jóhannesar: Það er fullkomnað.

Jarðneskum æviferli síra Péturs Sigurgeirssonar er lokið. Fyrir hönd Félags fyrrum þjónandi presta flyt ég alúðarþakkir með eftirsjá og bið frú Sólveigu biskupsfrúar og fjölskyldu þeirra blessunar.

Ágúst Sigurðsson

frá Möðruvöllum.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?

Með því að gefa gaum að orði Drottins? (Sálm 119.9)

Unga kirkjan er heiti á plötu með fjölbreyttum sálmum og trúarlegum lögum sem séra Pétur Sigurgeirsson prestur á Akureyri stóð fyrir að gefa út með mörgum tónlistarmönnum og söngvurum. Unga kirkjan er einnig heiti á söngbók sem séra Pétur sá um að gefa út fyrir barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar. Unga kirkjan var hjartans mál séra Péturs, allt frá því hann kom til starfa á Akureyri og til æviloka. Þúsundir barna og ungmenna hafa lært að þekkja Drottin Guð og þann sem hann sendi, frelsarann Jesú Krist, fyrir starf og boðun séra Péturs. Hann stóð fyrir stofnun öflugs æskulýðsfélags við Akureyrarkirkju sem var öðrum prestum og söfnuðum á Norðurlandi hvatning til að efla starf fyrir unglinga. Séra Pétur hafði að leiðarljósi að fela unga fólkinu hlutverk og ábyrgð á starfinu, en var sjálfur óþreytandi við að styðja og leiðbeina með sínum jákvæða hætti. Hann var þó um leið fylginn sér og laginn við að þoka málum áfram. Það kom mjög skýrt fram við uppbyggingu Sumarbúðanna við Vestmannsvatn, sem séra Pétur leiddi ásamt séra Sigurði Guðmundssysni á Grenjaðarstað undir merkjum Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti. Þau samtök hafði séra Pétur einnig frumkvæði að að stofna. Með tvær hendur tómar var lagt af stað, en sumarbúðirnar risu með Guðs hjálp og góðra manna, og var séra Pétur ótrúlega drjúgur að fá stuðning einstaklinga sem fyrirtækja.

Frú Sólveig stóð þétt við hlið manns síns í annasamri þjónustu hans, brosmild og glaðleg, og sá skari ungra sem gamalla er stór sem hún hefur hlúð að á heimili sínu með margvíslegum hætti.

Það er ómælt þakkarefni að hafa fengið að njóta þjónustu og leiðsagnar séra Péturs allt frá bernskuárum, hlýtt á predikanir hans í litlu kirkjunni í Lögmannshlíð eða Glerárskóla, gengið við hlið hans í æskulýðsfélagi, verið vígður af honum til prestsþjónustu og notið hvatningar hans allt til loka. Líkami hans var orðinn lélegur hin síðari ár, en sem fyrr var hann brennandi í andanum. Hann hringdi í fjölmarga til að uppörva, þakka fyrir margt sem var að gerast í kirkjustarfinu, og til að hvetja fólk áfram í hinni góðu þjónustu við ríki Guðs hér á jörðu.

Séra Pétur gerði töluvert af því að þýða og yrkja sálma. M.a. orti hann sálminn Hér ríkir himneskur friður og er síðasta erindi hans svo:

Kyrrt er svo kallið má heyra:

'Komið til mín allir þér.'

Berast þau boð hverju eyra.

Blessun þau færa mér.

Guð blessi minninguna um séra Pétur Sigurgeirsson biskup og gefi frú Sólveigu og börnum þeirra og fjölskyldum frið sinn og styrk.

Jón Helgi Þórarinsson.

Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

(Kor.1.1-13)

Þegar ég heyrði andlátsfregn míns gamla vinar, sr. Péturs, voru þetta fyrstu orðin sem mér duttu í hug. Þau tengjast honum á þann hátt að hann var sjálfur afar góðviljaður og vildi öllum gott og orðin falla svo vel að minningu hans, starfi og framkomu allri. Hann bar það með sér að vera góður maður og brosti með augunum þegar hann heilsaði. Fjölskyldur okkar hafa verið afar samrýndar um margra áratuga skeið, bæði í blíðu og stríðu, og veitt hvor annarri styrk á erfiðum stundum en einnig glaðst á góðum stundum sem sem betur fer voru miklu fleiri. Í rúmlega hálfa öld hittumst við og skárum laufabrauð á aðventunni og allt fram á síðustu aðventu var Pétur mættur. Hann var kannski ekki sá afkastamesti en samveran snerist ekki um það heldur það að vera saman í góðum hópi og gleðjast og það kunni Pétur. Pétur átti sterka köllun. Hann var sterktrúaður og vildi hag trúarinnar sem mestan og hann var einn af frumherjum í æskulýðsstarfi íslensku kirkjunnar. Hans verður lengi minnst fyrir það. Það kom því ekkert á óvart að hann yrði kosinn biskup og valinn til æðstu metorða innan kirkjunnar. Þrátt fyrir embættisferilinn verður hann aldrei annað en séra Pétur eða Pétur í mínum augum. Hann hafði ekki mikinn áhuga á titlatogi, hann sá manneskjuna ávallt fyrst og treysti á það góða í hverjum manni. Það sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður það skalt þú og þeim gjöra. Þessa gullnu reglu geymdi Pétur í hjarta sér og fór eftir í hvívetna. Þegar rætt er um Pétur í fjölskyldu minni er það yfirleitt Pétur og Sólveig. Sjaldan er rætt um annað án þess að hitt sé nefnt. Sólveig var stoð hans og stytta í erilsömu starfi er hann var sóknarprestur á Akureyri, þar sem æskulýðsstarfið átti hug hans allan, síðar í biskupsstarfi og loks er heilsan tók að bila og sjón og líkamleg færni minnkaði. Með þeim Sólveigu var jafnræði. Börn þeirra hjóna eru okkar vinafólk ekki síður en foreldrarnir og voru þátttakendur í laufabrauðsgerðinni, allt frá 1953.

Hér við skiljumst og hittast munum á feginsdegi fira; Drottinn minn gefi dauðum ró, en hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Farðu sæll bróðir og vinur.

F.h. fjölskyldunnar,

Gunnlaugur V. Snævarr.

Kveðja frá Skálholti

Þegar herra Pétur Sigurgeirsson hefur nú kvatt í hárri elli vakna minningar margra um hinn vinnusama og óþreytandi sóknarprest og æsklýðsleiðtoga á Akureyri, um farsælan biskup Íslands og um góðan og trygglyndan vin. Yfir minningunum um þennan vörpulega fríðleiksmann leikur yfirbragð ljúflyndis, sem ekkert fékk haggað hvað sem á gekk. Þegar herra Pétur tók við embætti biskups Íslands var genginn í garð mikill breytingatími í lífi og starfi kirkjunnar. Umfang og verksvið Biskupsstofu gjörbreyttist í hans tíð og framundan voru verkefni sem leiddu til þess aðskilnaðar ríkis og kirkju sem orðinn er. Í þeim átökum öllum var forysta hans farsæl. Ógleymanlegur er fundur sem nokkrir fulltrúar kirkjunnar sátu með fulltrúum ríkisvaldsins. Hinir fyrrnefndu fóru fram á að til uppgjörs kæmi vegna þeirra kirkjueigna sem ríkið hafði ekki þá þegar látið af hendi og enn væru veruleg verðmæti. Hinir síðarnefndu fullyrtu að þessar eigur væru næstum einskis virði. Fullyrðing stóð gegn fullyrðingu án fullnægjandi raka. Þá tók herra Pétur varfærnislega til máls og lágum rómi. Hann sagðist hafa verið að velta því fyrir sér hvort það gæti skaðað nokkurn mann að rannsakað yrði hvers virði þessar eignir væru. Enginn treysti sér til að fullyrða að það gæti skaðað nokkurn mann og niðurstaða fundarins var sú að aðilar skyldu saman leita leiða til að sú athugun færi fram. Engum stóryrðum beitti hann eða fyrirmannlegum þótta fremur en endranær en réði úrslitum fundarins. Allir vissu líka að honum gekk aðeins eitt til, en það var að tryggja hag kirkjunnar og varðveita friðinn um hana.

Herra Pétur var innilega trúaður maður, sem gaf sig allan í þjónustuna við fagnaðarerindið um Jesúm Krist. Áhrif hans stöfuðu ekki síst af því að hann þurfti í grundvallaratriðum ekki að skipta um skoðun í samtíð sem gjarnt er að gera allt að álitamáli.

Sem biskup Íslands hlaut herra Pétur að koma að málefnum Skálholts og reyndist í því Skálholtsvinur. Til hins síðasta bar hann hag Skálholts fyrir brjósti og lét það í ljósi á sinn hvetjandi hátt.

Í biskupsþjónustu herra Péturs kom oft fram hvað vel hann þekkti fjöbreytileikann í aðstæðum presta í þjónustu vítt og breitt um landið. Þeim vildi hann líka ávallt reynast vel.

Heimili herra Péturs var alla tíð opið og veitandi. Naut hann þar við konu sinnar frú Sólveigar sem studdi hann staðfastlega bæði í blíðu og stríðu. Þannig var hann líka gæfumaður um flest. Vel munum við hjónin tryggð þeirra við okkar fólk sem og allar þær hlýlegu móttökur sem við nutum sjálf hjá þeim hjónum. Og nú kveðjum við í þökk og virðingu þennan mann sem við óttumst ekki um. Mann sem svo skýrlega tók til sín orð postulans er hann ritaði: „Verið glaðir. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúkir um neitt“. Fil. 4,5.

Drottni felum við hinn góða og trygga þjón um leið og við biðjum góðan Guð að hugga og styrkja þá sem honum standa næst.

Arndís og Sigurður, Skálholti.

Kveðja frá Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi

Bænarorð frelsarans Jesú Krists í Jóh 17.21 voru sr. Pétri Sigurgeirssyni ákaflega hugleikin:

„...að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur til þess að heimurinn trúi að þú hafir sent mig“.

Hugsjón hans og þrá var að árið 2056 mætti marka sameiningu hinnar sundruðu kristni og var hann ötull liðsmaður bænastarfsins fyrir kirkju Krists alla tíð.

Í tilefni af hinni árlegu samkirkjulegu bænaviku fyrir einingu kristninnar gaf sr. Pétur fyrir nokkrum árum Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi sálm sem oft er notaður síðan. Þar segir og lýsir vel grundvelli samstöðunnar og markmiði:

Saman öll biðjum – bænin er ein.

Bænin er stofninn – ólík hver grein.

Rétt eins og grær vel gróður í mold

grær upp eitt blómstur – marglitt á fold.

Eru hér bornar fram einlægar þakkir fyrir stuðning sr. Péturs í orði og verki við Samstarfsnefndina og liðsfólk hennar og mörg persónuleg samtöl sem hann átti við okkur hvert um sig um málefni safnaðanna og bænavikunnar sérstaklega, bæði í biskupstíð hans og allt fram undir andlátið. Nú hefur góður liðsmaður gengið inn í dýrð Guðs og látið okkur eftir arfleifð að fylgja. Guð blessi og varðveiti frú Sólveigu, hans ástkæru eiginkonu, sem hlúði að eiginmanni sínum af svo mikilli fórnfýsi og gleði er líkamsþrek hans þraut. Í návist þeirra góðu hjóna var einingin nærri og minnti á orð Jesú:

„Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“

(Jóh 13.35.)

María Ágústsdóttir, formaður SKT.

Merkur frumkvöðull í nútímakirkjustarfi er fallinn frá í hárri elli. Sr. Pétur Sigurgeirsson skipaði stóran sess í lífi okkar beggja. Annað okkar ólst upp í kirkjunni hjá honum frá barnsaldri hitt kynntist honum þegar tekið var stórt skref til vígðrar þjónustu í kirkjunni.

Gylfi: Þegar ég var sjö ára gamall hreifst ég af geislandi framkomu hans og hlýju viðmóti. Kirkjan var fullsetin börnum á aldrinum sjö til tólf ára. Birgir Helgason sat við orgelið og við sungum fullum hálsi. Í Æskulýðsfélagi Akureyrarkirkju, fyrirmynd kirkjulegra æskulýðsfélaga, fékk ég að finna hversu gegnheil hlýja og vinátta prestsins var. Við undirbúning funda og móta þurfti oft að ganga upp í Hamarstíg. Dyrabjallan hljómaði eins og kirkjuklukkur, og um leið og dyrnar opnuðust greip framrétt hönd prestsins í mig og svipti mér í einu vetvangi inn á forstofugólfið og bauð mig velkominn. Sr. Pétur Sigurgeirsson var hugmyndaríkur frumkvöðull.

Þann 19. okt. 1947 er Æskulýðsfélag Akureyrarkirkju stofnað. Ári síðar kom æskulýðsblaðið út sem við sunnudagaskólabörnin kepptumst við að selja. Róðrarklúbbur var starfandi innan Æskulýðsfélagsins. Gefin var út söngbók, Unga kirkjan. Breiðskífa leit dagsins ljós með vinsælum kristilegum söngvum og Æskulýðssambands Hólastiftis var stofnað. Eitt fyrsta markmiðið þess var að reisa Sumarbúðir við Vestmannsvatn í Aðaldal. Þar fór hann fyrir samhentum hópi kollega sinna. Árangurinn í trúarlífinu og uppbyggingunni lét ekki á sér standa. Árangur lætur aldrei á sér standa þegar trú, vinátta og hlýja ráða för. Sumarbúðirnar voru vígðar sumarið 1964 og næstu áratugina dvöldu þar hundruðir barna. Ekki má heldur gleyma fermingarbarna- og æskulýðsmótunum við vatnið. Sr. Pétur og vinir hans höfðu árangur sem erfiði. Trúarleg mótun og kærleiksríkur faðmur kirkjunnar umvafði unglingana og aðstandendur þeirra. Kirkjan svaraði kalli. Síðar hef ég skynjað lykilinn að þessari velgengni. Lykillinn var vinátta og hlýja sr. Péturs við alla sem hann umgekkst, bjartsýni hans og óendanleg hugmyndaauðgi. Þar sem prestsbústaðurinn blasti við úr eldhúsglugganum heima hjá mér sást glöggt að vart leið sá dagur að einhver kollega sr. Péturs kæmi ekki í heimsókn í Hamarstíginn.Vinskapur og gestrisni prestshjónanna laðaði til sín starfsfélaga austan og vestan Akureyrar. Ég er Guði óendanlega þakklátur fyrir að hafa kynnst sr. Pétri, og notið mótunar hans á uppvaxtarárum mínum.

Solveig Lára: Í minningunni standa stóru stundirnar uppúr með sr. Pétri, vígsludagurinn minn 12. júní 1983 og vígsla Seltjarnarneskirkju 19. febrúar 1989. En þegar þessar minningar koma upp á hugarhimininn er það hlýjan, einlægnin og um fram allt vinátta biskupsins míns sem er mér meira virði en allt annað. Trúarljóðin hans lýsa þeirri einlægu trú sem allur hans kærleikur byggði á. Guð blessi sr. Pétur fyrir það. Við fráfall hans lifir í minningunni birtan yfir okkar síðusta fundi. Guð blessi Sólveigu biskupsfrú og afkomendur þessara heiðusrhjóna.

Sr. Gylfi og sr. Solveig Lára Möðruvöllum.

Kveðja frá Hólum

„Þá kemur hann mér í hug, er ég heyri góðs manns getið; hann reyndi ég svo að öllum hlutum.“ Með þessum orðum minntist Jón Ögmundarson, Hólabiskup, fóstra síns, Ísleifs Gissurarsonar biskups í Skálholti. Þessi ummæli vil ég nú gera að mínum er ég minnist velgjörðarmanns míns og vígsluföður, Péturs Sigurgeirssonar biskups.

Vandaðri manni til orðs og æðis hef ég ekki kynnst. Hlýjan og góðvildin einkenndu alla hans framgöngu og fas. Mér er í fersku minni hve sterk áhrif hann hafði á mig þegar við fyrstu kynni. Það var þegar hann kenndi mér Kristnisögu í fyrsta bekk miðskóladeildar Menntaskólans á Akureyri. Síðan leit ég til hans sem fyrirmyndar um mannkosti og fagurt líferni. Frekari kynna við hann og hans elskulegu og heillandi konu, frú Sólveigu Ásgeirsdóttur, á skólaárum mínum á Akureyri, réðu áreiðanlega nokkru um það hvaða stefnu ég tók í námi og starfi þó ég gerði mér ekki glögga gein fyrir því á þeim tíma.

Pétur varð ungur mikill áhrifavaldur í kirkjunni. Barna- og æskulýðsstarfið sem hann hóf við Akureyrarkirkju var nýlunda í safnaðarstarfi og varð prestum og söfnuðum fyrirmynd til eftirbreytni. Hann var frumkvöðull að stofnun Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti hinu forna. Réði áhugi Péturs og eldmóður miklu um það hve öflugur sá félagsskapur var um áratugaskeið. Og stórvirki vann hann er hann, ásamt dyggustu samstarfsmönnum sínum í æskulýðsstarfinu, byggði sumarbúðirnar við Vestmannsvatn. Þá miklu framkvæmd hófu þeir með hendur tómar. Hinsvegar áttu þeir mikinn fjársjóð eldlegs áhuga og óbilandi trúar á málstaðinn. Er ekki að orðlengja það að sjóðurinn sá reyndist nægur til þess að myndarlegar sumarbúðir risu til blessunar miklum fjölda ungra sem aldinna er þeirra hafa notið í hartnær hálfa öld. Með sumarbúðunum við Vestmannsvatn reisti Pétur sér fagran minnisvarða sem ég vona og bið að halda megi hugsjón hans á lofti um ókomna tíð.

Pétur biskup var farsæll leiðtogi kirkju sinnar og öflugri málafylgjumaður en margur hafði búist við af slíku ljúfmenni sem hann var. Minnist ég orða Baldurs heitins Möllers ráðuneytisstjóra sem hann viðhafði eftir að biskupinn hafði náð að leysa mál í stjórnsýslunni sem virst hafði í óleysanlegum hnút: „Pétur biskup er eini maðurinn er ég veit um sem getur gengið í gegnum lokaðar dyr.“

Hólastifti sér á eftir góðum hirði sem leiddi hjörð sína af umhyggju og elskusemi og af stakri trúmennsku við það lífsins orð sem hann var kallaður til að bera vitni og boða. Blessuð sé minning Péturs biskups og Guði séu þakkir fyrir hann.

Við hjónin minnumst kærs vinar og velgjörðarmanns og þökkum helga og dýrmæta þjónustu hans á stóru stundunum í lífi okkar.

Frú Sólveigu og fjölskyldu sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

Jón Aðalsteinn á Hólum.

„Líf og trú“ er yfirskrift endurminninga og hugleiðinga Péturs Sigurgeirssonar biskups. Faðir minn sálugi Bolli Gústavsson ritaði þar eftirmála og segir m.a.: „Herra Pétur Sigurgeirsson biskup, sem rekur sögu sína í þessari bók, er fermingarfaðir þess sem þetta ritar. Hafa þeir lengi átt samleið í kirkjulegu starfi og sennilega mætti kalla þá fóstra samkvæmt fornri merkingu þess hugtaks“.

Það var víst algengt til forna að höfðingjar fóstruðu unga drengi og kæmu þeim til mennta. Faðir minn hlaut kristilegt uppeldi hjá sr. Pétri í Akureyrarkirkju og í ljósi þess uppeldis ákvað hann að leggja stund á guðfræðinám. Þannig getur forn merking fóstrahugtaksins átt líka við í tilfelli Bolla og Péturs. Bolli Pétur naut síðan góðs af því, gengur þess vegna hér fram á ritvöllinn og kveður liðinn höfðingja fullur þakklætis. Óhætt er að segja að Pétur hafi látið sig aðra varða, enda sannur þjónn kristinnar kirkju. Ég fór ekki varhluta af því. Það var dýrmætara en orð fá lýst að heyra frá því sagt, þar sem ég var ekki heima við, er reynslumikill skírnarfaðir bankaði upp á á vígsludaginn minn og skildi eftir hirðisbréf sitt með góðri kveðju og vísun í ritningartexta, en þar segir í síðara bréfi Páls postula til Korintumanna: „Því að það var Guð sem í Kristi sætti heiminn við sig er hann tilreiknaði mönnum ekki afbrot þeirra og fól mér að boða orð sáttargjörðarinnar“.

Herra Pétur Sigurgeirsson boðaði orð sáttargjörðarinnar, hann gerði það ekki síst með lífi sínu og því hvernig hann kom að lífi annarra, fyrir mér var aðkoma hans að lífi mínu einstök prédikun. Góð gjöf á vígsludaginn var sterk hvatning, að ógleymdum þeim símtölum sem ungur þjónn fékk, eftir að hafa prédikað orð sáttargjörðarinnar. Þar var um að ræða djúpstæða gjöf, sem hvorki mölur né ryð fá grandað og mun lifa áfram í minningunni og styðja við í þjónustunni.

Guð blessi þig Pétur Sigurgeirsson biskup og eilíft ljós Hans lýsi þér. Guð blessi Sólveigu eiginkonu þína og fjölskyldu alla.

Kærar samúðarkveðjar berast héðan úr Laufási, þar sem æðurinn úar og grundirnar grænka. Lífið sækir fram!

Sr. Bolli Pétur Bollason og fjölskylda, Laufási.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.