Frumniðurstöður tilrauna á mönnum hafa reynst jákvæðar Bólusetning með nefúða myndar víðtæk mótefni Frumniðurstöður rannsókna á bólusetningu slímhimnu með nefúða gefa til kynna góðan árangur en tilraunir á 26 háskólastúdentum með þessari aðferð standa nú...

Frumniðurstöður tilrauna á mönnum hafa reynst jákvæðar Bólusetning með nefúða myndar víðtæk mótefni Frumniðurstöður rannsókna á bólusetningu slímhimnu með nefúða gefa til kynna góðan árangur en tilraunir á 26 háskólastúdentum með þessari aðferð standa nú yfir. Fyrirtækið Lyfjaþróun hf. stendur fyrir rannsóknunum í samvinnu við Statens Seruminstitut í Kaupmannahöfn en verkefnisstjóri er Sveinbjörn Gizurarson, lektor í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Með því að bólusetja slímhimnu er hægt að ná fyrr til örvera heldur en með stungubólusetningu, þ.e. á smitstað, og drepa þær áður en þær ná að sýkja einstaklinginn en slímhimnan myndar ónæmissvörun á öllum öðrum slímhimnum líkamans, svo og í blóði og öðrum líkamsvessum.

Vandamál við þróun bóluefna hefur verið að finna hjálparefni til eða ónæmisglæða, þ.e. efni sem hvetur til myndunar ónæmis. Rannsóknir á árangri slímhimnubólusetningar hófust með dýratilraunum og segir Sveinbjörn að þær hafi gengið vel og tekist hafi að finna hjálparefni sem hvetja til ónæmismyndunar og mælingar sýnt góða ónæmissvörun.

Með því að bólusetja með nefúða má ná fram ónæmisvernd á öllum slímhimnum líkamans en langflestar sýkingar smitast af einni slímhimnu yfir á aðra. Þegar bóluefni er sprautað undir húð, sem er algengasta aðferðin í dag, fæst nánast eingöngu mótefnamyndum í blóðinu en best er að ráðast að smitinu á myndunarstað, sem er slímhimnan. Fyrstu niðurstöður okkar sýna að bólusetning á eina slímhimnu með nefúðaaðferðinni myndar ónæmissvörun á öllum öðrum slímhimnum líkamans en líka í húð, blóði og öðrum líkamsvessum," segir Sveinbjörn og segir ávinninginn fólginn í því að þróa bólusetningar við öndunarfærasýkingum, meltingarfærasýkingum, kynfærasýkingum og fleiri smitsjúkdómum.

Tilraunirnar á mönnum hófust í byrjun mars í samstarfið við læknana Helga Valdimarsson og Friðrik K. Guðbrandsson en alls eru 26 manns í tilraunahópnum. Bólusett er við stífkrampa og barnaveiki með nefúða og síðan hafa verið tekin sýni vikulega af munnvatni og nefskoli auk blóðsýna. Sýna fyrstu niðurstöður að sambærileg svörun næst með nefúðabólusetningu og með sprautu.

Mikið starf framundan

Sveinbjörn segir að mikið starf sé framundan við að mæla sýnin nánar og flokka mótefnin en unnið verður áfram að mælingum í sumar. Þá þarf að skoða nánar skammtastærðir og áhrif þeirra, hvort mismunur sé á verkun bóluefnanna hjá börnum og fullorðnum. Næsta skref varðandi tilraunir á mönnum mun sennilega fara fram á dönskum hermönnum.

Rannsóknir Lyfjaþróunar hf. hófust árið 1991 undir stjórn Sveinbjörns sem stundaði framhaldsnám í Danmörku og vann að rannsóknum þar og í Japan. Að Lyfjaþróun hf. standa Lyfjaverslun ríkisins, Lyf hf., Tækniþróun hf., Lýsi hf. og Steinar Waage en verkefnið er einnig unnið í samráði við Statens Seruminstitut í Kaupmannahöfn. Samstarfsmenn Sveinbjörns hafa verið Rúna Hauksdóttir hjá Lyfjaverslun ríkisins og Baldur Hjaltason hjá Lýsi hf. og í Kaupmannahöfn Iver Heron og Henrik Aggerbeck.

Morgunblaðið/Júlíus

Tilraunir á mönnum hafnar

SVEINBJÖRN Gizurarson stendur hér hjá Barböru Stanzeit líffræðingi sem tekur blóðsýni úr einum þeirra 26 sjálfboðaliða sem tók þátt í tilrauninni en fyrstu mælingar benda til að árangur með slímhimnubólusetningu sé góður.

Á þessari teikningu sést hvernig bólusetning á eina slímhimnu myndar ónæmissvörun á öllum öðrum slímhimnum líkamans og víðar. Teikningin birtist með grein Sveinbjörns í síðasta tölublaði Mixtúru, blaði lyfjafræðinema.