24. janúar 1987 | Minningargreinar | 1160 orð

Minning: Björn J. Blöndal rithöfundur Fæddur 9. september 1902 Dáinn 14. janúar

Minning: Björn J. Blöndal rithöfundur Fæddur 9. september 1902 Dáinn 14. janúar 1987 Óvíða er fegurra og víðsýnna en í miðjum Borgarfirði, þar sem Hvítá rennur til sjávar, móðurelfan mikla, sem þá hefur safnað í faðm sinn fjölda bergvatna og jökulkvísla, Norðurá, Þverá, Norðlingafljóti, Geitá, Grímsá og svo mætti lengi telja. Á bökkum hennar, með útsýn til fjallahringsins mikla, allt frá Snæfellsjökli í vestri um Baulu, Eiríksjökul, Okið, Skjaldbreið og til þverhníptrar Skarðsheiðar og Hafn arfjalls í suðri, fæddist Björn J. Blöndal og þar ól hann allan sinn aldur. Þar lærði hann að lesa öll undur hinnar fjölbreyttu náttúru þessa fagra héraðs öðrum mönnum betur, hvort sem það voru leyndardómar fiskanna í djúpum hyljum, lifnaðarhættir fuglanna eða blóm skrúðið á árbakkanum.

Árið 1951 kvaddi Björn sér hljóðs á rithöfundaþingi með bókinni Hamingjudagar, sem gefin var út á kostnað og fyrir áeggjan frænda hans, Lárusar Jóhannessonar, síðar hæstaréttardómara. Þessi bók vakti þegar athygli fyrir ljóðrænan og fágaðan stíl, en þó ekki sízt fyrir næmleika höfundar á samskipti manns og náttúru. Þótt undirtitill bókarinnar væri Úr dagbókum veiðimanns, var efni hennar miklu frekar óður til alls hins fagra í ríki náttúrunnar, ofið frásögnum af mannlegum örlögum og eftirminnilegum persónulýsingum. Hér varekki aðeins kominn til sögunnar nýr rithöfundur, heldur í rauninni ný bókmenntagrein, sem ekki hafði verið mikil rækt lögð við hér á landi. Þegar á næstu árum sendi Björn frá sér fleiri bækur, sem staðfestu yfirburði hans í þessari grein bókmennta, Vinafundi 1953, Vatnanið 1956, svo að dæmi séu tekin, auk skáldsagna, smásagna og þjóðlegs fróðleiks, sem allt ber merki þeirrar ástar á umhverfi sínu blandinni góðlátri glettni, sem einkennir öll rit Björns Blöndals.

En þótt heillandi sé að lesa frásagnir Björns var þó ennþá skemmtilegra að hlusta á hann sjálfan segja frá, þar sem hann blandaði snilldarlega saman fróðleik um íslenzka náttúru, þjóðsögum og lifandi frásögnum af liðnum atburðum og eftirminnilegum persónum, sem hann hafði kynnzt á lífsleiðinni. Það var því ekki furða þótt margir sæktu hann heim tilað læra af honum og njóta frásagna hans. Eitt dæmi langar mig til að nefna því til sönnunar.

Í kringum 1960 kom Jörgen Jörgensen, menntamálaráðherra Dana, og einn helzti stuðningsmaður við málstað Íslands í handritamálinu, í heimsókn til Íslands. Faðir minn fékk það skemmtilega hlutverk að fara með þennan vin sinní ferð um söguslóðir Borgarfjarðar, í Reykholt, að Borg og til að sýna honum þetta fagra hérað. En nú fór verr en skyldi, þegar veðrið snerist í hellirigningu og dimmviðri svo að varla var hundi út sigandi og hvergi til fjalla að sjá. Í þessum vanda datt föður mínum það snjallræði í hug að fara óboðinn með ráðherrann í heimsókn til Björns í Laugarholti. Þar sátu þeir síðan lengi dags í góðum fagnaði og nutu þess að hlýða á mann, sem ekki kunni síður að segja frá en þeir forfeður hans, sem færðu Íslendingasögurnar í letur. Og ég hef það fyrir satt, að Jörgen Jörgensen hafiekki þótt annað merkilegra í heimsókn sinni til Íslands að því sinni en þessi dagstund í Laugarholti né betri sönnun þess, að handritin ættu bezt heima hjá slíku fólki.

Sjálfur kynntist ég Birni Blöndal ekki að ráði fyrr en nokkrum árumsíðar, og það með nokkrum óvæntum hætti. Haustið 1967 kom ég til föður míns síðari hluta dags, og varþar staddur Björn Blöndal. Sögðu þeir mér það þá í tíðindum, að þeirhefðu verið að ræða um mig og komizt að þeirri niðurstöðu, að mér gæti verið hollt að taka upp laxveiðar, því ekkert mundi verða mér betri hvíld og tilbreyting frá argaþrasi efnahags- og bankamála. Bauð Björn mér að koma með sérað veiða við Svarthöfða að áliðnu næsta sumri og mundi hann þá leiða mig fyrstu sporin á braut veiðimannsins. Þótt ég hefði til þess tíma staðizt allar freistingar um þátttökuí veiðitúrum, varð nú ekki lengur vörnum við komið, þegar tveir slíkir lögðust á árar. Var fastmælum bundið, að ég kæmi í Laugarholt á tilskildum tíma í ágústmánuði áriðeftir, og lagði Björn þegar á ráðum veiðibúnað, er ég þyrfti að afla mér til ferðarinnar. Þó gerði ég mér þá litla grein fyrir því, hve örlagarík þessi ákvörðun átti eftirað reynast mér. Eftir þetta naut ég þeirrar gæfu að veiða með Birni Blöndal við Svarthöfða tvo til þrjá daga á sumri hverju, á meðan hannhafði heilsu til. Þær stundir, semvið áttum saman á þessum stað, sem honum var sem helgireitur, munu lifa í minningunni til æviloka. Í húmi síðsumarkvöldanna og eftir ævintýri veiðidagsins, eignaðist ég kæran vin og fræðara, sem hefur auðgað líf mitt meira en ég fæ með orðum þakkað. Af honum lærði ég meira en nokkrum öðrum, ekki aðeins um veiðiskapinn sjálfan, heldur um líf laxins og þá undraveröld, sem býr í djúpi fljótsins og umhverfi þess. Án þess skilnings, er ég nam af vörum Björns, efast ég um, að laxveiði hefði nokkurntíma hrifið mig með þeim hætti, sem orðið hefur. Fyrir Birni fólst í veiði þátttaka mannsins í því eilífa samspili náttúrunnar, sem er grundvöllur alls lífs á jörðinni. Í upphafi bókarinnar Vatnaniðar lýsir hann henni með eftirfarandi orðum:

"Nálægt hálfri öld hef ég stundað veiðar, fálmandi barn í fyrstu og með frumstæðum veiðarfærum. En þá er sannast sagt, er ég viðurkenni, að margt er það, sem ég kann ekki í hinni frábæru íþrótt, stangarveiðinni. Þessari goðum bornu íþrótt má líkja við konuhjarta. Hún er gjöful og heillandi, hjúpuð fegurð, vafin í hamingjudrauma. En svo er hún líka vanþakklát og torráðin. Enginn, er gengur henni á hönd af heilum huga, á afturkvæmt frá dularheimum hennar. Og enginn mun heldur óska þess. Endurminningin fylgir unnendum hennar, hvert semþeir fara. Hún er þeim leiðarljós á dimmum dögum og svali á eyðimörkum mannlegs lífs."

Á tímum vaxandi kapps og græðgi í veiðiskap sem á öðrum sviðum er okkur hollt að leita sem oftast til bóka Björns og teyga hinn heilnæma ástardrykk hans til íslenzkrar náttúru. "Á æskuárum bar ég þá þrá í brjósti að verða náttúrufræðingur," segir Björn í bókinni Vinafundum. En þótt sú ósk rættist ekki, og hann væri bóndi alla sína starfsævi, auðnaðist honum samt að rita af svo mikilli snilld, innlifun og þekkingu um margt í náttúru landsins, að hinir lærðustu vísindamenn mættu vera hreyknir af.

Náttúrunnar numdir mál,

numdir tungur fjalla,

segir Grímur í kvæði sínu um Jónas Hallgrímsson, og þau orð finnst mér eiga vel við Björn. Hann átti listaskáldsins sanna skilning á það mál, sem náttúran talar til okkar á, en aðeins fáum er gefið að nema og túlka fyrir öðrum.

Í dag verður Björn til moldar borinn. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Dóra og fjölskylda okkar til Jórunnar, sonanna tveggja og fjölskyldna þeirra, og þökkum allar samverustundir með þeim Birni á liðnum árum. Við munum ekki oftar hitta hann brosandi á hlaðinu í Laugarholti eða eiga með honum ferð um ævintýraheima frá sagnarlistarinnar. En það er huggun harmi gegn, að hann hefur með bókum sínum skilið okkur öllum eftir ómetanlegan sjóð, sem ekki mun fyrnast, á meðan við unnum landi okkar og tungu.

Jóhannes Nordal

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.