Þór Jakobsson fæddist í Reykjavík 2. júní 1930. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 28. júlí 2010. Foreldrar hans voru Jakob Björnsson, bóndi og síðar lögregluvarðstjóri í Reykjavík, f. í Haga í Þingeyjarsýslu 15. ágúst 1895, d. 13. apríl 1969, og Eggþóra Kristjánsdóttir, f. á Bollastöðum í Hraungerðishreppi 13. janúar 1893, d. 5. desember 1964. Systkini Þórs voru níu, þau eru: Óðinn, f. 4. mars 1925, látinn. Ásdís, f. 21. nóvember 1926. Auður, f. 14. febrúar 1928, látin. Hulda, f. 5. júní 1929. Freyja, f. 5. desember 1932. Iðunn, f. 11. júní 1934, látin. Njörður, f. 28. júlí 1935, látinn. Kolbrún, f. 8. apríl 1938. Einnig ólu Jakob og Eggþóra upp tvö dótturbörn sín, þau Aðalstein, f. 30. desember 1944, og Þóru Guðrúnu, f. 11. maí 1948. Þór kvæntist 6. desember 1952 Þórhildi Gunnarsdóttur f. 9. júlí 1933, d. 24. janúar 1991. Foreldar hennar voru Gunnar Þorkelsson, f. að Þúfum í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp 19. apríl 1896, d. 6. janúar 1992, og Guðríður Ásta Guðjónsdóttir, f. að Hólmsbæ á Eyrarbakka 23. desember 1897, d. 4. maí 1971. Dætur Þórs og Þórhildar eru: 1) Ásta, f. 27. nóvember 1950, maki Knútur Benediktsson, f. 17. mars 1953, dætur þeirra eru a) Ásthildur, f. 13. maí 1975, maki Kristinn Freyr Haraldsson, börn þeirra eru Helga María og Knútur Atli. b) Þórhildur f. 5. júlí 1979, sambýlismaður Emil Örn Evertsson, synir þeirra eru Kári og nýfæddur sonur. 2) Guðný, f. 23. janúar 1952, sambýlismaður Tryggvi Már Valdimarsson, f. 13. maí 1953, sonur þeirra er Þór, f. 6. maí 1975, maki Svanhildur Þorvaldsdóttir, dóttir þeirra er Embla Þórey. 3) Þóra Margrét, f. 12. október 1958, sambýlismaður Jón Eiríkur Rafnsson, f. 7. apríl 1956, börn þeirra eru a) Gunnar Þór, f. 10. apríl 1982, sambýliskona Ásta Mekkín Pálsdóttir, b) Guðrún Björk, f. 16. desember 1985, sambýlismaður Þorgils Bjarni Einarsson. Fyrstu æviárin bjó Þór á Lindargötu í Reykjavík. Átta ára var hann sendur í fóstur til Guðnýjar móðursystur sinnar og Gísla móðurbróður síns í Odda á Rangárvöllum, þar sem hann var til sautján ára aldurs. Fljótlega eftir komuna aftur til Reykjavíkur hóf Þór störf hjá Fiskiðjuveri ríkisins, síðar Granda, þar sem hann starfaði allan sinn starfsaldur og lét af störfum 1997. Útför Þórs verður frá Fossvogskirkju í dag, 5. ágúst 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Það eru margar minningar tengdar afa og ömmu. Fyrst á Hjaltabakkanum, svo á Vesturgötunni og loks á Framnesveginum eftir að amma Tótla dó. Amma var það sem maður gæti kallað límið í fjölskyldunni og var það mikið áfall fyrir okkur öll þegar hún féll frá árið 1991. Afar eftirminnileg eru öll jólin og áramótin sem við áttum saman með ömmu og afa og hélt afi áfram þeirri hefð að halda fjölskyldunni saman á þessum hátíðisdögum eftir að amma dó. Alltaf var nóg pláss fyrir alla þó það fjölgaði í hópnum þegar barnabörnin fóru að koma með sína maka og barnabarnabörnunum fjölgaði. Jólin og áramótin sem við áttum saman eru ógleymanleg og verða ekki þau sömu hér eftir. Afi var af þeirri kynslóð manna sem lögðu nótt við nýtan dag að vinna fjölskyldunni farborða og munum við elstu barnabörnin eftir þreyttum manni sitjandi við eldhúsborðið á Vesturgötunni en þau yngri muna eftir honum að sleikja sólina á svölunum á Framnesveginum. Afi var sú manngerð sem sýndi aldrei nein merki um veikleika. Þrátt fyrir veikindi á seinni árum virtist hann alltaf hraustur og náði sér allltaf aftur af stað sama hvað á dundi. Margir hefðu gefið sig en ekki hann afi. Það lýsir honum svo vel þegar hann þurfti að gangast undir stóra aðgerð í fyrra í Osló að þá fannst honum það algjör óþarfi að vera að taka verkjalyf eftir aðgerðina og hafði mestar áhyggjur yfir því að dóttir hans og barnabarn sem fylgdu honum út leiddist ferðalagið. Þrautsegja afa og nálægðin við dóttur sína á Framnesveginum gerðu honum kleift að búa heima til dauðadags. En afi var líka nægjusamur og endurspeglast það í heimsókn hans til eins barnabarnsins í Sviss. Þá var rúntað með hann um allar sveitir þangað til að honum var nóg um og lét loksins upp úr sér að það þyrfti nú ekki að hafa svona mikið fyrir honum og þetta væru nú bara eintóm tré á þessum hraðbrautum. Afi fór vel með allt sitt og dæmi um það er rauði Lancerinn sem hann keypti árið 1996 og hefur gengið á milli barnabarnanna og er enn í góðu standi. Margar minningar koma upp í hugann þegar við hugsum til afa. Ekki er annað hægt en að minnast á ferðirnar með afa í Lunansholt til Ingu og Óðins bróður hans og var ekkert eins skemmtilegt og að heyja í Luna um Verslunarmannahelgarnar forðum daga.

Afi var afar gjafmildur í garð okkar barnabarnanna og alltaf beið okkar fleytifull Makintoshdós af nammi þegar við litum inn. Hann fylgdist vel með öllu sem var að gerast hjá fjölskyldunni og ljómaði þegar hann fékk langafabörnin í heimsókn en þau eru nú orðin fimm og náði hann að eiga góðar stundir með því yngsta sem kom í heiminn fyrir rúmum mánuði. Minnisstætt er hversu mikið hann lagði sig fram við að gleðja þau. Hann valdi til að mynda sértaklega gjafirnar fyrir þau úr bæklingum sem bárust fyrir jólin þó svo að hann kæmist ekki sjálfur að kaupa gjafirnar. Langafabörnin höfðu einnig gaman af því að heimsækja langafa þrátt fyrir að heilsan var farin að gefa sig því hann var alltaf til í að leika við þau og gantast.

Við fjölskyldan áttum svo góða stund saman á 80 ára afmæli afa í júní sl.

Elsku afi, nú skilja leiðir. Við söknum þín sárt en það er huggun harmi geng að þú ert kominn á fund ömmu Tótlu eftir þann tíma sem aðskildi ykkur og allar ferðirnar sem þú fórst upp að leiðinu hennar. Þá kemur upp í hugann erindi úr ljóðinu Söknuður eftir Vilhjálm Vilhjálmsson sem var flutt við útför ömmu og nú er víst komið að þessum hluta kvæðisins hjá ykkur elsku afi og amma.

Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur með blómunum.
Er rökkvar ráðið stjörnumál.
Gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niður á strönd.
Fundið stað, sameinað beggja sál.

Hvíl í friði elsku afi, blessuð sé minning ykkar ömmu.

Barnabörnin,

Þór, Ásthildur, Þórhildur, Gunnar Þór og Guðrún Björk.