Jónína fæddist í Viðfirði 13. desember 1919. Hún lést 28. júlí 2010 á Hrafnistu í Reykjavík. Áður bjó Jónína mörg ár í Bólstaðarhlíð 46 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Guðrún Friðbjörnsdóttir klæðskeri frá Þingmúla í Skriðdal, f. 11. maí 1893, d. 9. júní 1989 og Bjarni Sveinsson húsasmíðameistari frá Viðfirði, f. 5. ágúst 1894, d. 24. febrúar 1978. Systkini Jónínu eru: a) Guðlaug Ólöf, f. 1916, d. 1987. Maki: Jón Ísfjörð Aðalsteinsson, f. 1920, d. 1971. b) Guðrún Aðalbjörg, f. 1918. Maki: Sigurður Þ. Guðmundsson, f. 1915, d. 1977. c) Anna Sigríður, f. 1921. Maki: Sigtryggur Albertsson, f. 1916, d. 1998. d) Ingibjörg, f. 1922. Maki: Þórður Gíslason, f. 1911, d. 1989. e) Friðbjörg Bergþóra Bjarnadóttir, f. 1924. Maki: Aðalgeir Sigurgeirsson, f. 1920, d. 1997. f) Sveinn, f. 1927, d. 1963. Barnsmóðir Guðrún Magnúsdóttir. Maki: María Erna Hjálmarsdóttir, f. 1930, d. 1999. g) Unnur Ólafía, f. 1933. Maki: Ásgeir Lárusson, f. 1924. Jónína giftist Gunnari Sigurðssyni skrifstofumanni frá Akranesi, f. 4. janúar 1917, d. 5. mars 1966. Þau eignuðust tvær dætur: 1) Steinunn Agla Gunnarsdóttir, f. 2. janúar 1957. Maki: Karsten Sedal, f. 6. apríl 1954. 2) Guðrún Gunnarsdóttir, f. 26. júní 1958. Maki: Hörður Björnsson, f. 12. júlí 1956. Börn Guðrúnar og Harðar eru: Steinunn Ylfa, f. 29. júlí 1987, Hafrún Sjöfn, f. 2. janúar 1990 og Björn Hjörvar, f. 23. febrúar 1992. Jónína fæddist í Viðfirði en þegar hún var á öðru ári flutti fjölskyldan til Norðfjarðar þar sem þau bjuggu í húsinu Tungu en það hús höfðu foreldrar hennar byggt í Viðfirði og flutt með sér til Norðfjarðar. Tvítug að aldri fór hún í vist til Reykjavíkur og svo í Hjúkrunarskóla Íslands og lauk námi þaðan haustið 1946. Hún stundaði framhaldsnám í skurðstofuhjúkrun við Landspítalann. 1948 hélt hún utan og starfaði við sjúkrahús í Surray í Englandi og síðan í Edinborg í Skotlandi. 1951 fór hún til Finnlands til frekara náms í skurðstofuhjúkrun og síðla þess árs til Svíþjóðar. Eftir það vann hún á Kristneshæli í Eyjafirði þar til hún tók við starfi yfirhjúkrunarfræðings við opnun Sjúkrahúss Akraness 1952 og starfaði þar til ársloka 1956. Á Akranesi kynntist hún verðandi maka sínum, Gunnari Sigurðssyni. Þau fluttust til Reykjavíkur. Jónína hóf störf við Heilsuverndarstöðina, fyrst við húð- og kynsjúkdómadeild og síðar við ungbarnavernd sem hún sinnti í fjölmörg ár. Síðustu starfsárin vann Jónína við heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi og sem skólahjúkrunarfræðingur við Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla. Hún átti langa og farsæla starfsævi og vann til 70 ára aldurs. Jónína missti eiginmann sinn frá ungum dætrum sínum og sá ein fyrir þeim með mikilli vinnu. Þrátt fyrir það var heimili hennar alltaf opið ættingjum og vinum og þar nutu allir ástar og umhyggju. Jónína var félagslynd og tók virkan þátt í starfi eldri borgara, hún hafði mikla ánægju af dansi, spilaði brids og var einnig mikil handavinnukona. Útför Jónínu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 13. ágúst 2010 og hefst athöfnin kl. 13.

Að eiga gott fólk að og fá að njóta samvista við það er mikil gæfa. Fólk sem tekur þátt í sorgum og gleði samferðafólks síns og lætur sig hagi þess varða, fólk sem er öðrum fyrirmynd með eigin lífi og hefur heilsteypta og fordómalausa sýn á lífið. Þannig manneskja var Jónína S. Bjarnadóttir og að leiðarlokum er mér þakklæti efst í huga.
Eftir liðlega níutíu ára langa og farsæla ævi lagði Jónína af stað í síðasta ferðalagið, á björtu og fögru sumarkvöldi. Í lokin var líkaminn orðinn lúinn og hvíldin því kærkomin. Hjartað var farið að gefa sig og gloppur voru komnar í minnið en reisn sinni hélt hún til síðasta dags, hún fylgdist með því sem máli skipti, hvað hennar nánustu voru að fást við og gladdist yfir því sem vel gekk, það gilti einnig um mig og fjölskyldu mína.
Þeir sem ná jafn háum aldri og Jónína mega muna tímana tvenna og á uppvaxtarárum hennar var t.d. ekki sjálfgefið að ung stúlka úr stórum systkinahópi gæti menntað sig. Það gerði Jónína hins vegar, hjúkrunarnámið varð fyrir valinu vegna þess að í Hjúkrunarskóla Íslands fengu nemar fæði og húsnæði og smá kaup sem gerði gæfumuninn fyrir stúlku sem þurfti að sjá fyrir sér sjálf. Hún var farsæl í starfi og vann við fjölbreytt hjúkrunarstörf.
Hún varð ekkja einungis 46 ára með tvær ungar dætur, Steinunni níu ára og Guðrúnu tæplega átta ára. Það hefur án efa verið henni þungbært en það var ekki Jónínu háttur að horfa aftur eða barma sér, hún horfði alltaf fram á við og gerði það besta úr því sem hún hafði. Hún þurfti að vinna mikið til að skapa dætrum sínum sem best lífskjör. Ég kynntist Jónínu þegar við Steinunn dóttir hennar urðum vinkonur árið 1966, um það leyti sem mæðgurnar fluttu í Bólstaðarhlíð 46 en ég bjó hinu megin götunnar, í nr. 39. Og ferðir mínar upp á 4. hæð í Bólstaðarhlíð 46 urðu margar, fyrst til að heimsækja Steinunni og Guðrúnu en síðar, þegar dæturnar voru farnar til náms erlendis, átti ég Jónínu að.
Fyrstu minningar mínar um Jónínu eru þær að hún vann af kappi heima flest kvöld við að að útbúa minjagripi sem hún seldi í Rammagerðina,  en með því móti hafði hún t.d. ráð á að eignast skíði og skíðaútbúnað fyrir sig og dæturnar. Síðan var farið stuttar skíðaferðir í nágrenni Reykjavíkur en líka á námskeið í skíðaskólann í Kerlingafjöllum á hverju sumri í mörg ár. Með þessu móti átti hún góðar samverustundir með dætrum sínum þrátt fyrir langan vinnudag.
Þegar starfsævi hjúkrunarkonunnar lauk tók við ánægjulegur og annasamur tími í lífi Jónínu og margir höfðu orð á að erfitt væri að hitta á hana heima! Ferðalög út til dætranna urðu stór hluti af lífi hennar og eftir að barnabörnin þrjú sem fæddust í Svíþjóð voru komin til sögunnar var hvert tækifæri nýtt til að vera samvistum við þau. Aldrei heyrði ég Jónínu kvarta eða barma sér yfir aðskilnaðnum í þau ár sem dæturnar bjuggu báðar utan Íslands en gleði hennar var augljós þegar Guðrún fluttist heim ásamt fjölskyldu sinni.
Ótal minningar og myndir koma upp í hugann, t.d. skíðaferðirnar; Jónína við stýrið í bláa Moskvitsinum með okkur stelpurnar á leið í Árbæjarbrekku eða Bláfjöll, lágvaxinn bílstjórinn teinréttur í baki en náði ekki langt upp fyrir stýrið, eða Jónína að renna sér á gönguskíðum í Klambratúni, komin yfir áttrætt. Iðulega sá ég Jónínu á gönguferðum í Hlíðunum, eða á leið í leikfimi, spilaklúbb eða einhverja uppákomu í félagsmiðstöðinni, og svo var það handavinnukonan; á síðkvöldum logaði ljósið í glugganum á fjórðu hæðinni oftast og ég vissi að vinkona mín sat við að hannyrðir, fagur útsaumur eða prjónles á ættingja og vini rann úr höndum hennar. Hún hafði alltaf eitthvað fyrir stafni og ég man aldrei eftir henni með hendur í skauti og iðjulausri. Ljúfar er minningarnar um mína fullorðnu nágrannakonu sem kom yfir götuna til að líta eftir drengjunum mínum, þegar ég kom heim sat barnfóstran gjarnan á gólfinu með sonum mínum og sýslaði í dótinu með þeim, t.d. í búðarleik, allir voru glaðir og sælir og tæplega 70 ára aldursmunur virtist ekki há samskiptum þeirra!
Eftir að Jónína fékk heilablóðfall árið 2002 og lamaðist að hluta lá hún á endurhæfingardeild Grensáss í marga mánuði en með frábærri endurhæfingu starfsfólksins þar og þrautseigju hennar tókst henni að komast á stjá aftur. Tæplega ári eftir áfallið fluttist hún að Hrafnistu. Þar átti hún góð ár og var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig hún aðlagaðist lífinu þar og kynntist nýju fólki.
Mér hefur alltaf þótt endurnærandi að heimsækja Jónínu og það breyttist ekki þótt hún væri flutt á Hrafnistu, samt var brosið og blikið í augunum, hlýjan, fallegu orðin og hrósið sem ég fékk í hvert sinn þegar ég birtist. Við Jón Ingi og synir okkar vottum fjölskyldu Jónínu innilega samúð en minningin um mæta konu lifir með okkur öllum.

Sigríður Helga Þorsteinsdóttir.