Einar Sigurðsson fæddist í Neskaupstað 18. janúar 1927. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 3. ágúst 2010. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Hannesson, húsasmíðameistari í Neskaupstað og síðar á Akureyri, f. 1894, d. 1986, og Svanbjörg Baldvinsdóttir f. 1903, d. 1986. Systur Einars eru Hanna Sigríður f. 1935 og Jóna Kristín f. 1940. Árið 1951 kvæntist Einar Ragnheiði Árnadóttur, f. 25.apríl 1930. Foreldrar hennar voru Árni Árnason, kaupmaður í Reykjavík, f. 1898, d. 1969, og kona hans Guðrún Olga Benediktsdóttir, f. 1899, d. 1982. Börn Einars og Ragnheiðar eru: 1) Guðrún Olga f. 1955, maki Steingrímur Jónsson. Börn: Ragnheiður f. 1978 og Árni f. 1981. Börn Ragnheiðar S. og Jonasar Brunner: Hannes Ísar f. 2006 og Einar Nils f. 2009. 2) Sigurður Einarsson f. 1957, maki Valgerður Margrét Magnúsdóttir. Börn: Einar Benedikt f. 1982 og Magnús Benedikt f. 1989. 3) Ragnheiður Svanbjörg f. 1961, maki Gunnar Jónsson. Barn Ragnheiðar: Andreas Jan f. 1991. Einar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947 og fyrrihlutaprófi í verkfræði frá Háskóla Íslands 1952. Prófi í byggingarverkfræði frá NTH í Þrándheimi, Noregi, lauk hann 1954. Hann starfaði hjá Mannvirki hf í Reykjavík 1954-55 og hjá Vatnsveitu Reykjavíkur 1956-60. Hann var verkfræðingur hjá Åstorps bruk AB í Svíþjóð 1960-66 og eftir heimkomu til Íslands hjá Efrafalli sf og Fosskraft sf 1966-70. Einar var einn af stofnendum Ístaks hf.1969 og starfaði hjá því fyrirtæki 1969-76. Frá 1976 vann Einar hjá E.Pihl & Søn AS sem yfirverkfræðingur, verkefnastjóri og við gerð tilboða og verkáætlana á Grænlandi, og ýmsum löndum Afríku og Asíu. Einar var einn af stofnendum Dansk Sprængteknisk Forening 1989 og sat í stjórn félagsins 1991-95. Síðustu árin bjuggu Einar og Ragnheiður á Sléttuvegi í Reykjavík. Lengi áttu þau heimili í Lyngby, Danmörku og í Åstorp, Svíþjóð. Þau hafa dvalist, um lengri eða skemmri tíma, í ýmsum löndum m.a. á Grænlandi og í Tansaníu. Einar verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 13. ágúst 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Fyrir 40 árum var þögnin rofin á íslenska hálendinu og friðurinn úti. Þá skárust leiðir mínar og tengdaföður míns. Eftir það varð heimurinn aldrei samur.
Ég hafði í sumarleyfum á menntaskólaárunum starfað hjá Landsvirkjun sem aðstoðarmaður Aksels Piihl við landmælingar á efra Þjórsársvæðinu, við Sigöldu og Þórisvatn, einn af "drengene mine" eins og hann kallaði okkur svo hlýlega. Verkefni okkar tengdust kortagerð og staðsetningum á borholum, þegar lítill en góður hópur manna frá Landsvirkjun og Orkustofnun vann hörðum höndum við könnun á ýmsum virkjunarmöguleikum og aflaði gagna til að gera útboð framkvæmda möguleg.
Þegar snjóa leysti vorið 1970 voru reistar miklar vinnubúðir vestan við Vatnsfell við suðurenda Þórisvatns. Svæðið fylltist af stórtækum vinnuvélum, jarðýtum, ámoksturstækjum og gríðarstórum Kochums-trukkum. Margir tugir karla og kvenna unnu á tvískiptum vöktum allan sólarhringinn. Undir merkum Ístaks skyldi grafinn skurður úr Þórisvatni niður í Tungnaá austan Sigöldu. Fyrir hópnum fór liðlega fertugur verkfræðingur með mikilfenglegt yfirvaraskegg sem rúllaðist upp á endunum. Hann keyrði um á drapplitaðri fólksvagen-bjöllu - allir aðrir voru á Land Rover eða Rússajeppum. Einar Sigurðsson var engum líkur.
Fljótlega sá ég líka að það var ekki bara að hinu ytra sem Einar skar sig frá öðrum. Hæfileiki hans til að tala við alls konar fólk var einstakur, hvort heldur voru aðrir verkfræðingar eða tæknifræðingar, verkamenn, gamalreyndir mælingamenn eða menntaskólastrákar í sumarvinnu. Hann talaði næstum því eigið mál við hvern og einn. Það var sem hann stillti sig inn á bylgjulengd hvers og eins, og allir voru metnir að verðleikum. Einar komst inn í hjarta sérhvers manns. Það má líka vera til marks um skilning hans á mikilvægi allra einstaklinga að í vinnubúðunum við Vatnsfell var aldrei neinn sérstakur yfirmannamatsalur, gagnstætt því sem verið hafði í Búrfelli nokkrum árum áður, eða var við Þórisós við norðurenda vatnsins þar sem annað verktakafyrirtæki annaðist framkvæmdirnar.
Stundum talaði hann líka í gátum. Mér er minnisstætt eitt tilvik þegar við skyldum mæla í Sigöldugljúfri þar sem enginn komst að nema fuglinn fljúgandi. Í vandræðum okkar kom Einar með tillögu: Fáið ykkur hrafn og biðjið hann um að fljúga niður í gljúfrið og setjast þar á einhverja nibbu. Miðið á hann með mælitækinu og lesið af hornið. Biðjið síðan hrafninn um að flytja sig á næstu nibbu, og svo koll af kolli þar til þið hafið allar tölur sem þarf. Með þetta góða ráð Einars í farteskinu leystum við verkefnið, jafnvel þótt það væru engir hrafnar neins staðar nálægt.
Tveimur árum síðar réðst ég sem mælingamaður til Ístaks í verkefni sem fólst í því að gera jarðgöng undir Oddsskarð milli Reyðarfjarðar og Norðfjarðar í u.þ.b. 600 metra hæð. Einar stjórnaði gangnagerðinni, en verkefnið var miklu umfangsminna og vinnuhópurinn þar af leiðandi miklu fámennari en verið hafði í Vatnsfelli. Ég var þannig miklu nær Einar en fyrrum. Ég hafði líka kynnst dóttur hans svo hann var ekki bara yfirmaður minn. Þetta sumar þroskaðist ég meira en nokkru sinni fyrr. Einar kenndi mér margt, kenndi mér að taka ákvarðanir og efldi sjálfstraust mitt. Og ég kynntist honum nánar og fann hvílíkt gull af manni hann var.
Hann náði líka ótrúlega góðu sambandi við verkamennina, öndvegismenn sem unnið höfðu margvísleg störf til lands og sjávar. Nokkrir þeirra voru reyndar fordómafullir, og skáru sig kannski ekki úr að því leyti. Ég veit satt að segja ekki hvort var verra: að vera verkfræðingur eða vera að sunnan. Að vera verkfræðingur að sunnan var þó sýnu verst. Því áliti gerbreytti Einar.
Einhverju sinni í hádegismatartímanum setti Einar teskeið í kaffibollann, tók fyrir annað augað og sló svo í teskeiðina frá hlið með fingurgómum hinnar handarinnar. Þeim fordómafyllstu fannst þetta ekki merkilegt. Hver gæti ekki gert þetta? Einn prófaði - og hitti ekki! Aðrir reyndu líka og fæstum tókst. Hvað var að gerast? Allt í einu voru allir komnir með teskeið í bollann og reyndu að slá í hana frá hlið með annað augað byrgt. Fyrir flesta var það algerlega nýtt að fræðast um að fjarlægðarskyn byggist á sjón á báðum augum. Og til marks um áhrifin af þessari litlu kennslustund hef ég það þegar Einar lét af verkstjórninni um haustið og fór aftur til Reykjavíkur með fjölskylduna. Þá kom einn sá sem fyrrum var fordómafyllstur gagnvart verkfræðingnum að sunnan, bankaði uppá hjá Einari og færði honum vodkaflösku að gjöf. Einar hafði komist gegnum skrápinn inn í hjarta þessa manns.
Líklega hafði það þó mest áhrif á mig sumarið í Oddsskarði að uppgötva áhuga Einars á sögu lands og þjóðar, einkum á þessu svæði kringum Oddsskarð og um miðbik Austfjarða. Hann dró fram bækur, las sig til, og á sunnudögum var farið í ferðir til að sjá og upplifa allt sem sérstakt var. Silfurbergsnáman austan Eskifjarðar og geislasteinarnir við Djúpavog eru bara tvö dæmi úr jarðfræðinni, en Einar hafði gríðarmikinn áhuga á jarðfræði. Ég hygg að þekking hans hafi ekki verið minni en hjá háskólamenntuðum jarðfræðingi. Enda skipti jarðfræðin öllu máli þegar um jarðvegsframkvæmdir var að ræða, það sem var sérsvið Einars. Söguslóðir voru líka heimsóttar og skoðaðar "franskar" minjar í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Ekki var það þó bara landið og sagan sem heillaði: Í sunnudagsferðunum var veiðistöngin jafnan með og rennt fyrir silung eða sjóbirting, hvort heldur var í Vöðlavík eða Mjóafirði.
Fyrir mig var mikilvægt að upplifa hversu mikill húmanisti Einar var. Hann las mikið og tileinkaði sér það sem hann las. Hann hafði líka næmt brageyra og kunni fjöldann allan af lausavísum, enda fjarskyldur ættingi Stephans G. Stephanssonar. Ekki orti þó Einar neitt nema eitthvað smálegt, græskulegt mest til gamans, sem sumpart minnti á kveðskap Þórbergs Þórðarsonar þar sem hinu ytra formi bragarháttarins var fylgt til hins ýtrasta en innihaldið var hinsvegar bull. Einungis ein ferskeytla náði að komast á prent: "Maðkurinn lá í mysunni, miður sín af elli ... " Botninn geta menn lesið í Tummu kukku, söngbók Mímis, félags íslenskustúdenta.
Um miðbik og á síðari hluta 8. áratugarins drógust verklegar framkvæmdir saman á Íslandi. Einar fékk verkefni í Godthååb (Nuuk) á Grænlandi gegnum systurfyrirtæki Ístaks í Danmörku, Pihl & sön. Fyrsta sumarið var byggð stórskipabryggja, næstu tvö sumrin var það flugbraut. Flugbrautin var gríðarstórt jarðvinnuverkefni. Sprengja þurfti mörg klapparholt og fylla í djúpar dældir. Í dag lítur þetta allt út eins og hafnarkanturinn og flugbrautin hafi alltaf verið þarna.
Í framhaldi af Grænlandsverkefnunum tengdist Einar meir og meir stórum verkefnum sem Pihl & sön voru með um allan heim, einkum þróunarhjálparverkefnum sem danska ríkið styrkti gegnum DANIDA. Þannig voru tengdaforeldrar mínir um lengri eða skemmri tíð í m.a. Jemen á Arabíuskaganum og síðar í Tanzaníu í austur Afríku. Auk þessa vann Einar við útreikninga tilboða sem Pihl & sön gerðu. Oftar en ekki áttu þeir lægsta boð, og fengu þannig verkið, þótt það yrðu síðan aðrir verkfræðingar sem stjórnuðu verkinu þegar til kastanna kom.
Öll þessi verk sem Einar vann fyrir Pihl & sön urðu til þess að þau hjónin dvöldust meira erlendis en á Íslandi. Fyrr en varði var það bara um jól og nýjár sem þau komu heim. Það hlaut því að koma að því að þau flyttu heimili sitt til Danmerkur. Í u.þ.b. aldarfjórðung áttu þau heima í Lyngby norðan Kaupmannahafnar, í Granparken, ákaflega fallegum stað nálægt Brede. Þangað heimsóttum við þau, fyrst frá Íslandi, en eftir að við fluttumst til Lundar í Svíþjóð fjölgaði ferðunum yfir Eyrarsund mjög. Það tók 3-4 tíma frá dyrum til dyra áður en Eyrarsundsbrúin komst í gagnið fyrir 10 árum. Einar og Ranka komu líka oft yfir til okkar. Þetta skipti miklu máli. Börnin okkar höfðu þannig afa og ömmu innan seilingar öll uppvaxtarárin. Engin jól héldum við án afa og ömmu, hvort heldur var í Svíþjóð eða Danmörku.
Það eru margar góðar minningar sem koma upp í hugann, bæði úr Granparken eða Jordabalksvägen í Lundi. Oftast vorum við öll saman fjölskyldan, en við "gömlu" fórum líka nokkrum sinnum fjögur saman í langar helgarferðir, t.d. til Wismar og Hamborgar í Þýskalandi, út á Borgundarhólm og með bát út í Christiansö, út á Jótlandsskaga, upp í Värmland í Svíþjóð, út á Öland og til Norrköping, svo nokkuð sé nefnt. Um margt mjög ólíkar ferðir, allar mjög skemmtilegar og eftirminnilegar.
---
Við Vatnsfell er framkvæmdunum löngu lokið og vélagnýrinn þagnaður. Sporin eftir sjálfar framkvæmdirnar eru horfin. Eftir stendur vatnsmiðlunin sem lítur út eins og hún hafi alltaf verið þarna og hefur með svo mörgum öðrum verklegum framkvæmdum gert Ísland að betra landi að búa í og Íslendingum lífið auðveldara.
Nú er rödd Einars þögnuð og augu hans lokuð. Verkin standa, og minningar okkar sem kynntumst honum best munu lifa með okkur um ókomin ár. Það hefur alltaf verið gott að hugsa til hans og svo mun alltaf verða.
Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Einari Sigurðssyni. Betri mann get ég ekki hugsað mér.

Steingrímur Jónsson.