Útgáfa Smárit um gerð viðskiptaáætlana Nýlega kom út smáritið "gerð viðskiptaáætlana" sem er þriðja ritið í smáritaröð Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands og Framtíðarsýnar hf. Höfundar ritsins eru þeir Gestur Bárðarson hjá Tækniþróun hf. og Þorvaldur...

Útgáfa Smárit um gerð viðskiptaáætlana Nýlega kom út smáritið "gerð viðskiptaáætlana" sem er þriðja ritið í smáritaröð Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands og Framtíðarsýnar hf. Höfundar ritsins eru þeir Gestur Bárðarson hjá Tækniþróun hf. og Þorvaldur Finnbjörnsson hjá Rannsóknarráði ríkisins.

Smáritið er ætlað öllum þeim sem hyggjast stofna nýtt fyrirtæki eða breyta þegar starfandi fyrirtæki á einhvern hátt og vilja setja fram hugmyndir sínar í formi viðskiptaáætlunar, að því er segir í fréttatilkynningu. Viðskiptaáætlanir eru eitt af þeim tækjum sem frumkvöðlar geta beitt til að koma hugmyndum sínum á framfæri, bæði til glöggvunar fyrir aðra aðila og ekki síður fyrir frumkvöðulinn sjálfan. Viðskiptaáætlunin þykir áhrifaríkt tól til að meta viðskiptahugmyndina fyrirfram með raunsönnum hætti og einnig til samanburðar við raunveruleikann þegar fram í sækir. Hún þykir áríðandi fyrir mat fjárfesta á því hvort þeir vilji hætta fé í fyrirtækinu og fjármálastofnanir sem leggja fram lánsfé en jafnframt er hún gott verkfæri við upplýsingagjöf og samræmingu innan fyrirtækis.

Viðskiptaáætlanir eru notaðar í einu eða öðru formi við daglegan rekstur og stofnun fyrirtækja í dag. Kröfur um skipulagða og skýra framsetningu eru alltaf að aukast og er ætlunin með þessu smáriti að gera þeim sem áhuga hafa á að gera viðskiptaáætlun kleift að mæta þessum kröfum.

Markmið með útgáfu smárita Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands og Framtíðarsýnar hf. er að opna farveg fyrir athyglisvert efni sem á erindi til stjórnenda, tekur stuttan tíma í lestri og getur nýst þeim í daglegu starfi. Útgáfa þeirra er liður í því að auka fjölbreytni þess efnis sem til er á íslensku um rekstur og stjórnun fyrirtækja. Alls koma 8 smárit út á ári og kostar hvert smárit 1.500 kr. en áskrifendum er gefinn 35% afsláttur af hverju riti.

Smáritið Gerð viðskiptaáætlana er hægt að kaupa í stærri bókabúðum og/eða panta í síma 628780 hjá útgefanda, Framtíðarsýn hf., segir ennfremur í fréttatilkynningu.