Hvað kostar kílóið af hvorutveggja í Bónus?
Hvað kostar kílóið af hvorutveggja í Bónus? — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólk talar að jafnaði ekki vitlaust vegna þess að tungumálið er þeirrar náttúru að við skilgreinum hið rétta mál út frá því sem er sagt. Málið kemur fyrst og málfræðin svo.

Umræða á mállögreglusviði samfélagsins skilar sér illa til hins upplýsta almennings. Í hinum þrönga hópi málræktenda ríkir frjálslyndi og skilningur á því að svokallaðar málvillur séu miklu sjaldheyrðari í mæltu máli en ætla mætti af útbreiddum viðhorfum almennings. Fólk talar að jafnaði ekki vitlaust vegna þess að tungumálið er þeirrar náttúru að við skilgreinum hið rétta mál út frá því sem er sagt. Málið kemur fyrst og málfræðin svo. Málfræðin byggist á greiningu á hinu talaða og ritaða máli og fæst við að setja fram reglur sem lýsa því.

Misskilningurinn er sá að halda að málfræðin sé rétt en málið vitlaust. Almenna reglan er sú að ef fullþroska málhafar beygja orð með tilteknum hætti, tala til dæmis um „vísira“ á klukkum og hringja í „læknira“ (í stað þess að tala um „vísa“ og „lækna“), er rétt að skrá það í málfræðina sem viðurkennda beygingarmynd.

Sömu sögu er að segja um fallanotkun. Þegar sagt er „mér langar“ og „mig/mér hlakkar“ (í stað „mig langar“ og „ég hlakka“) er ógjörningur að halda því fram að það sé vitlaust. Sérstaklega þegar þau sem svo tala sinna kennslu eða matreiða barnaefni á mynd- og hljóðdiskum. Við í mállögreglunni (sem ólumst upp við strangar leiðréttingar á þessum atriðum) eigum að sjálfsögðu erfitt með að tileinka okkur hinn nýja sið, hvað þá að hemja okkur þegar við heyrum börn tala svona. Í stað þess að kyngja þessu þegjandi læðum við að setningum í kjölfarið þar sem þau og hann og hana og mig langar til að ég hlakki til. En þessi viðleitni hefur sömu áhrif og veðurspá á veðrið. Setningar okkar ríma ekki við máltilfinningu barnanna og þau halda sínu striki – enda nógar málfyrirmyndir meðal fullorðinna henni til stuðnings. Í margra munni er „mér langar“ rétt mál og þau málfræðirök eru ekki til sem hrekja það.

Þessi litlu dæmi um „að langa“ og „hlakka“ hafa orðið að allsherjarviðmiði um hvaðeina sem lýtur að málvöndun. Fyrir skömmu var ég meðal góðra vina á sveitasetri. Þar komu upp ýmis verkefni sem sérfræðingar í hópnum hefðu getað látið til sín taka en þau kepptust við að lýsa því yfir að þau væru í fríi og myndu ekki sinna neinu sem tengdist vinnu þeirra. Ég gat ekki stillt mig um að segja að þar sem ég væri líka í fríi myndi ég ekki taka að mér að leiðrétta tungutak þeirra. Viðstödd tóku þessu fagnandi og hófu þegar að ryðja út úr sér því sem þeim hafði verið kennt að væru málvillur. Og viti menn: Út úr þeim komu eingöngu tilbrigði af „mér langar“ og „mig hlakkar“ sem rugluðust fljótlega í „mig langar“ og „mér hlakkar“ – sem varð tilefni framíkalla um að sumt af þessu væri alveg rétt. Í asanum sem hið nýfengna málfrelsi olli talaði hvert upp í annað en fljótlega hættu þau að tala „vitlaust“ – enda reyndist það álíka erfitt og fyrir lagvisst fólk að syngja falskt.

Leiðréttingar á mæltu máli gera oft ekki annað en að rugla fólk í ríminu og fæla það frá tungumáli sínu. Þannig hefur til dæmis farið fyrir „hver/hvor annar“, „hvor/hvort tveggja“ og fleiri slíkum samsetningum, sem margir leiðrétta í ræðu og riti með rökfast og tilbúið regluverk að vopni. Menn eiga til dæmis ekki að lemja „hvorn annan“ heldur „hvor annan“ og ef samband fólks einkennist af umhyggju „fyrir hvort öðru“ væri „betra“ ef það væri „hvors fyrir öðru“. Leiðréttingar í þessum anda skapa svokallaðan málótta. Hann lýsir sér í því að fólk veigrar sér við að segja það sem því er eiginlegt af ótta við að það verði leiðrétt í eitthvað sem hefur aldrei hljómað í mæltu máli – þótt það lúti ákveðinni rökhugsun tilbúinna málfræðireglna. Þannig heyrist hið eðlilega málfar æ sjaldnar og verður að lokum framandi nýjum kynslóðum. Til er saga af kassanum í kjörbúð þar sem viðskiptavinur þurfti að gera upp við sig hvað hún ætlaði að kaupa af því sem lá á færibandinu. Á endanum sagðist hún ætla að fá hvorutveggja. Ungi aðilinn á kassanum kannaðist ekki við að hafa hvorutveggja til sölu og sneri sér því að verslunarstýrunni fyrir aftan sig og spurðist fyrir. Sú var skjót til svars: „Já, það var ein svona hér í gær, hún meinar bæði.“