Hamlet sem ljómar af dirfsku Leiklist Hávar Sigurjónsson Leikfélag Reykjavíkur sýnir: Hamlet eftir William Shakespeare Leikstjóri: Kjartan Ragnarsson Þýðing: Helgi Hálfdanarson Leikmynd og búningar: Grétar Reynisson Lýsing: Egill Örn Árnason Tónlist:...

Hamlet sem ljómar af dirfsku Leiklist Hávar Sigurjónsson Leikfélag Reykjavíkur sýnir: Hamlet eftir William Shakespeare Leikstjóri: Kjartan Ragnarsson Þýðing: Helgi Hálfdanarson Leikmynd og búningar: Grétar Reynisson

Lýsing: Egill Örn Árnason

Tónlist: Jóhann G. Jóhannsson og Pétur Grétarsson

Leikgerð: Leikstjórinn og hópurinn

Það fyrsta sem slær áhorfandann er hann gengur í salinn á Hamletsýningu Iðnó er gjörbreyttur salur. Sviðið teygir sig fram eftir áhorfendasalnum í langri, mjórri tungu svo áhorfendur sitja til sitt hvorrar hlið arinnar, aftan við, einnig uppá svölum og gott ef ekki upp á gamla leiksviðinu líka. Leik félagsfólk hefur reyndar gengið langt áður í því að brjóta upp hið hefðbundna form leikhússins gamla í Iðnó, en svona langt hefur aldrei verið gengið og merkilegt nokk; Hamlet hefur nálgast uppruna sinn, sviðsetning Kjartans Ragnarssonar og Grétars Reynissonar byggist á sérstaklega hugvitsamlegri notkun á rými og á vissan hátt minnir form þessa leikpláss á leiksvið meistarans sjálfs. Þar endar reyndar samlíkingin og sýning Leikfélags Reykjavíkur á Hamlet tekur við.

Það hefur áreiðanlega vafist fyrir mörgum í gegnum tíðina við sviðsetningu á Hamlet að þar er kannski fyrst og fremst verið að segja sögu. Meira að segja spennandi sögu. Í hugum margra er Hamlet svo merkilegt leikrit, svo djúpt og flókið, persóna Hamlets sjálfs svo margslungin og meiriháttar að ef þetta kemst ekki allt til skila, er sýningin einskis virði. Það er alveg rétt, hræðslan við efniviðinn getur borið þessa einföldu staðreynd um leikritið Hamlet ofurliði; að segja þessa spennandi glæpa- og átakasögu á einfaldan, skýran og skemmtilegan hátt. Þetta finnst mér Kjartani Ragnarssyni og liði hans hafa tekist að flestu leyti og um leið sýna þau frammá að stórverk leikbókmenntanna eru akkúrat stórverk leikbókmenntanna vegna þess að það er meira í þau varið en hin smærri verk.

Þröstur Leó Gunnarsson er Hamlet í þessari sýningu. Þröstur fer sérstaklega skynsama leið að þessa erfiða hlutverki - kannski er það einkum erfitt fyrir það hvað allir halda að það sé erfitt - hann ryðst ekki um með offorsi en beitir stillingu og undirtónum af kunnáttu. Hættan er vafalaust sú að ætla að taka áhorfendur með trompi, arga þá í kaf, og umleið gera sýninguna að einhverskonar tæki þessa eina leikara tilað sýna stjörnuleik. Kjartan Ragnarsson hefur farið rétta leið að verkinu í þeim efnum og umleið létt byrðinni af Þresti, áherslan er ekki alfarið á Hamlet, þó sjónir beinist að honum. Þröstur Leó vinnur hér leiksigur, einhvernveginn finnst manni blasa við af hversu mikilli einlægni og virðingu hann hefur nálgast hlutverk sitt; án þess að ofmetnast, án þess að láta hugfallast og útkoman er fullkomlega trúverðugur Hamlet sem gengur á vit örlaga sinna vegna þess að aðrar leiðir virðast ekki færar. Að vera eða ekki vera" er þekktasta upphaf ræðu í leikriti - þeir eru sennilega færri sem þekkja framhaldið - og þegar ungum leikara tekst að blása lífi í þessa gömlu ræðu, þannig að maður trúir því að verið sé að segja hana í fyrsta skipti, þá... ja, þá er maður einfaldlega á réttum stað það kvöldið.

Kjartan Ragnarsson leikstjóri fer mjög ákveðna leið að þessari uppsetningu. Hann hefur greinilega haft sterka hugmynd í upphafi og verið samkvæmur sjálfum sér allt til loka. Sýningin er því vel unnin, myndræn og lifandi og hlaðin hugvitsamlegum og einföldum lausnum. Lýsing Egils Árnasonar er knöpp og nákvæm, verulega áhrifamikil á köflum, en sum staðar full brött og þröng tilað þjóna grundvallartilgangi sínum; varpa ljósi á leikendur. Þetta er þó ákvörðun leikstjórans og ekki við Egil að sakast. Leikhljóðum -tónlist - er beitt af dirfsku, sumstaðar sem eins konar undirspili annars staðar til áhrifa auka. Hvoru tveggja gengur og er upprisa draugsins t.d. mjög vel útfært og áhrifamikið atriði. Sviðsetningin gerir miklar kröfur til áhorfenda, sjónlínur eru nýttar til hins ýtrasta og hugsanlega um of frá stöku stað séð. Kjartan nýtir sér nálægð við áhorfendur á hófsaman hátt, hvergi er gengið of nærri, né er áhorfendum ofboðið. Þessi sviðsetning á Hamlet er í leikskrá kölluð leikgerð. Það er vegna þess að leikritið hefur verið stytt, sumu er sleppt, öðru þjappað saman. Hér má spyrja hvort leikstjóranum hafi verið svo mikið í mun að fella verkið að hugmynd sinni að verkið hafi orðið að láta undan, eða hvort um vantraust á leikritið í sínu upprunalega horfi sé að ræða. Flestar breytingarnar horfa að vísu aðeins til styttingar verksins og er það saklaust, en þegar sviðsetningin gerir eina fallegustu ræðu verksins óviðeigandi, þá má gera athugasemd. Hér er ég að tala um ræðu Geirþrúðar drottningar um dauðdaga Ófelíu. Þá er ég einnig ósáttur við að fella niður atriðið milli grafarana tveggja sem og útstrikun persónunnar Fortinbras. Hvoru tveggja þjónar þeim tilgangi að opna sýn til stærri veraldar en húshaldsins í Elsinóru kastala og innkoma Fort inbras í lokin bendir til framtí ðarskipunar mála. Með því að fella þetta burt er verkinu lokað, það verður hringlaga og satt best að segja; það verður lítilfjörlegra en ella.

Svartur litur er ráðandi í leikmynd og búningum. Ekki virðist mér fullkomlega ljóst hvaða hugmynd er að baki þessu einhliða litarvali. Svart er táknrænn litur sorgarinnar, valdsins og illskunnar. Þetta rennur á köflum út í eitt og ekki ljóst hvað á við hvað. Einnig finnst mér óþægilega áberandi hversu sjúskaðir sumir búninganna eru. T.d. bleiki!! kjóllinn sem Ófelía birtist í. Og af hverju eru allir búningar Hamlets einsog númeri of stórir?

Sigurður Karlsson og Guðrún Ásmundsdóttir eru spillingin holdi klædd. Túlkun þeirra beggja er teygð á ystu nöf og rétt á mörkunum að texti verksins haldi utanum svo einstrengingslega túlkun. Sigurður nær því að gera Kládíus afspyrnu ógeðfelldan, svo ógeð felldan að fyrirgefningarræða Kládíusar kemur hálfpartinn á óvart í þessu samhengi. Á hinn bóginn næst með þessu móti mjög sterk undirstrikun á viðbjóði Hamlets á sambandi móður hans við Kládíus föðurbróðir hans. Sigrún Edda Björnsdóttir fer með hlutverk Ófelíu. Hvort Ófelía áað vera svona eða einhvern veginn öðruvísi er alltaf matsatriði. Ég hefði viljað sjá yngri og sakleysi legri Ófelíu. Hún verður saklaus fyrir barðinu á grimmum heimi. Hún má þá ekki virðast nægilega lífsreynd til að geta staðið hremmingarnar af sér. Sigrún Edda náði sér fyrst verulega á strik eftir að Ófelía hefur misst vitið og lokat riði Ófelíu var eftirminnilegt. Að öðrum leikendum ólöstuðum vil ég tíunda sérstaklega leik Eyvindar Erlendssonar í hlutverki graf arans. Ég saknaði þess að hann hafði ekki allt atriðið til að moða úr. Valdemar Örn Flygenring var kórréttur Laertes. Valdemar virtist þó hinn eini sem ekki hafði textaflutninginn krystaltæran. Kjartan Bjargmundsson og Jakob Þór Einarsson voru Gullinstjarna og Rósinkrans. Einhvern veginn fannst mér vanta örlítinn húmor í leik þeirra. Þetta tvíeyki er hlægilegt, eða á að vera. Loks vil ég nefna Eggert Þorleifsson í hlutverki Hórasar. Þar fann ég aftur þessa sömu einlægni og virðingu fyrir hlutverkinu og reyndar verkinu í heild einsog hjá Þresti Leó.

Ekki verður skilið svo við Hamlet að þýðingar Helga Hálfdanarsonar sé í engu getið. Á köflum rís hún svo hátt og orðkynngin svo mögnuð að gefur frumtextanum lítið eftir. Og samt þýðir Helgi svo ótrúlega orðrétt og af svo miklum trúnaði við höfundinn. Þessi þýðing er listrænt afrek unnið af hógværð og lítillæti.

Kjartan Ragnarsson leikstjóri og leikendur vinna sigur með þessari Hamlet uppfærslu. Sýningin ljómar af dirfsku og hugvit semi. Þannig sýning kveikir umræður, vekur til umhugsunar, fær fram andstæð sjónarmið. Það er kostur en ekki löstur.

Morgunblaðið/Bjarni

Þröstur Leó Gunnarsson í hlutverki Hamlets.

Laertes og Hamlet í kröppum dansi. Þröstur Leó og Valdemar Örn Flygenring.