Sigurður Ringsted Ingimundarson fæddist í Ólafsfirði 2.5. 1912, hann andaðist á dvalarheimilinu Hornbrekku á Ólafsfirði 5. 9. sl. Sigurður var sonur hjónanna Ingimundar G. Jónssonar, f. 21.4. 1875, d. 1966, og Guðrúnar Guðmundsdóttur, f. 2.4. 1880, d. 1934. Hann ólst upp á Kvíabekk hjá fósturforeldrum sínum þeim Guðlaugu R. Kristjánsdóttur, f. 20.9.1866, d. 1957 og Rögnvaldi K. Rögnvaldssyni f. 18.7. 1858, d. 1950. Sigurður átti átta systkini sem öll eru látin, þau voru Ingibjörg f. 8.11. 1901, d. 1957, Ólöf, f. 9.9. 1903, d. 1906, Jakob, f. 21.7. 1905, d. 1988, Ólöf, f. 28.9. 1907, d. 2000, Gísli, f. 2.12. 1909, d. 1993, Sigríður, f. 16.10. 1913 d. 2009, Halldóra, f. 3.11. 1914, d. 2009, og Þorvaldur, f. 15.1. 1918, d. 1974. Sigurður kvæntist Sumarrós Sigurðardóttur, f. 5.12. 1918, d. 28.5 2007. Foreldrar hennar voru Þórunn Jónsdóttir, f. 14.12. 1890, d. 1975, og Sigurður Gunnlaugur Jóhannesson, f. 11.9. 1891, d. 1982. Sigurður og Sumarrós eignuðust átta börn. 1) Sólveig, f. 28.5. 1943, gift Matthíasi Ásgeirssyni, f. 14.4. 1938. 2) Bjarki, f. 6.5. 1944, hans kona er Elín Haraldsdóttir, f. 26.3. 1950. 3) Þráinn, f. 13.11. 1945, kvæntur Dröfn Gísladóttur, f. 28.3. 1946. 4) Lísbet, f. 15.11. 1948, sambýlismaður hennar er Leó Sveinsson, f. 22.8. 1942. 5) Rögnvaldur K., f. 8.11. 1950, kvæntur Margréti Kjartansdóttur, f. 19.10. 1964. 6) Sigurður, f. 15. 1. 1952, kvæntur Hólmfríði Dóru Kristjánsdóttur, f. 29. 8. 1965. 7) Ríkharður Hólm, f. 19.5. 1954. 8) Hjörtur, f. 19.10. 1956, kvæntur Eygló Birgisdóttur, f. 3.1. 1964. Fyrir átti Sumarrós 3 börn þau eru: Kristinn H. Gíslason, f. 19.11. 1936, kvæntur Sigríði Vilhjálms, f. 9.9. 1943. Halla Gísladóttir, f. 27.10. 1938, gift Guðlaugi Eyjólfssyni, f. 23.10. 1933, og Björk Gísladóttir, f. 5.6. 1941, eiginmaður hennar er Kristinn Traustason, f. 14.5. 1936. Afkomendur Sigurðar eru í dag orðnir 69. Sigurður starfaði alla tíð sjálfstætt, ýmist sem vörubílstjóri eða sérleyfishafi með rútur. Sigurður var fyrstur til að fara á bifreið yfir Lágheiði árið 1934. Á þeim árum voru engar vegasamgöngur við Ólafsfjörð og barðist hann fyrir því að Ólafsfjörður kæmist í vegasamband. Sigurður barðst einnig mikið fyrir lagningu Múlavegar ásamt fleiri heimamönnum. Hann hélt uppi samgöngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar til margra ára og rak einnig steypustöð á Ólafsfirði um árabil. Sigurður var alla tíð virkur í félagsmálum og var lengi í forsvari fyrir Byggingarfélag verkamanna og mikill alþýðuflokksmaður. Sitt fyrsta heimili áttu Sigurður og Sumarrós á Siglufirði en eftir tveggja ára dvöl þar fluttust þau til Ólafsfjarðar. Þau bjuggu lengst af á Brekkugötu 21. Útför Sigurðar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju 13. september 2010 og hefst athöfnin kl 14. Jarðsett verður á Kvíabekk.

Í dag fylgi ég tengdaföður mínum Sigurði Ringsted til hinstu hvílu.

Ég kom inn í þessa fjölskyldu 1967 svo árin eru orðin mörg og margs að minnast. Sigurður var giftur Sumarrós Sigurðardóttur og eignuðust þau átta börn saman auk þess sem Rósa átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi.

Sigurður var yngstur barna þeirra hjóna Ingimundar og Guðrúnar; börnin voru mörg og fátækt mikil. Nokkurra vikna gömlum var honum komið í fóstur til Guðlaugar á Kvíabekk er foreldrar hans fóru til að afla fjár í vinnu á Siglufirði. Þegar þau sneru aftur heim fór Guðlaug til þeirra með drenginn en örbirgðin var svo mikil að úr varð að Guðlaug fór aftur með hann heim í Kvíabekk. Þar ólst Sigurður upp við ástríki Guðlaugar og dætra hennar, Petru og Stínu, sem allar sáu vel um hann í uppvextinum. Sigurður var 23 ára gamall er hann fór frá Kvíabekk og leit alltaf á þann stað sem heimili sitt.

Sigurður var á margan hátt óvenjulegur maður, dagfarsprúður og  yfirlætislaus; við hann var gott að lynda og hann hafði mikla útgeislun og hlýju að gefa.  Það var alltaf laust hné þó barnabörnin væru mörg enda  sóttu þau mikið í hann.

Sigurður var krati af lífi og sál og fjórða hvert ár sá maður hann skipta mjög skapi og það var fyrir kosningar. Fór hann þá oft hamförum og mætti Jón Baldvin þakka fyrir ef hann hefði  verið eins mikill krati og Sigurður var. Sigurður var mikill framfarasinni og í litlum bæ eins og Ólafsfirði, þar sem Lágheiði var aðeins opin 3 og í mesta lagi 4 mánuði á ári, var einangrun mikil. Sem dæmi um elju Sigurðar má nefna að í júní árið 1934 neitaði Vegagerðin að opna Lágheiði; þá tók hann sig til ásamt fleiri karlmönnum og með viljann að vopni handmokuðu þeir heiðina  á 7 dögum. Er mér til efs að nokkrum dytti þetta til hugar nú á dögum. Sigurður hóf malarvinnslu heima í Ólafsfirði við erfiðar aðstæður og peningaleysi. Hélt hann uppi ferðum á rútu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar á sumrin ásamt því að gera út vörubíl sem mörgum þótti ógerningur á Þeim tíma. En Sigurður átti sér annan stóran draum og það var vegur fyrir Ólafsfjarðarmúla er margir töldu fráleita hugmynd. Fyrir henni barðist hann með kjafti og klóm og gafst aldrei upp fyrr en því verki var lokið. Aðdragandinn var langur og verkið mjög erfitt. Múlavegurinn var ótrúleg samgöngubót og rauf þá einangrun sem Ólafsfjörður var í.

Er þau hjón tóku að reskjast fluttu þau til Akureyrar,  Rósa þá komin með liðagigt á háu stigi og Sigurður farinn að missa mjög sjón en ég held að hann hafi aldrei verið sáttur við þann flutning, Ólafsfjörður átti svo sterk ítök í honum. Er Rósa lést fluttist Sigurður á dvalarheimilið Hornbrekku í Ólafsfirði.  Þar leið honum mjög vel enda naut hann umönnunar afbragðs starfsfólks.  Á tímabili dvöldu þau saman á Hornbrekku systkinin Sigurður, Sigga og Dóra, auk Petru uppeldissystur Sigurðar, sem allar eru nú látnar.

Sigurður lést 5. september eftir mikið og sárt dauðastríð við manninn með ljáinn er hafði betur enda ekki orðið af miklu að taka; hann var 98 ára og fór með reisn. Hann hafði ákveðið að láta jarðsetja sig á Kvíabekk og nú er hann kominn heim aftur. Guð veri með þér Siggi minn.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir
þá líður sem leiftur úr skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum.
(H.J.H.)

Börnum Sigurðar og barnabörnum votta ég samhug minn.

Elín H. Haraldsdóttir.