Hraðskreiður Múlajökull hefur skriðið fram um 386 metra á einu ári. Hann er í friðlandinu í Þjórsárverum.
Hraðskreiður Múlajökull hefur skriðið fram um 386 metra á einu ári. Hann er í friðlandinu í Þjórsárverum. — Ljósmynd/Ívar Örn Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Alþjóðlegt teymi jöklajarðfræðinga uppgötvaði nýverið einstakt náttúrufyrirbæri við Múlajökul. Um er að ræða svokallaðar jökulöldur sem geta gefið mikilvægar vísbendingar um hegðun jökla á jökulskeiði ísaldar.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Alþjóðlegt teymi jöklajarðfræðinga uppgötvaði nýverið einstakt náttúrufyrirbæri við Múlajökul. Um er að ræða svokallaðar jökulöldur sem geta gefið mikilvægar vísbendingar um hegðun jökla á jökulskeiði ísaldar. Grein um rannsóknina birtist í nýjasta tölublaði hins virta jarðvísindatímarits Geology.

Ívar Örn Benediktsson, doktor í ísaldar- og jöklajarðfræði við Háskóla Íslands, er einn vísindamannanna í hópnum. Að sögn Ívars er um að ræða stærstu einstöku þyrpingu jökulalda sem fundist hefur, eða um 50 talsins. „Jökulöldur finnast víða hér á landi, til dæmis við Sólheimajökul og Breiðamerkurjökul, og þær eru ýmist stakar eða í smáum þyrpingum,“ segir Ívar.

Myndun jökulalda umdeild

Jökulöldur eru egglaga landform. Myndun þeirra er umdeild innan jöklajarðfræðinnar. „Kenningin sem flestir aðhyllast er að jökullinn mæti fyrirstöðu í undirlagi, sem tefur flæði jökulsins. Við það skilur jökullinn eftir hluta af því seti sem hann ber með sér, en hann heldur áfram að skríða yfir svæðið og þannig verður form jökulöldunnar til.“

Jökulöldur hafa verið mikið rannsakaðar. Ívar segir að vísindamenn séu síður en svo sammála um tilurð þeirra. „Ég aðhyllist ekki eina einstaka kenningu. Rannsóknir hafa sýnt að ekki myndast allar jökulöldur á sama hátt. Flestir telja þó að jökullinn formi ölduna, en menn greinir á um hver fyrirstaða jökulsins getur verið.“ Ívar segir eina af fyrri rannsóknum teymisins hafa leitt í ljós að fyrirstaðan var leifar af jökulís. Aðrar rannsóknir hafi gefið til kynna að fyrirstaðan sé jökulárset.

Ívar segir jökulöldurnar gefa mikilvægar upplýsingar um sögu einstakra jökla. Hvað Múlajökul varðar hefur rannsóknin sýnt hvaða ferli átti sér stað þegar jökullinn hleypur fram. „Í rannsókninni okkar er þyrpingum jökulalda lýst í fyrsta skipti við jökla sem eru á jörðinni í dag. Þetta er einstakur fundur og gerir okkur kleift að læra meira um ísbreiðurnar sem lágu yfir Skandinavíu, Bretlandseyjum og N-Ameríku, þar sem álíka þyrpingar hafa fundist.“

Hljóp 363 metra á ári
» Múlajökull er kenndur við Arnarfellsmúla, hann gengur niður af Hofsjökli og breiðir úr sér í Þjórsárverum.
» Jökullinn hefur verið mældur reglulega frá árinu 1932, mest hljóp hann árið 1973, eða um 363 metra á einu ári.
» Rannsóknin var styrkt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Landsvirkjun og Carlsberg-sjóðnum í Danmörku.