Í grúski mínu hef ég rekist á margar skemmtilegar auglýsingar. Ein hin eftirminnilegasta birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 1915 undir fyrirsögninni „Stjörnuhrap“.

Í grúski mínu hef ég rekist á margar skemmtilegar auglýsingar. Ein hin eftirminnilegasta birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 1915 undir fyrirsögninni „Stjörnuhrap“. Hún var um það, að Íslendingurinn Björnstjerne Björnsson hefði skipt um nafn og héti eftir þetta Björn Björnsson. Sá, sem skírður hafði verið eftir norska skáldinu, var kennari í Reykjavík og var uppi 1886-1939.

Sennilega var snjallasti auglýsingamaður Íslands Eiríkur rauði, sem fann Grænland seint á tíundu öld og skírði, „því að hann kvað menn það mjög mundu fýsa þangað, ef landið héti vel“. Raunar kann Grænland þá frekar að hafa staðið undir nafni en oft síðar, því að um þær mundir var hlýindaskeið á norðurhveli jarðar. Því má raunar bæta við, að Grænland liggur sunnar, vestar, norðar og austar en Ísland, allt í senn.

Eina auglýsingu hef ég heyrt um, en hvergi rekist á. Hana á Ragnar í Smára að hafa sent frá sér, þegar hann gaf út ljóðabók eftir Tómas Guðmundsson: „Borgarskáld! Þjóðskáld! Heimsskáld!“ Þegar Tómas heyrði af auglýsingunni, á hann að hafa hraðað sér til Ragnars og beðið hann lengst allra orða að birta hana ekki aftur. Ef einhver lesandi veit meira um þessa auglýsingu, þá væri gaman að heyra um það.

Önnur fræg auglýsing var samin, en ekki birt. Tildrög voru þau, að í ágúst 1968 réðst Rauði herinn rússneski inn í Tékkóslóvakíu. Ólafur Þ. Jónsson – sem kunnari er undir nafninu „Óli kommi“ – var þá auglýsingastjóri Þjóðviljans. Fátt var um auglýsingar í blaðinu dagana eftir innrás. Jón hringdi þá í Eirík Ketilsson heildsala, sem hafði umboð fyrir rússneska riffla. Kom þeim saman um, að Eiríkur setti svohljóðandi auglýsingu í Þjóðviljann: „Rússneskir rifflar og haglabyssur. Bregðast aldrei, þegar á reynir.“ En ráðamenn blaðsins komu í veg fyrir birtinguna.

  • Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar.

    Hannes H. Gissurarson

    hannesgi@mbl.is