Friðrik Helgi Jónsson fæddist á Siglufirði 13. nóvember 1951. Hann lést að heimili sínu í Reykjavík 12. desember 2010. Hann var sonur hjónanna Steinunnar Friðriksdóttur, f. 10. janúar 1934, og Jóns Árnasonar, f. 28. september 1932, d. 1. apríl 2007. Systkini Friðriks eru Elín Guðrún Jónsdóttir, f. 22. mars 1953; Árni Frímann Jónsson, f. 6. ágúst 1955; Ástríður Sigurrós Jónsdóttir, f. 23. mars 1961, og Jón Steinar Jónsson, f. 14. október 1963. Friðrik kvæntist konu sinni Guðnýju Ágústu Steinsdóttur 14. september 1974. Guðný fæddist 18. ágúst 1954 í Reykjavík, foreldrar hennar eru Steinn Guðmundsson, f. 15. maí 1933, og Guðbjörg Soffía Petersen, f. 20. júlí 1933. Friðrik og Guðný eignuðust saman tvö börn þau Hildi, f. 11. júlí 1985, og Stein, f. 23. mars 1988. Fyrstu fjögur ár ævi sinnar bjó Friðrik hjá ömmu sinni og afa á Siglufirði, en eftir það ólst hann upp hjá foreldrum sínum í Hafnarfirði. Friðrik lauk kennaraprófi og stúdentsprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1973, BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1976, meistaraprófi í félagssálfræði frá London School of Economics 1977 og doktorsprófi frá Háskólanum í Sheffield 1986. Hann vann næstum allan sinn feril í Háskóla Íslands, varð stundakennari í félagsvísindadeild árið 1983 og lektor í sálfræði árið 1989. Hann varð dósent í sömu grein 1992 og prófessor árið 2007. Aðalkennslugrein Friðriks var félagssálfræði en á ferli sínum sinnti hann kennslu miklu víðar, bæði innan sálfræðinnar og utan. Hann var vinsæll kennari og farsæll stjórnandi, gat sér góðan orðstír á sínu sviði og var eftirsóttur til margvíslegra starfa. Hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar 1999-2009. Hann sat einnig í stjórnum stofnana skólans, var varafulltrúi í háskólaráði og tók þátt í margs konar nefndarstörfum fyrir Háskóla Íslands. Hann var forstöðumaður Rannsóknastofnunar uppeldismála 1986-1987 og formaður skólanefndar Menntaskólans við Hamrahlíð um skeið. Einnig gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir menntamálaráðuneytið. Friðrik var ötull rannsóknamaður í sálfræði í nær þrjá áratugi. Hann var aðalhvatamaður og stjórnandi ráðstefnuhalds um rannsóknir í félagsvísindum, sem nú kallast Þjóðarspegill, fyrst 1994 og fram til ársins 2008. Friðrik lék knattspyrnu með yngri flokkum og var markvörður meistaraflokks FH. Síðar tók hann að sér þjálfun, einkum markvarða. Útför Friðriks fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 16.

Við fráfall lærimeistara í vísindum, fræðimanns, afburða kennara og góðs vinar koma ljóðlínur Hannesar Péturssonar upp í hugann.

Eitthvað er það
sem engin hugsun rúmar
en drýpur þér á augu
sem dögg þegar húmar.

Ég tók fyrst eftir Friðriki Helga Jónssyni, eða öllu heldur Frikka, eins og við félagarnir í fótboltanum vorum vanir að kalla hann, á Hringbrautarvellinum í Hafnarfirði, þá tæplega 10 ára gamall. Þar lék hann með hverfafélaginu Spörtu þegar strákar öttu kappi í knattspyrnu milli hverfa í Hafnarfirði.

Ég horfði upp til þessara stráka sem voru aðeins eldri og reyndi að líkja eftir tilburðum þeirra og færni. Seinna fékk ég tækifæri að vera í liði þeirra, á uppgangstíma FH í knattspyrnu á áttunda áratug síðustu aldar. Friðrik lék annað hlutverk en flestir aðrir í liðinu, hann varði markið og var útsjónarsamur í öllum aðgerðum. Hann reyndist liðinu ákveðin kjölfesta, bæði utan sem innan vallar. Þessari kjölfestu hélt hann lífið á enda, sem eiginmaður og foreldri, einstakur fræðimaður og kennari við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, en ekki síst sem traustur félagi og vinur með einstaka nærveru.

Við kennslu, rannsóknir og vísindastörf naut hann sín. Sjálfur á ég Friðriki mikið að þakka, ekki aðeins fyrir að hafa varið markið á sínum tíma heldur einnig fyrir aðstoð í framhaldsnámi, yfirlestur lokaverkefna og vísindagreina. Á leiksviðinu í Odda var Friðrik á heimavelli líkt og Sæmundur fróði á Rangárvöllum forðum daga. Hann var einnig á heimavelli á Hvaleyrarholtsvelli og síðar í Kaplakrika en fram á síðasta dag fylgdist hann vel með gangi mála í knattspyrnunni. FH var hans lið. Það er ekki svo langt síðan að hann hjólaði úr vesturbæ Reykjavíkur í Krikann til að fylgjast með deildarleik sinna manna. Hvílík elja og dugnaður.

Friðrik var einstaklega vel gefinn og greindur á vísindi og fræði og þekktur fyrir hnyttin tilsvör. Hann var oft ekkert að skafa af hlutunum, talaði umbúðalaust. Hann lá ekki heldur á skoðunum sínum, margar þeirra útpældar með sterkan svip vísindalegra aðferða, enda gat hann oft verið mjög rökfastur. Það var því ekki síður skemmtun í búningsklefanum í Krikanum en á leikvellinum sjálfum. Oft velti maður fyrir sér hvort þarna væri samansafn skemmtikrafta eða knattspyrnumanna. Það var barist um brandara og hnyttin tilsvör eins og um stöðu í liðinu. Sagan segir að sama skemmtun hafi átt sér stað á fyrirlestrum hans í Odda, þó af allt öðrum toga. Þar miðlaði hann af þekkingu sinni af stakri frásagnarlist, byggða á traustum grunni vísinda, reynslu námsáranna og vel ígrundaðri heimavinnu.

Það var ávallt styrkur að leita til Friðriks. Hann hafði góða yfirsýn yfir fræðasvið vísinda, var glöggur að setja sig inn í efnið og færa til betri vegar. Hann er höfundur fjölda fræðigreina og rita. Gagnfræðakverið handa háskólanemum er eitt þessara rita. Þar leggur hann ásamt félaga sínum, Sigurði J. Grétarssyni, ákveðinn grunn að akademískri kjölfestu háskólastúdenta. Á skýran en einfaldan hátt er grundvallarsjónarmiðum komið til skila sem styrkir stoðir  háskólasamfélagsins. Hlutverk hans var að veita fjöldanum leiðsögn og skapa trausta undirstöðu. Því verður hans sárt saknað.

Friðrik átti einstakan förunaut, Guðnýju Steinsdóttur, sem nú sér á eftir manni sínum langt um aldur fram. Samrýmdari hjón var varla hægt að hugsa sér, enda var alltaf jafn notalegt að sækja þau heim, hvort sem það var á fyrstu búskaparárum á Mánagötunni þar sem allt nýjasta poppið var leikið eftir góða sigra í fótboltanum, í Sheffield þar sem hann lauk doktorsnámi eða á Meistaravöllunum í vesturbæ Reykjavíkur. Við Sigrún sendum Guðnýju, börnum þeirra, Hildi og Steini ásamt unnustu hans og ættingjum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi minning um einstakan félaga lifa.

Janus Guðlaugsson.