Jólin hafa orðið skáldum yrkisefni síðan land byggðist og er sá skáldskapur af öllum toga og ber aldarhættinum vitni. Ingunn Jónsdóttir í Kornsá segir í Gömlum kynnum að engar sögur hafi jafnmikil áhrif á börnin og einfaldar og fagrar frásögur um jólaboðskapinn í Betlehem, þegar góð móðir segir frá. Og bætir síðan við: Það munu fleiri hafa orðið fyrir líkum áhrifum frá mæðrum sínum og Matthías lýsir svo snilldarlega:
Síðan hóf hún heilög sagnamál.
Himnesk birta skein í okkar sál.
Aldrei skyn né skilningskraftur minn
skildi betur jólaboðskapinn.
Um Þorgrím Pétursson Nesi veit ég ekkert nema það, að hann orti þessa stöku:
Jafnánægður étið get
ég í nautnaskóla
harðan fisk sem hangiket
á hátíðinni jóla.
Á jólamorgni orti Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli:
Kastið drunga, kætist þið,
hvergi er þungur hagur,
fjallabungum blasir við
bjartur ungur dagur.
Jón Jónsson alþingismaður frá Sleðbrjót kom víða við, var síðast veitingamaður í Vopnafirði áður en hann fluttist vestur um haf 1903, síðast í Siglunesbyggð við Manitobavatn til æviloka 1923. Til hans orti Stephan G. Stephansson:
Jólaeldur innri þinn
út yfir kveld þitt logi!
Skuggaveldin aldrei inn
að þér heldur vogi.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is