Börnum mun örugglega þykja bókin spennandi, persónur eru lifandi og litríkar og hinn ungi lesandi vill umfram allt að Dórótea komist heim.

Of lítið er um að klassískar barnabækur séu þýddar á íslensku, sem er mikil synd því börn eiga skilið það allra besta. En einstaka sinnum koma á markað klassískar bækur sem eiga skilyrðislaust að rata í bókaskápa bókelskra barna. Og reyndar fullorðinna líka. Á dögunum varð fullorðinn vinnufélagi barnslega hrifinn þegar hann uppgötvaði að bókin Dísa ljósálfur var í jólapakka sem hann fékk. Hún fór í hans bókaskáp.

Gömul og góð barnasaga er meðal þess sem finna má í jólabókaflóði ársins. Sagan um Galdrakarlinn í Oz er flestum kunn, þótt fæstir hafi lesið bókina. Þessi klassíska saga kemur út í íslenskri þýðingu Elínborgar Stefánsdóttur, prýdd skemmtilegum myndum. Þarna er á ferð sérlega skemmtileg og vel sögð saga. Börnum mun örugglega þykja bókin spennandi, persónur eru lifandi og litríkar og hinn ungi lesandi vill umfram allt að Dórótea komist heim. Því eins og Dórótea segir sjálf: „Það skiptir engu hversu ömurlegt og grátt heimaland manns er, við sem erum fólk af holdi og blóði viljum heldur búa þar en í nokkru öðru landi, hversu fallegt sem það er: Heima er best.“

Það má vissulega deila um þessa heimspeki Dóróteu, en þetta er samt alveg ágætlega orðað hjá henni.

Bókaforlagið Edda, sem gefur út Galdrakarlinn í Oz , er að hluta til hannað í kringum Disney-verksmiðjuna. Þaðan kemur einn helsti bókasmellur ársins, matreiðslubókin Stóra Disney-matreiðslubókin . Velgengnin er sennilega ekkert einkennileg því Andrés önd, Guffi, Jóakim, Mikki mús, Andrésína og Hexía eru auðvitað sterkir karakterar sem hljóta að heilla flesta krakka. Og það sem maður heillast af sem barn fylgir manni lengi. Þannig að það eru sennilega ekki bara börn sem finnst spennandi að búa til Guffa-lasagna og kjötbollur Mikka.

Andúð ákveðins hóps á draumaverksmiðju Walts Disneys hefur alltaf verið einkennileg og einkennist af þröngsýni og ofsa. Disney-teiknimyndirnar eru ótalmargar mikil listaverk og sköpun Mikka og félaga var auðvitað dásamleg gleðigjöf, eins og áratuga vinsældir sýna. Þegar menn lesa grimma og hættulega hugmyndafræði út úr þessari sköpun eru þeir komnir á hálan ís. Stundum á maður bara að slappa af og gleðjast.