Uppáklædd Cameron Diaz.
Uppáklædd Cameron Diaz.
Jólamyndir koma fólki í jólaskap og ekki er verra ef hefð fylgir þeim líkt og öðru um jólin. Núorðið eru það þrjár myndir sem ljósvaka finnst ómissandi að horfa á fyrir jólin.

Jólamyndir koma fólki í jólaskap og ekki er verra ef hefð fylgir þeim líkt og öðru um jólin. Núorðið eru það þrjár myndir sem ljósvaka finnst ómissandi að horfa á fyrir jólin. Aðalmyndin í þeim flokki er hin sígilda National Lampoon's Christmas Vacation (1989). Alveg hreint stórkostleg mynd um jólaundirbúning og vandræðagang Griswold-fjölskyldunnar. Ógleymanlegu atriðin eru mörg eins og kalkúnninn sem springur, jólaseríufarganið og risavaxna jólatréð.

Þetta er grínmynd en hinar tvær ómissandi myndirnar eru í rómantískari kantinum, Love Actually (2003) og The Holiday (2006). Báðar þessari myndir eiga það sammerkt að skarta miklum stjörnuleikurum. Sú fyrri er bresk með leikurum á borð við Colin Firth, Keiru Knightly, Emmu Thompson og Hugh Grant. Sú síðari er reyndar með tveimur breskum leikurum í aðalhlutverki, Kate Winslet og Jude Law, en líka hinum geðþekku Bandaríkjamönnum Jack Black og Cameron Diaz. Umfram allt eru þessar myndir fullar af ást og hlýju, ljúfsárum stundum og leitandi fólki sem finnur auðvitað á endanum hina sönnu jólagleði í hjarta sínu.

Gleðileg jól!

Inga Rún Sigurðardóttir