Ragnhildur Bragadóttir fæddist á Akureyri 1. febrúar 1944. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 7. október 2010.

Ragnhildur var jarðsungin frá Neskirkju 13. október 2010.

13. október var kær vinkona, Ragnhildur Bragadóttir, borin til grafar. Ég fór í öldungadeild VMA 1994 á haustönn 1995. Á vorönn kynntist ég Ragnhildi. Af óviðráðanlegum orsökum settist hún við hlið mér í tíma og við lentum í að skila saman verkefni. Þetta leist mér ekki á, að lenda með einhverjum sem ég þekkti ekki neitt. Jæja, ég læt mig hafa það. Síðan unnum við okkar verkefni og gekk vel. Eftir þetta urðum við óaðskiljanlegar í öllu sem viðkom náminu. Sátum saman á kvöldin, lærðum og ræddum um allt milli himins og jarðar.

Ragnhildur var mjög dul og tók ekki hverjum sem var en einhverra hluta vegna náðum við vel saman. Árið 1990 útskrifuðumst við sem stúdentar frá VMA og stuttu seinna flutti hún til Reykjavíkur. Ég fór til hennar í hvert skipti sem ég fór til Reykjavíkur. Margs var að minnast og margt að spjalla þegar við hittumst. Raghildur hafði átt við veikindi að stríða eftir að hún flutti suður, en það varð ekki til að skyggja á vináttu okkar. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að geta hitt hana á Borgarspítalanum stuttu áður en yfir lauk og verð ævarandi þakklát Helgu fyrir að láta mig vita hversu veik hún var.

Elsku Ragnhildur, ég vona að þú hafir það gott þar sem þú ert og seinna eigum við eftir að hlæja saman og rifja upp gömul kynni. Hittumst seinna hressar og kátar. Vertu sæl vinkona og líði þér sem best þar til ég sé þig næst. Mottóið þitt, „Aldrei fór ég suður“, þetta skiljum bara við tvær.

Elsku Helga, Baldur og fjölskyldur, innilegustu samúðarkveðjur. Guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Sigurhanna Ólafsdóttir.