[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haraldur Franklín Magnús , kylfingur úr GR, hafnaði í sjöunda sæti á sterku unglingamóti á Flórída, US Junior Masters, sem lauk á TPC Sawgrass-vellinum í fyrrakvöld.

H araldur Franklín Magnús , kylfingur úr GR, hafnaði í sjöunda sæti á sterku unglingamóti á Flórída, US Junior Masters, sem lauk á TPC Sawgrass-vellinum í fyrrakvöld. Haraldur lék þriðja og síðasta hringinn á 80 höggum en fyrri tvo á 72 og 79 höggum, og endaði á 15 höggum yfir pari. Hann var samt aðeins sjö höggum frá öðru sætinu.

Berglind Björnsdóttir var eini íslenski keppandinn í stúlknaflokki á mótinu í Flórída en hún hafnaði í 21. sæti af 27 þátttakendum á 39 höggum yfir pari. Fjórir aðrir Íslendingar tóku þátt í piltaflokki á mótinu. Andri Þór Björnsson úr GR varð í 24. sæti á 22 höggum yfir pari, Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR varð í 26. sæti á 23 höggum yfir pari, Theodór Emil Karlsson úr Kili varð í 52. sæti á 41 höggi yfir pari og Helgi Ingimundarson úr GR varð í 55. sæti af 57 keppendum á 56 höggum yfir pari vallarins.

H elena Sverrisdóttir skoraði 14 stig á þeim 40 mínútum sem hún spilaði með TCU þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Georgia, 57:60, í bandarísku háskóladeildinni í körfuknattleik í fyrrinótt. Þar með lauk langri sigurhrinu TCU á heimavelli en fyrir leikinn á móti Georgia hafði liðið unnið 27 heimaleiki í röð.

Gylfi Sigurðsson og félagar hans í Hoffenheim mæta 2. deildar liði Energie Cottbus á útivelli í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Energie Cottbus gerði sér lítið fyrir og sló 1. deildar lið Wolfsburg út í sextán liða úrslitunum með 3:1-sigri á útivelli. Alemannia Aachen fær Bayern München í heimsókn, Schalke mætir Kickers Offenbach eða Nürnberg og Duisburg mætir Koblenz eða Kaiserslautern.

Jólin komu snemma hjá sænska handboltamanninum Jonathan Stenbäcken . Kappinn gerði sér lítið fyrir og skoraði 20 mörk fyrir Sävehof þegar liðið sigraði Lindesberg, 42:32, í sænsku úrvalsdeildinni í fyrrakvöld. Fyrsta skotið geigaði hjá Stenbäcken en eftir það héldu honum engin bönd og áður en yfir lauk hafði hann skorað 20 mörk, þar af fjögur af vítalínunni. Þar með setti Stenbäcken nýtt markamet en það gamla var í eigu Danans Kim Keller sem skoraði 19 mörk í leik með Stavsten í desember 1995.

Ítalíu- og Evrópumeistarar Inter staðfestu í gær að Spánverjinn Rafael Benítez hefði látið af störfum sem þjálfari liðsins. Uppsögn Benítez hafði legið í loftinu síðustu daga en félagið staðfesti loksins að Benítez væri hættur. Aðeins rétt rúmir sex mánuðir eru síðan hann var ráðinn til Inter og tók við starfi Josés Mourinhos en Benítez yfirgaf Liverpool í sumar eftir sex ára starf sem knattspyrnustjóri þar. Gengi Inter í A-deildinni hefur ekki verið gott og þrátt fyrir að Benítez stýrði Inter til sigurs í heimsbikarnum og liðið sé komið í 16-liða úrslit í Meistaradeildinni var það ekki nóg fyrir Massimo Moratti , forseta félagsins.