Bætt aðstaða Fjölmenni var við athöfn í nýja fjölnota íþróttahúsinu.
Bætt aðstaða Fjölmenni var við athöfn í nýja fjölnota íþróttahúsinu. — Morgunblaðið/Ómar Garðarsson
Ómar Garðarsson omar@eyjafrettir.is Nýtt fjölnota íþróttahús við Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum var formlega tekið í notkun sl. laugardag. Heildarkostnaður við byggingu hússins er um 400 milljónir kr.
Ómar Garðarsson

omar@eyjafrettir.is

Nýtt fjölnota íþróttahús við Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum var formlega tekið í notkun sl. laugardag. Heildarkostnaður við byggingu hússins er um 400 milljónir kr.

Í nýja íþróttahúsinu er 50 sinnum 60 metra knattspyrnuvöllur með nýjasta og fullkomnasta gervigrasi sem völ er á, 60 metra hlaupabrautir, aðstaða til hástökks, langstökks, stangarstökks og kastgreina nema spjótkasts. Allt tartanbrautir.

Vantaði aðstöðu fyrir frjálsar

Aðstaða til íþróttaiðkunar hefur verið mjög góð í Vestmannaeyjum, þrír löglegir handboltavellir, fjórir grasvellir í fullri stærð, 18 holu golfvöllur og 25 metra innilaug með glæsilegu útisvæði. En frjálsar íþróttir hafa búið við heldur bág skilyrði og knattspyrnu hefur vantað aðstöðu til æfinga yfir veturinn.

Fjölmenni var við vígsluna. Elliði Vignisson bæjarstjóri, sagði að með byggingu hússins væri stigið stórt skref fram á við fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Líka hugsa kylfingar sér gott til glóðarinnar.

Það kom í hlut Hallgríms Júlíussonar og Sigríðar Garðarsdóttur, íþróttamanna æskunnar í Vestmannaeyjum, að klippa á borðann.