Sigurður Elli Guðnason fv. flugstjóri fæddist í Vestmannaeyjum 12. maí 1943. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. desember 2010. Foreldrar hans voru Guðni Hjörtur Árnason húsasmíðameistari, f. 14. ágúst 1920, d. 3. október 1965, og Erla Unnur Ólafsdóttir húsfreyja, f. 22. nóvember 1922, d. 9. júní 1991. Systkini Sigurðar Ella eru Arndís Guðnadóttir sjúkraliði og Ólafur Guðnason sjómaður. Sigurður Elli kvæntist Jóhönnu Bærings Halldórsdóttur, þau skildu. Þeirra dætur eru: a) Erla Unnur Sigurðardóttir, f. 13. ágúst 1966, í sambúð með Guðmundi U.D. Hjálmarssyni, f. 15. febrúar 1954. Þeirra börn eru: Uni Dalmann Guðmundsson, f. 27. apríl 2001, og Sólrún Silfá Guðmundsdóttir, f. 2. maí 2002. b) Anna Jóhanna Sigurðardóttir, f. 16. febrúar 1971. Hennar dóttir er Nana Daðey Haraldsdóttir, f. 4. febrúar 1998. Eftirlifandi eiginkona Sigurðar Ella er Guðmunda Kristinsdóttir myndlistakona, f. 16. október 1948. Hennar sonur er Karl Barkarson, f. 20. júní 1968. Sigurður Elli og Guðmunda giftust 1. febrúar 1997 eftir margra ára sambúð. Heimili þeirra hefur lengst af verið á Víghólastíg 22 í Kópavogi þar sem þau bjuggu í samvistum við hundana sína. Fyrstu æviár sín ólst Sigurður Elli upp í Vestmannaeyjum en fluttist síðan með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Hann tók sveinspróf í vélvirkjun hjá Vélsmiðjunni Héðni í maí 1964. Sigurður Elli stundaði ýmis störf til sjós og lands til að vinna fyrir flugmannsnámi sem hann lauk árið 1965. Hann hóf störf hjá Flugfélagi Íslands árið 1967 og síðan hjá Flugleiðum þar sem hann starfaði út sína starfsævi. Áhugi hans á starfinu var alla tíð mikill. Mesta ánægju hafði hann af Grænlandsfluginu, skíðaflugi á DC –3 og einnig innanlandsflugi, ekki síst vegna mikils áhuga á landinu, íslenskri náttúru og mannlegum samskiptum á flugstöðvum víðsvegar um landið. Sigurður Elli var mjög músíkalskur og spilaði á klarinett í Lúðrasveit Verkalýðsins á yngri árum. Hann hafði mikið dálæti á Jazz og Blues. Sigurður Elli var mikill útivistarmaður og náttúruunnandi, stundaði lax- og silungsveiði auk veiða á trillu sem hann átti árum saman. Veiddi einnig bæði rjúpu og gæs. Útför Sigurðar Ella fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 14. janúar 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Með fáum fátæklegum orðum vil ég minnast vinar míns í gegnum tíðina, hans Sigga Ella. Hugurinn leitar aftur til ársins 1962, en þá um haustið kom Siggi til vinnu og náms í eldsmiðjunni í Héðni, en ég var þar fyrir. Siggi hafði verið  hluta af námstímanum í annarri smiðju, sem sérhæfði sig í mun takmarkaðri smíði en Héðinn. Þetta átti ekki við Sigga, þar sem hann vildi ávallt kynna sér fullkomlega viðfangsefnin og hvað hægt væri að framkvæma með þeim tækjabúnaði, sem var til í einni fullkomnustu og framsæknustu smiðju landsins á þeim tíma, að öðrum smiðjum ólöstuðum.

Á þessum tíma var sáralítið um innflutning á vélbúnaði fyrir frystihúsin og síldarverksmiðjurnar.  Nánast allt var smíðað í Héðni og oft reyndi mjög á getu og fagmennsku starfsmanna.

Í eldsmiðjunni hófst kunningsskapur og vinátta okkar Sigga, sem varað hefur æ síðan. Um miðjan febrúar 1963 var ég sendur við annan mann til Patreksfjarðar til að færa til vélar og undirbúa komu vélbúnaðar í nýja síldarverksmiðju sem setja átti upp í húsnæði þeirrar gömlu á Vatneyrinni. Um mánuði seinna kom svo stór hluti vélbúnaðarins með strandferðaskipi og  þriggja manna vinnuflokkur frá Héðni með og mér til mikillar ánægju var Siggi einn þeirra.

Við deildum sama herbergi næstu átta mánuðina.

Vinnutími okkar var langur, yfirleitt frá kl. 7.30 að morgni til kl. 10.30 að kveldi, sama gilti um helgar.

Það var okkur mikið áfall þegar eigandi verksmiðjunnar Þorbjörn Áskelsson fórst í hörmulegu flugslysi við Osló, en fljótlega var ákveðið að halda áfram við framkvæmdirnar með umsjón Njáls sonar Þorbjarnar heitins.

Þjóðhátíðardaginn 17. júní var í raun fyrsti frídagurinn, sem við tókum um mánaðarskeið og eftir að hafa fylgst með hátíðarhöldum íbúanna ákváðum við um kvöldverðarleytið að láta nokkuð langþráðan draum rætast: að klifra upp í klettabeltið í fjallinu ofan bæjarins. Hreint undurfögur sýn blasti við okkur, þegar upp var komið, sjórinn spegilsléttur, sólin rétt ofan við hafflötinn við enda fjarðarins og fjöllin sem gulli slegin, fegurðin var ólýsanleg og fyllti okkur lotningu.  Oft höfum við minnst þessa þegar við höfum hist. Við vorum ungir og hraustir og allt lífið framundan.

Eftir sveinspróf árið eftir skildust leiðir, en við hittumst samt af og til, stundum á verkstæði Guðmundar heitins Bjarnasonar frænda míns. Siggi var þá gjarnan þar að dytta að Rússajeppanum sínum, sem var ávallt eins og nýr í hans höndum. Siggi fór að læra flug, en ég gerðist slökkviliðsmaður í Reykjavík, fréttum hvor af öðrum af og til. Vegna starfs míns hjá Brunamálastofnun þurfti ég oft að fljúga innanlands og erlendis. Siggi var orðinn flugstjóri á Fokker og bauð mér ávallt fram í flugstjórnarklefann, ef hann vissi af mér innanborðs. Hann var óþreytandi að útskýra fyrir mér mæla, takka og leiðsögubúnað vélarinnar. Ég er sannfærður um að hann vissi hvað voru mörg hnoð í skrokki Fokkersins.

Sitjum saman á hóteli og veitingahúsi Kalla og Ingu í Grevenmacher í Lúxemborg. Siggi var þá að þjálfa flugmenn á Fokker. Það gera engir aukvisar. Siggi orðinn flugstjóri í millilandafluginu, hefur samband við mig og segist hafa verið að kaupa notaðan húsbíl frá Þýskalandi fullan af alls kyns búnaði, en leiðbeiningabók á þýsku, sem hann hafði grun um að ég kynni eitthvað í. Saman þrælumst við í gegnum leiðbeiningarnar með þokkalegum árangri.

Fréttir af alvarlegum heilsubresti hjá Sigga alltof ungum.

Björn sonur okkar og hans fjölskylda kaupa Víghólastíg 20, næsta hús við Sigga, sem gjarnan situr á góðviðrisdögum á palli við útidyrnar farinn að heilsu, en vel málhress. Við höfum margs að minnast frá yngri árum og oft verða samtölin nokkuð löng. Góð vinátta skapast milli fjölskyldnanna á Víghólastíg 20 og 22.

Heilsu Sigga hrakar og baráttunni lýkur milli jóla og nýárs.

Ég vona að samskonar sýn og birtist okkur forðum á fjallinu við Patreksfjörð hafi mætt honum handan við móðuna miklu.

Minningin um góðan dreng lifir.

Við Gerður, Björn og Kristín vottum aðstandendum Sigga okkar dýpstu samúð.

Guðmundur P. Bergsson.