Sigurbjörg Eiríksdóttir fæddist 16. september 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu á Hornafirði 29. mars 2011. Foreldrar Sigurbjargar voru Steinunn Sigurðardóttir, f. 1884, og Eiríkur Sigurðsson, f. 1879. Þau bjuggu á Miðskeri í Nesjum. Eiríkur lést 1937, þegar Sigurbjörg var 14 ára, en Steinunn lést 1975. Sigurbjörg átti fjóra bræður. Eldri voru Benedikt, f. 1914, d. 2002, og Sigurður, f. 1918, d. 2006. Yngri voru Rafn, f. 1924, d. 2002, og Hreinn, f. 1931, hann er einn á lífi af þeim systkinum sem öll áttu heima í Nesjum mestan hluta ævinnar. Eiginmaður Sigurbjargar var Sigfinnur Pálsson, f. 1916, d.1989. Þau bjuggu í Stórulág í Nesjum, þar sem þau ráku mikið myndarbú sem varð með tímanum vel þekkt fyrir einstaka gæðinga sem náðu til sín mörgum verðlaunum. Sigurbjörg og Sigfinnur eignuðust fjóra syni. Þeir eru Eiríkur, f. 1942, sambýliskona hans var Guðrún Ragna Sveinsdóttir, sem nú er látin, Valþór, f. 1947, d. 2007, Sigurður, f. 1953, eiginkona hans er Jóhanna Gísladóttir og búa þau í Stórulág, börn þeirra eru þrjú Árni Már, sambýliskona hans er Tinna Rut Sigurðardóttir. Yngri eru Smári Þór og Hulda Björg. Yngsti sonur Sigurbjargar og Sigfinns er Páll, f. 1958. Eiginkona hans var Vigdís Ellertsdóttir, þau eignuðust þrjú börn. Elsti sonur þeirra, Sigfinnur, lést á síðasta ári, aðeins 15 ára gamall, yngri börn þeirra eru Vignir Páll og Elín. Útför Sigurbjargar fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 9. apríl 2011, og hefst athöfnin kl. 12.

Nú þegar kemur að kveðjustund og leiðir skilja um sinn rifjast upp margar minningar tengdar henni Sigurbjörgu frænku minni. Aðallega eru þær þó frá mínum yngri árum þegar ég átti því láni að fagna að fá að dvelja hjá þeim hjónum henni og Sigfinni. Að fá að fara inní í Stórulág og vera þar um lengri eða skemmri tíma var eitthvað sem snáðinn frá Sunnuhvoli naut til hins ýtrasta enda af nógu af taka á þeim bænum.

Í Stórulág fékk maður hin ýmsu fullorðinna manna hlutverk til að glíma við. Það var ekki lítil upplifun fyrir lítinn mann að fá að keyra traktor, þeysast um á hestbaki, vinna við heyskap, sá og taka upp kartöflur, veiða ál og silung auk þess að dytta að girðingum svo eitthvað sé nefnt. Frístundir sem buðust voru svo notaðar til að skjótast á skauta, iðka glímu eða önnur slagsmál, æfa kúluvarp auk þess sem brekkan við bæinn, sem var okkar Alpar í þá daga, var óspart notuð til skíðaiðkana og sleðaferða. Nóg var að snúast og alltaf fékk maður að vera þátttakandi í þeim verkum sem fyrir lágu.

Nú um stundir er oft talað um ofurkonuna. En hver skyldi hún vera þessi ofurkona?

Í minningunni þá var hún Sigurbjörg frænka mín ofurkonan. Þessi smávaxna en þó sterkbyggða, hnellna, hressa og hláturmilda kona virtist geta allt. Hún var alltaf að og gekk í öll þau verk sem þurfti að vinna en virtist þó alltaf geta gefið sér tíma til allra skapaðra hluta.

Þegar við snáðarnir risum úr rekkju á morgnana var hún oftast löngu vöknuð og tekin til við að sinna hinum ýmsus úti og inniverkum og mér er það minnisstætt að oftar en ekki var það hennar síðasta verk á kvöldin að slökkva á ljósavélinni. Síðan heyrði maður hana hlaupa léttfætta upp stigann. Þá var komið kvöld og reyndar oft liðið á nótt í Stórulág og tími til að fara að sofa.

Á milli verka lét hún sig svo ekki muna um að bera fóður í mannskapinn því henni var umhugað um að við karlpeningurinn fengjum nóg að borða og það var alltaf gott að koma inn í matar- og kaffitímum í Stórulág. Þá gekk maður á ilminn af nýsteiktu lambalæri eða kleinum sem blandaðist saman við sterka lyktina af grúnóinu úr pípunni hans Sigfinns og þar varð til þessa sérstaka Stórlágarlykt sem ég fann hvergi annars staðar.

Þrátt fyrir mikið annríki og daglegt bras þá gaf hún sér hins vegar alltaf tíma til að setjast niður og spjalla við mann og segja sögur. Hún var mér ætíð hjálpsöm þann tíma þegar ég dvaldi hjá henni innfrá og kenndi mér ýmislegt sem hefur komið sér vel í seinni tíð. Hún og Valþór kenndu mér til dæmis ungum snáðanum að svindla í spilum og að þeirri kunnáttu bý ég að enn þann dag í dag. Mér er það líka minnisstætt og við rifjuðum það oft upp og hlógum að því í seinni tíð þegar ég bað hana um að hjálpa mér að vernda hann Gunnar bróður minn svo að Sigfinnur gerði hann ekki að sjálfstæðismanni.

En þó glensið og glaðværðin einkenndi hana frænku mína oftar en ekki þá hafði hún sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og var þá oft ómyrk í máli. Þá gat hún verið snögg upp á lagið og það gustaði af henni að hætti okkar Miðskersmanna.

Fyrir tæpum mánuði heimsótti ég Sigurbjörgu á hjúkrunarheimilið á Höfn. Þó hún væri þá orðin rúmföst og þrotin kröftum þá náðum við samt að spjalla saman en líkt og áður hafði hún mestan áhuga á að spyrjast fyrir um mig og mitt fólk. Fyrir þá stund sem og allar aðrar stundir sem ég átti með henni frænku minni er ég þakklátur í dag.

Síðustu ár reyndust Sigurbjörgu erfið en nú er komið að leiðarlokum. Hún hefur svarað kallinu sem bíður okkar allra því það er jú lífsins gangur að lifa og deyja. Eftir situr minning um merka konu.

Við Svana sendum Eiríki, Sigga og Palla, þeirra fjölskyldum og öðrum skyldmennum innilegar samúðarkveðjur.



Karl Rafnsson.