18. maí 2011 | Íþróttir | 389 orð | 2 myndir

Ragnar er á leiðinni í FH

• Hefur gefið FH ákveðið svar og hafnað öðrum félögum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins • Selfyssingar vilja semja við Ragnar og lána hann í FH

Kemur og fer Ragnar Jóhannsson, markakóngurinn frá Selfossi, kemur til liðs við FH, að öllu óbreyttu, en Ólafur Guðmundsson fer frá Íslandsmeisturunum til AG Köbenhavn fyrir næsta keppnistímabil.
Kemur og fer Ragnar Jóhannsson, markakóngurinn frá Selfossi, kemur til liðs við FH, að öllu óbreyttu, en Ólafur Guðmundsson fer frá Íslandsmeisturunum til AG Köbenhavn fyrir næsta keppnistímabil. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTI Ívar Benediktsson iben@mbl.is Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins getur fátt komið í veg fyrir að markahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla, Ragnar Jóhannsson, gangi á næstunni til liðs við Íslandsmeistara FH í handknattleik.
HANDBOLTI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins getur fátt komið í veg fyrir að markahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla, Ragnar Jóhannsson, gangi á næstunni til liðs við Íslandsmeistara FH í handknattleik. Heimildir herma að Ragnar hafi þegar gefið FH endanlegt svar um að hann vilji ganga til liðs við félagið og hafi gefið tilboð annarra félaga frá sér. Enn á þó eftir að ganga frá lausum endum milli Ragnars og Selfossliðsins hvar hann hefur leikið með frá barnsaldri.

Ragnar á eitt ár eftir af samningi sínum við Selfossliðið sem féll úr úrvalsdeildinni, N1-deildinni, í vor. Mun hnífurinn standa í kúnni í kringum þennan samning, eftir því sem heimildir Morgunblaðsins herma. Hefur því jafnvel verið fleygt að forráðamenn handknattleiksdeildar Selfoss vilji að Ragnar skrifi undir lengri samning við félagið áður en þeir gefi honum grænt ljós á félagsskipti yfir í raðir Íslandsmeistaranna.

Ekkert hefur þó verið staðfest í þeim efnum en ljóst er að uppgjör á samningamálum Ragnars er það eina sem stendur í vegi fyrir því að hann gangi til liðs við FH, eftir því sem næst var komist í gær.

Kapphlaup milli félaga

Ragnar, sem er á 21. aldursári, var sem fyrr segir markahæsti leikmaður úrvalsdeildinnar á nýliðinni leiktíð. Hann skoraði 174 mörk í 21 leik, níu mörkum meira en Bjarni Fritzson, Akureyri. Ragnar varð markakóngur 1. deildar í fyrra. Hann hefur leikið með yngri landsliðunum í handknattleik og verið undir smájá liða í Evrópu, m.a. Gummersbach.

Kapphlaup var á milli félaga um krafta Ragnars eftir að leiktíðinni lauk. Auk FH-ingar herma heimildir Morgunblaðsins að Haukar, HK og Valur hafi a.m.k. borið víurnar í Ragnar. Hermt er að Valsmenn hafi boðið Ragnari vænlegri samning en FH-ingar en það hafi ekki nægt til þess að koma piltunum herbúðir Valsmanna.

Ragnar á vafalítið eftir að styrkja lið Íslandsmeistaranna verulega. Þeir sjá nú væntanlega á eftir Ólafi Andrési Guðmundssyni til Danmerkur eftir að hafa haft hann á láni frá stórliðinu AG Köbenhavn síðasta ári en Ólafur skrifaði undir samning við danska liðið á síðasta sumri. Auk þess þá hefur FH-liðið sárlega vantað örvhenta skyttu og ljóst að koma Ragnars mun breyta talsvert sóknarleik Íslandsmeistaranna.

Auk þess að krækja í Ragnar leggja FH-ingar mikið kapp á að halda leikstjórnandanum Ásbirni Friðrikssyni í sínum röðum. Hann fór á kostum með Íslandsmeisturunum í vetur en mun vera með lausan samning við FH um þessar mundir.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.