Ágúst Kristinn Guðlaugur Björnsson fæddist á Siglufirði 16. febrúar 1938. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 29. maí 2011. Foreldrar hans voru Björn Olsen Björnsson, verkamaður á Siglufirði, f. 11. sept. 1903, d. 29. maí 1976, og kona hans Konkordía Ingimarsdóttir húsmóðir, f. 14. júní 1905, d. 6. ágúst 1987. Systkini: Ólína, f. 1927, d. 1996, Þóra, f. 1929, d. 2006, Erlendur, f. 1931, d. 2000, Margrét, f. 1933, og Björn, f. 1946. Ágúst kvæntist 1. desember 1961 Þrúði Márusdóttur, f. 14. maí 1939 í Skagafirði. Foreldrar: Márus Guðmundsson, bóndi á Bjarnastöðum, Akrahreppi í Skagafirði, f. 25. júlí 1902, d. 18. nóv. 1982, og kona hans Hjörtína Tómasdóttir húsmóðir, f. 25. ágúst 1906, d. 26. ágúst 2002. Ágúst hóf nám í Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg 1. nóv. 1955 og lauk þar námi og tók sveinspróf sem prentari 17. jan. 1960. Hann starfaði lengst af við þá iðn. Hann gerðist ungur félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík og starfaði með henni í áratugi. Einnig var hann félagi í ÍR þar sem hann stundaði frjálsar íþróttir og skíði og var hann alla tíð mjög virkur í starfi félagsins. Jarðarför Ágústs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 7. júní 2011, kl. 13.

Það var sumarið 1962, þegar tólf ára stúlkubarn utan af landi kom í fyrsta sinn til höfuðborgarinnar. Á móti henni tekur móðurbróðir hennar Ágúst Björnsson, sem búsettur var þá  ásamt konu sinni Þrúði á Lokastíg 17. Þetta var hvorki í fyrsta né síðasta sinn, sem þau hjónin tóku á móti ættingjum utan af landi. Næsta minning mín er tengist Ágústi og Þrúði er eftir að ég kom hingað til náms 16 ára gömul. Ágúst og Þrúður voru fasti punkturinn í tilverunni og eitt sinn er aumingja  sveitastelpan var eitthvað einmana þá kom Ágúst frændi og bauð henni í Örævaferð. Ferðinni var heitið yfir óbrúaðar stórár á leið austur í Örævasveit. Tekið skal fram að á heimili ungu stúlkunnar hafði aldrei verið til bíll  og lengsta ferðin sem hún hafði farið til þessa var til höfuðborgarinnar. Þessi ævintýraferð varð ungu stúlkunni  því ógleymanleg. Hún sá og kynntist útlendingum í fyrsta skiptið. Hún upplifði í fyrsta skiptið að einstaklingi gat liðið það illa að hann gat hugsað sér að taka sitt eigið líf. Hún sá ást kvikna og varð sjálf skotin í einum af ferðalöngunum. Minningarnar eru óteljandi og flestar tengjast þær mannkostum Ágústar frænda sem lýsa honum best: þrautseigja, óeigingirni og umhyggja. Umhyggja ekki bara fyrir fjölskyldu og vinum, heldur öllum sem  áttu erfitt vegna veikinda eða af öðrum orsökum. Í mörg ár tók hann þátt í ásamt öðru góðu fólki að gera ungum rúmliggjandi börnum á Barnadeild Landspítalans lífið léttara með heimsóknum ýmissra skemmtikrafta.  Ágúst frændi átti mörg áhugamál. Eitt af þeim var skíðaíþróttin. Hann ferðaðist um landið til að kenna ungmennum á gönguskíði.  Hann starfaði líka lengi með Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Sú þátttaka virðist hafa smitað út frá sér  í stórfjölskyldunni, því  á tímabili voru sex fjölskyldumeðlimir  starfandi félagsmenn í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Þess má og geta að Þrúður kona hans var einn af stofnendum Kvennadeildar Flugbjörgunarsveitarinnar og skipaði sveitin stóran sess í lífi þeirra. Nýlega var Ágúst  gerður að heiðursfélaga sveitarinnar.

Ágúst frændi var reglumaður, hann hvorki drakk áfengi né reykti. Hann var okkur öllum  í stórfjölskyldunni góð fyrirmynd. Það var því mikið áfall þegar hann fyrir rúmum tuttugu árum greindist með lungnakrabbamein. Hann gekk í gegnum erfiða lyfjameðferð en að lokum virtist hann hafa sigrað krabbameinið. En þessi illskeytti sjúkdómur lét ekki að sér hæða  og birtist aftur og aftur. Ágúst lét ekki bugast og lagði að baki marga orrustuna. Á þessum langa tíma sem hann var að berjast við þennan vágest var hann samt alltaf að. Hann var lærður prentari og vann lengst af við það. Veikindin tóku smám saman sinn toll og hann varð að hætta í prentinu, en hann var ekki iðjulaus og fann sér alltaf eitthvað að sýsla. Þrautseigjan og baráttuþrekið var ótrúleg.

Unga sveitastúlkan er nú kona á besta aldri, á þrjú börn og tvö barnabörn. Hún og fjölskylda hennar  þakka Ágústi  og Þrúði fyrir allar góðu minningarnar sem við eigum með þeim. Ágúst var límið í stórfjölskyldunni. Hann hringdi alltaf á afmælisdögum okkar systkinabarnanna og heimsótti okkur öll reglulega hvar sem við bjuggum á landinu.

Guð blessi þig frændi, þín verður sárt saknað. Heimurinn væri betri ef fleiri væru eins og þú.



Ninna.