[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Töluvert hefur verið af pollum í bænum undanfarnar vikur, vegna rigninga. Næstu daga er spáð miklu betra veðri en samt verða mun fleiri pollar í höfuðstað Norðurlands en upp á síðkastið.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Töluvert hefur verið af pollum í bænum undanfarnar vikur, vegna rigninga. Næstu daga er spáð miklu betra veðri en samt verða mun fleiri pollar í höfuðstað Norðurlands en upp á síðkastið.

Pollar eru nefnilega alls ekki það sama og pollar.

KA-menn halda í vikunni Pollamót sitt í 25. skipti og það hefur aldrei verið fjölmennara. Keppendur eru nú um 1.500, fyrir utan þjálfara, fararstjóra og foreldra.

Mótið var fyrst kennt við Esso, en nú N1, eftir að nafni fyrirtækisins var breytt. Nú er sem sagt haldið enn eins mót. Enn einu sinni.

Auðvitað er haldið enn eins mót. Engin ástæða er til þess að breyta því sem er vel heppnað.

Heldri pollar verða svo á ferðinni norðan Glerár á föstudag og laugardag þar sem árlegt Pollamót fer fram á félagssvæði Þórs. Þar spreyta sig þeir sem komnir eru af léttasta skeiði... Þórsmótið er kennt við Icelandair – og þar verða örugglega einhverjir í fluggír. Vonandi fljúgast menn þó ekki á.

Hópur Slóvena gróðursetti tré í Kjarnaskógi fyrir nokkrum dögum. Þeir komu til Akureyrar í beinu flugi á vegum Helenu Dejak á ferðaskrifstofunni Nonna. Trén vildu þeir gróðursetja til að minnast þess að í fyrra vou 20 ár síðan Íslendingar voru á meðal þeirra fyrstu til að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu.

Rúmlega 80 krakkar á aldrinum 10-17 ára voru alla síðustu viku í handboltaskóla Greifans, sem þjálfararnir Jóhannes Bjarnason og Sævar Árnason stjórnuðu í KA-heimilinu.

Vonandi verður um árlegan viðburð að ræða, jafnvel fyrir alla aldurshópa. Hefði yngstu aldursflokkunum verið boðin skólavist nú hefðu eflaust tvöfalt fleiri krakkar mætt.

Nokkrir „strákanna okkar“ í landsliðinu komu í heimsókn á föstudeginum; Guðjón Valur Sigurðsson, Björgvin Páll Gústavsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Oddur Gretarsson. Þá tóku Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar, Stefán Guðnason og Jóhann G. Jóhannsson, fv. fyrirliði KA, þátt í kennslunni.

Landsliðskapparnir komu ekki einungis til bæjarins til kennslustarfa, heldur var skólinn einmitt starfræktur vegna þess að þeir voru hér staddir. Þeir komu til að vera við brúðkaup landsliðsfélagans Arnórs Atlasonar og Guðrúnar Jónu Guðmundsdóttur. Fleiri „strákar“ voru í brúðkaupinu en komu ekki til bæjarins fyrr en á laugardeginum.

Arnór var á Akureyri dagana fyrir brúðkaupið eins og gefur að skilja og hafði örugglega í nógu að snúast. Hann gaf sér þó tíma til að líta inn í skóla þeirra Jóhannesar og Sævars.

„Það sér í bláan himin,“ var sagt heima hjá mér kl. 19.29 í gærkvöldi! Söguleg stund. Svo braust sólin fram. Það má sem sagt treysta veðurspánni.

Hljómsveitin Gus Gus verður með tónleika í Sjallanum á laugardagskvöldið. Húsið verður opnað kl. 12 og sveitin stígur á svið á miðnætti.

Það var í fréttum að Gus Gus ákvað að spila ekki í tónlistarhúsinu Hörpu því ekki mátti nota eigið hljóðkerfi. „Ekkert verður til sparað í hljóði og ljósum til að uppfylla kröfur sveitarinnar um að tónlistin skili sér í fullum gæðum til aðdáenda,“ segir í tilkynningu frá Sjallanum...