Gústaf Adolf Skúlason
Gústaf Adolf Skúlason
Eftir Gústaf Adolf Skúlason: "Er hér að mínu viti um eina stærstu og gegndarlausustu eignatilfærslu nútímans að ræða, sem breyta mun mörgum ríkjum ESB í tannlausa dverga."

Stjórnmálamenn í Evrópu, sem harðast verja evruna, nota orð eins og „hjálp“ og „samstöðu“, þegar samþykkja á ný, risavaxin neyðarlán til þjóða ESB sem komnar eru í greiðsluþrot. Peningarnir skila sér þó engan veginn til almennings, því „neyðin“ sem þarf að leysa er afborganir lána, fyrst og fremst til franskra og þýskra banka. Ríkisstjórn viðkomandi lands á jafnframt að stórhækka skattaálögur á þegna sína, skera í fjárlög og höggva niður velferðarþjónustu. Dugi það ekki til á ríkið að láta hluta af landi sínu ganga upp í „skuldirnar“.

Seðlabanki Evrópu hefur dælt milljörðum evra í ónýt grísk skuldabréf og með því aukið skuldakreppuna. Vandamálið er stærra en Grikkland og því markar þessi aðferð einungis upphafið að endalokum tilraunarinnar með Evruland. Prentun nýrra evruseðla mun ekki leysa vandamálið en í staðinn skapa óðaverðbólgu sem gengisfellir evruna gagnvart öðrum myntum. Eina skjólið sem eftir verður fyrir aðildarríkin er því að segja sig frá evrunni og ESB.

Óróleikinn á stjórnarheimilinu hjá ESB breiðist hratt út en reynt er að sporna við almennri ringulreið og úttektaráhlaupi almennings á banka, sem fáir trúa að lifi mikið lengur.

Með „Icesave“-leiðinni eru embættismenn ESB að koma gjaldþroti ábyrgðarlausrar útlánastefnu bankanna yfir á skattgreiðendur með kunnum afleiðingum: Réttarfarið fær ekki tækifæri til að dæma fjárglæframenn, löggjafinn fær ekki svigrúm til að laga vankantana á fjármálaregluverkinu. Aðildarríki Evrulands leggja fram veð í löndum sínum og gera eigin landsmenn um komandi kynslóðir að skuldaþrælum ESB og þeirra banka sem lifa af hrunið. Er hér að mínu viti um eina stærstu og gegndarlausustu eignatilfærslu nútímans að ræða, sem breyta mun mörgum ríkjum ESB í tannlausa dverga. Eftir sitja Þýskaland og Frakkland sem risar Evrópu og geta á mun hrárri hátt en áður gert það sem þeim sýnist. Má þá við búast að Þýskaland setji fram kröfu um að bækistöðvar ESB verði fluttar nær landfræðilegri miðju Evrópu til Berlínar frá Brussel.

Margir vöruðu við í upphafi en ekki var á hlustað, að tilraunin með Evruland gæti ekki gengið eftir og gæti allt eins endað með ófyrirsjáanlegu tjóni fyrir íbúa Evrópu. Herör var þá skorin upp gegn gagnrýninni og gagnrýnendur í besta sovétstíl flokkaðir sem „anti-Evrópu“-sinnar. Áróðurinn fyrir draumaríki ESB hefur á hinn bóginn kantast af dómsdagshótunum um að löndin hafi verra af, ef þau gangi ekki með í sæluríkið. En á daginn er komið að Brussel er að íklæðast frakkanum sem tók Sovét 70 ár að klæða sig úr með miklum mannlegum hörmungum. Sæluríkið Evruland mætir nú þeim raunveruleika, sem það hefur sjálft skapað og margir óttuðust og bentu á að gæti gerst. Spurningin er, hversu lengi ráðamenn ESB ætla að berja hausnum við steininn og hversu stórar fórnir íbúar Evrópu þurfa að færa á altari draumsins um Alríki Evrópu.

Til að bæta gráu ofan á svart samþykkti Evrópuþingið nýverið að ESB taki upp eigin tekjuöflun ofan á áskriftargjöld aðildarríkjanna til að fjármagna sífellt stækkandi hóp hungraðra möppudýra og lúxuslíf ráðamanna. Ekki má kalla þetta skatta, þótt það sé einmitt rétta orðið, enda á almenningur ekki að skilja hvað hann borgar fyrir, þegar hann kaupir vörur, lyf og flugferðir í framtíðinni. Í staðinn verða þessar nýju, auknu álögur kynntar sem „lækkun áskriftargjaldsins“. Þau lönd, sem dælt hafa mestum peningum frá skattgreiðendum sínum til ESB, eru farin að spyrna við fótunum. En ráðamenn ESB, sem sjálfir bera ábyrgð á hinu óseðjandi og sístækkandi svartholi, finna stöðugt nýjar leiðir til að blekkja almenning.

Undir þessum kringumstæðum glansa jafnaðarmenn íslensku ríkisstjórnarinnar með ráðherrum ESB og semja um inngöngu Íslands í sæluríkið. Er það eins með valdafíkla jafnaðarstefnunnar og aðra fíkla, að fíknin hefur forgang umfram staðreyndir. En þegar myrkrið fellur á munu menn ekki lengur trúa að sólin skíni, bara vegna þess að jafnaðarmenn ganga um með sólgleraugu.

Plágur Íslands eru nokkrar og á íslenskan mælikvarða stórar. Á eftir bankaráni, alheimsskuldakreppu, misbeitingu hryðjuverkalaga og gallaðri fjármálalöggjöf fengu Íslendingar sína fimmtu plágu: fyrstu vinstristjórnina undir leiðsögn jafnaðarmanna að „norrænni velferðarfyrirmynd“. Þessi stjórn, sem hamast við að jarða lýðveldið með útför í Brussel, er þegar í hópi verstu stjórna Íslendinga – ef ekki sú versta frá landnámi.

Sennilega hafa fáir lengur trú á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur nema heilaþvegnustu meðlimir Samspillingarinnar. Jafnaðarstefnunnar bíður skipbrot á Íslandi líkt og gerðist í Svíþjóð og þá munu möguleikar skapast til að byggja aftur upp allt það, sem verið er að rústa.

Tilvistarkreppa ESB er með sanni tilvistarkreppa þeirra sem ekkert vilja sjá né heyra nema hörputóna sæluríkisins. Fyrir jafnaðarmenn nútímans er ESB sami draumurinn og Sovét var fyrir kommúnista áður fyrr.

Hversu miklar þjáningar mega íbúar Evrópu þola, áður en Brussel kastar Moskvufrakkanum?

Höfundur er fyrrv. ritari Smáfyrirtækjabandalags Evrópu.