Búum til góðar stundir saman í sumar. Unglingar við félagsmiðstöðina 105
Búum til góðar stundir saman í sumar. Unglingar við félagsmiðstöðina 105
Frá Dagbjörtu Ásbjörnsdóttur og Þórhildi Rafns Jónsdóttur: "Félagsmiðstöðvar Íþrótta- og tómstundarráðs Reykjavíkur eru starfræktar nú þriðja sumarið í röð."

Félagsmiðstöðvar Íþrótta- og tómstundarráðs Reykjavíkur eru starfræktar nú þriðja sumarið í röð. Vorið 2009 var ákveðið að blása lífi í gamla hugmynd starfsmanna félagsmiðstöðva og hafa sumaropnun fyrir 13-16 ára unglinga í félagsmiðstöðvum um alla borg og hefur sumaropnun verið á dagskrá félagsmiðstöðvanna síðan. Þjónustan er þó aðeins breytt frá vetaropnun þar sem opið er á öllum stöðum tvö til þrjú kvöld í viku auk dagopnunar, en yfir sumarið eru færri staðir opnir og í styttri tíma, en aftur á móti er unglingum sérstaklega boðið að taka þátt á öllum stöðum óháð búsetu eða skólahverfi. Þátttakan var upp og ofan fyrsta sumarið en hefur farið stigvaxandi með hverju sumri og í ár hefur fjöldi unglinga sótt félagsmiðstöðvarnar heim og eru að átta sig betur á þessari þjónustu sem stendur þeim til boða.

En hvers vegna hefur það verið baráttumál að hafa félagsmiðstöðvar opnar á sumrin? Sumarið er tíminn þegar unglingar hafa meiri frítíma og engar skyldur gagnvart skólum eru til staðar. Vinnutími nemenda hefur skerst töluvert að undanförnu árum hjá Vinnuskóla Reykjavíkur og unglingar hafa meiri frítíma en áður. Rannsóknir sýna að skipulagður frítími er mikilvæg forvörn og þátttaka í skipulögðu félagsstarfi í umsjá fagfólks í öruggu umhverfi hefur mikið forvarnargildi. Með því að bjóða ungu fólki upp á jákvæð viðfangsefni í frítímanum með sterkum fyrirmyndum aukast líkur á því að þau kjósi heilbrigðan lífsstíl og forðist áhættuhegðun. Að auki er bara svo skemmtilegt að hafa aðgang að góðum félagahópi í félagsmiðstöðinni sinni sem og einhverju skemmtilegu að fást við.

Í öllum hverfum borgarinnar eru félagsmiðstöðvar opnar og hægt að nálgast dagskrána á heimasíðum þeirra. Við hvetjum foreldra sem og unglinga að kynna sér nánar það starf sem er í boði og skella sér á staðinn.

Búum til góðar stundir saman í sumar.

DAGBJÖRT

ÁSBJÖRNSDÓTTIR,

deildarstjóri unglingasviðs í

frístundamiðstöðinni Kampi

ÞÓRHILDUR RAFNS

JÓNSDÓTTIR,

deildarstjóri unglingasviðs í frístundamiðstöðinni Kringlumýri

Frá Dagbjörtu Ásbjörnsdóttur og Þórhildi Rafns Jónsdóttur