Golf „Það er ægilega gaman og þar eru miklar kröfur gerðar,“ segir Ólöf Helga Brekkan.
Golf „Það er ægilega gaman og þar eru miklar kröfur gerðar,“ segir Ólöf Helga Brekkan. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólöf Helga Brekkan, 82 ára golfleikari, fór holu í höggi nýverið á golfvellinum á Seltjarnarnesi. „Ég var á annarri holu, reyndi að gera mitt besta og sló bara en svo horfði ég á eftir boltanum og skildi ekki hvað hefði orðið af honum.

Ólöf Helga Brekkan, 82 ára golfleikari, fór holu í höggi nýverið á golfvellinum á Seltjarnarnesi. „Ég var á annarri holu, reyndi að gera mitt besta og sló bara en svo horfði ég á eftir boltanum og skildi ekki hvað hefði orðið af honum. Svo þegar ég kom að holunni þá var hann bara ofan í,“ segir Ólöf.

„Þetta var gaman, jú, en ég var ekki að hoppa hæð mína, mér fannst mest gaman að skrifa 1 í kortið, það er ekki oft sem maður fær tækifæri til þess. Þetta var fyrsta holan á þessu ári úti á Seltjarnarnesi.“

Hreyfingin mjög hressandi

Ólöf Helga hefur spilað golf af og til í um 10 ár ásamt eiginmanni sínum Ásmundi Brekkan, sem hefur ekki farið holu í höggi hingað til. „Við erum bæði fullorðin og við höfum núna aðeins meiri tíma, ég spila svona tvisvar til þrisvar í viku.“

Ólöf Helga hefur spilað mest fjórum sinnum í viku.

Ólöfu finnst hreyfingin mjög hressandi og góð. Hún hefur líka farið til útlanda nokkrum sinnum að spila. „Það er ægilega gaman og þar eru miklar kröfur gerðar en þá er maður á bíl og það er aðeins auðveldara.“

Aðspurð hvort heppni eða hæfni hafi orðið til þess að hún fór holu í höggi sagði Ólöf:

„Ætli það sé ekki hvort tveggja, ég slæ nú nokkuð beint. Púttin fara svolítið illa með mann en þetta er náttúrlega þjálfun.

Þetta er jú mjög gaman þegar maður fer að hugsa um þetta eftir á. Það er tafla uppi á vegg hjá golffélaginu úti á Nesi og þar eru nöfn allra sett sem hafa farið holu í höggi og þar eru nokkuð margar konur. Það væri gaman að gera þetta aftur.“

Í fyrrakvöld tók Ólöf þátt í móti ásamt 60 öðrum konum í miklu roki á golfvellinum úti á Seltjarnarnesi og gekk nokkuð vel þó að boltinn hafi farið í allar aðrar áttir en hann átti að fara. „Þetta var mjög gaman en maður er dauðþreyttur eftir á,“ segir hún.

Ólöf er tannfræðingur að mennt og hefur alið upp fimm börn. Segist hún ekki hafa spilað þegar hún var að vinna en nú hafi þau hjónin meiri tíma til þess.

Konum fjölgar verulega í golfi

Þuríður Halldórsdóttir, formaður kvennanefndar golfklúbbsins, segir að eldri konur spili golf með félaginu en Ólöf sé líklega elsta konan sem hefur farið holu í höggi á undanförnum árum. Það eru um 600 meðlimir í klúbbnum og þriðjungur er konur. Þuríður segir að konum sé að fjölga verulega í golfi og mikil aðsókn sé í klúbba á höfuðborgarsvæðinu. Nú séu 305 manns á biðlista hjá Nesklúbbnum á Seltjarnarnesi. Meðlimir eru á öllum aldri. Unglingar sem byrjuðu sjálfir á barnanámskeiðum í golfi hjá klúbbnum draga á endanum foreldra sína með. mep@mbl.is