Álfheiður Ingadóttir
Álfheiður Ingadóttir
Andri Karl andri@mbl.

Andri Karl

andri@mbl.is

Niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands í máli Íslandsbanka gegn hjónum sem tóku hjá bankanum lán er staðfesting á túlkun Alþingis á dómi Hæstaréttar frá því í júní á síðasta ári og öðrum sem féll í september sama ár, segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður efnahags- og skattanefndar.

Líkt og greint hefur verið frá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að vexti Seðlabanka Íslands bæri að reikna á endurútreiknuðum gengistryggðum lánum frá útborgunardegi þeirra. Lögmaður hjónanna í málinu taldi þetta ganga gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar enda hefðu hjónin greitt af láninu á gjalddögum og fengið útgefnar fyrirvaralausar kvittanir vegna þeirra afborgana.

Dómurinn taldi að Alþingi hefði með lagasetningu í desember sl. breytt samningnum efnislega bæði hvað varðar verðtryggingu og vexti. Meðal annars var vísað í greinargerð með frumvarpinu þar sem segir að ef annað hvort ákvæði samninga um vexti eða verðtryggingu eru ógildanleg á grundvelli laganna verði að koma til heildarendurskoðunar og litið svo á að ekki hefði verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu.

Ákvæði sem ekki fór hátt

Álfheiður var formaður efnahags- og skattanefndar þegar frumvarpið var til meðferðar í nefndinni. Var það sökum þess að Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, steig til hliðar í málinu. Álfheiður segir dóminn staðfestingu á lögum en tekur þó fram að enn eigi Hæstiréttur eftir að skera úr um. „Þarna hefur Héraðsdómur Suðurlands staðfest þá túlkun á dómi Hæstaréttar frá því í júní á síðasta ári og september á sama ári, að gengisviðmiðunin hafi gert skilmála lánsins hvað varðar verðtryggingu og vexti ólögmæta frá fyrsta degi.“

Hvað varðar kröfur lögmanns hjónanna um að endurútreikningur gilti frá dómsuppsögu eða síðustu útgefnu greiðslukvittun bendir Álfheiður á, að í lögunum frá desember sé gert ráð fyrir að ef fólk komi verr út úr endurútreikningum geti það valið að nota áfram upphaflegu kjörin. „Þannig að menn verða að velja hvort þeir vilja upphaflegu gengistrygginguna sem þeir sömdu um og vextina sem því fylgdu. Bráðabirgðaákvæði í lögunum frá því í desember í vetur tryggir fólki það.“

Ákvæðið sem Álfheiður nefnir hefur ekki farið hátt og hún telur það væntanlega vegna þess að krónan féll gríðarlega og þó svo hún sé nokkuð stöðug um þessar mundir sé hún langt frá því að vera á sama róli og þegar fólk tók lánin í erlendum gjaldmiðlum.

Valið enn til staðar

Hún segir þetta úrræði þó enn í boði og það þó að um bráðabirgðaákvæði hafi verið að ræða sem sé runnið út. „Fólk fær endurútreikninga frá bankanum og getur í kjölfarið farið til umboðsmanns skuldara eða til eigin endurskoðanda og farið yfir hvort þeir séu réttir, og í samræmi við lög og reglur. Svo getur fólk valið hvort það vilji halda sig við upphafleg kjör í erlendum myntum eða taka vexti Seðlabankans frá fyrsta degi.“

Lagaákvæðið var bundið við 90 daga frá lagasetningunni en Álfheiður, sem er formaður viðskiptanefndar, segist ekki hafa fengið upplýsingar um að það hafi verið stoppað. „Við höfum kallað eftir því að það verði ekki látið bitna á fólki því þeir hafa tekið miklu lengri tíma en þeim var gefinn.“

Máttu velja skilmála

Fjármálafyrirtækjunum voru gefnir sextíu dagar frá gildistöku laganna um endurútreikning 18. desember sl. til að senda skuldara útreikning á nýjum höfuðstól og/eða endurgreiðslu ofgreidds fjár sem af uppgjörinu leiðir.

Þá segir: „Ef í lánssamningi er kveðið á um ólögmæta verðtryggingu í formi gengistryggingar skal með samningi kröfuhafa og skuldara vera heimilt að færa höfuðstól lánsins í erlendar myntir eins og um gilt erlent lán hafi verið að ræða frá stofntíma kröfunnar. Falla þá niður heimildir til leiðréttingar greiðslna og höfuðstóls samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Heimild þessi gildir í 90 daga frá gildistöku laga þessara og skal staðfest með skriflegum og sannanlegum hætti.“

Enn eru fjármálastofnanir þó að endurreikna og því eiga skuldarar enn að geta valið.