Eli Landsem
Eli Landsem
Fyrstu umferð riðlakeppni á HM kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi lauk í gær en þá fóru fram tveir leikir í D-riðli. Norðmenn mörðu 1:0-sigur á Miðbaugs-Gíneu og Brasilía hafði betur á móti Ástralíu með sömu markatölu.

Fyrstu umferð riðlakeppni á HM kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi lauk í gær en þá fóru fram tveir leikir í D-riðli. Norðmenn mörðu 1:0-sigur á Miðbaugs-Gíneu og Brasilía hafði betur á móti Ástralíu með sömu markatölu.

Norðmenn lentu í óvæntu basli með lið Miðbaugs-Gíneu í Augsburg og það var ekki fyrr en á 84. mínútu sem Emilie Haavi skoraði sigurmarkið. Bæði lið áttu góð færi og kom frammistaða Miðbaugs-Gíneu mörgum mjög á óvart en lið þeirra var mjög sprækt.

„Ég hafði það á tilfinningunni að þetta yrði erfiður leikur og það kom á daginn. Aðalatriðið er að við innbyrtum þrjú stig en við fórum illa með færin okkar í leiknum,“ sagði Eli Landsem, þjálfari Norðmanna, eftir leikinn.

Brasilía og Ástralía áttust við í Mönchengladbach þar sem Brassarnir höfðu betur, 1:0, með marki frá Rosönu á 54. mínútu leiksins.

Það var lítið um sambabolta hjá brasilíska liðinu í fyrri hálfleik en í þeim síðari gekk því betur og sáust oft góð tilþrif hjá þeim suðuramerísku.

Fyrir mótið var brasilíska liðinu spáð velgengni en Brasilía tapaði fyrir Þýskalandi í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Kína fyrir fjórum árum.

gummih@mbl.is