Sigurður Jónsson tannlæknir er fastagestur í Sundhöllinni og félagar hans í „Sundhallarflokknum“ ganga allhart eftir vísum frá honum. „Eitt sinn hafði ég romsað upp úr mér fjórum vísum, en datt þá í hug ein enn, þótti hins vegar nóg komið og geymdi hana til næsta dags og hún er svona:
Daglega einhver að því spyr,
hvort ekki sé von á neinu,
en aldrei hef ég farið fyr
með fjórar vísur í einu.“
Ein af vísunum fjórum var svohljóðandi:
Það getur alveg átt sér stað,
að einhver sannleikskorn leynist
í höfði mér, en hafa skal það
heldur sem sannara reynist.
Þegar útsendurum norska hersins var leyft að reka áróður hér, varð það til þess að Sigurður orti:
Nú þykist Norsarinn góður
að nýta sinn íslenska bróður.
Þeir mega sér hingað
menntskælinga
sækja í fallbyssufóður.
Rímnaskáldið Sigurður Breiðfjörð orti á sínum tíma:
Kylfu um herinn harðfenginn
hraustur gerir flíka.
Ekki sér hann sína menn
svo hann ber þá líka.
Hallmundur Kristinsson yrkir á fésbók:
Líkamans hreysti og lundar ég styð,
legg því í göngu og hleyp þá við fót,
brátt mun svo nálgast og blasir nú við
buskinn og fjarskinn og allt þetta dót!
Pétur Blöndal pebl@mbl.is