Sumarhefti Þjóðmála er komið út og að vanda kennir þar margra grasa, meðal annars um vafasama beitingu valds.

Sumarhefti Þjóðmála er komið út og að vanda kennir þar margra grasa, meðal annars um vafasama beitingu valds. Páll Vilhjálmsson, kennari og blaðamaður, ritar þar til dæmis hugleiðingu út frá bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugi, og vekur athygli á því hvernig viðskiptaveldið Baugur „hafði í náinni samvinnu við Samfylkingu, Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og forseta lýðveldisins lagt ríkisvaldið að velli“, en þar vísar hann til lykta fjölmiðlamálsins árið 2004.

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar um ákæruna á hendur Geir H. Haarde og segir meðal annars: „Ákæran á hendur Geir er pólitískt uppgjör í búningi sakamáls. Saksóknari Alþingis hefði átt að segja sig frá málinu þegar hún hafði skoðað málsgögnin, ekki síst þegar hún var skipuð ríkissaksóknari. Það samræmist illa þeim störfum og gefur slæm fyrirheit þegar hún stendur að pólitískum réttarhöldum í upphafi starfsferilsins.“

Jón heldur áfram og bendir á afskipti núverandi stjórnvalda af saksókn og meðferð brotamála. „Í öllum öðrum lýðræðisríkjum myndi slíkt kalla á rannsóknir og snörp viðbrögð þingmanna sem vilja vernda réttarríkið,“ segir Jón.

Loks er ástæða til að nefna umfjöllun Vilhjálms Eyþórssonar rithöfundar um fjölmiðlalögin nýsamþykktu. Þau bera að hans sögn með sér „að þótt kalda stríðinu sé lokið, eru íslenskir alræðissinnar í fullu fjöri og þeir koma hér fram, að orwellskum sið eins og alltaf, undir formerkjum „lýðræðis“ og „mannréttinda“. Í þessu tilviki hyggjast þeir lögleiða ritskoðun í nafni „tjáningarfrelsis“.“