Menningararfur Sigríður Aðalsteinsdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Ástríður Alda Sigurðardóttir og Bjarni Thor Kristinsson.
Menningararfur Sigríður Aðalsteinsdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Ástríður Alda Sigurðardóttir og Bjarni Thor Kristinsson. — Morgunblaðið/Ómar
Díana Rós A. Rivera diana@mbl.is Nú stendur yfir sumarvertíðin hjá CCCR eða Classical Concert Company Reykjavík. Um er að ræða 50 tónleika sem fram fara í Kaldalóni í Hörpu.

Díana Rós A. Rivera

diana@mbl.is

Nú stendur yfir sumarvertíðin hjá CCCR eða Classical Concert Company Reykjavík. Um er að ræða 50 tónleika sem fram fara í Kaldalóni í Hörpu. Tónleikarnir skiptast í fimm tónleikaraðir: Perlur íslenskra einsöngslaga, Ferðalag um íslenska tónlistarsögu, Íslensk tónlist – A Cappella, Halldór Laxness og tónlistin og svo er dagskrá um konur og íslenska tónlist. Sungið er á íslensku en tónlistin kynnt á ensku og eru flytjendur flestir úr röðum ungs og efnilegs tónlistarfólks sem hefur nýlokið eða er við það að ljúka námi.

Þörf fyrir tónleika af þessu tagi

Markmið tónleikanna er að kynna íslenska tónlist fyrir erlendum ferðamönnum þótt töluvert sé um að Íslendingar mæti líka að sögn Bjarna Thors Kristinssonar, listræns stjórnanda.

CCCR stóð í fyrsta skipti fyrir tónleikum af þessu tagi í fyrra og segir Bjarni Thor þá hafa gengið vel. „Við vorum með lítinn sal og ætluðum okkur ekki nein stórvirki, við vorum bara svona að prófa þetta og fengum góðar viðtökur. Maður fann strax að það var mikil þörf fyrir svona tónleika.“ Tónleikarnir eru með stærra sniði í ár og hefur tónleikaröðunum fjölgað um tvær síðan í fyrra. Bjarni Thor hefur fulla trú á því að tónleikarnir verði enn betur sóttir en þá og segir aðsóknina hafa verið góða síðan fyrstu tónleikarnir voru haldnir í byrjun júní.

Óþarfi að fela tónlistina

Bjarni segir töluvert af erlendum ferðamönnum sækja tónleikana og á von á að þeim fjölgi þegar Harpa kemst betur á kortið hjá ferðaþjónustunni. „Um leið og rútur fullar af ferðamönnum fara að stoppa fyrir utan tónlistarhúsið eykst umferðin um það og þá verður auðvitað enn meira að gera hjá okkur,“ segir Bjarni.

Hann bætir við að það séu alltaf einhverjir Íslendingar sem slæðast með á tónleikana þrátt fyrir að kynnt sé á ensku. „Fólki finnst gaman að heyra þessa slagara í klassíkinni, þessi sönglög sem allir þekkja.“

Að sögn Bjarna var það hans hugmynd að halda tónleika til að kynna íslenska tónlist fyrir ferðamönnum. „Í borgum sem maður heimsækir er alltaf boðið upp á tónlist frá landinu. Mér fannst engin ástæða til þess að vera að fela þennan menningararf okkar fyrir ferðamönnum. Við erum ekki bara fossar og handrit,“ segir hann að lokum.

Sumarvertíð
» Classical Concert Company Reykjavík heldur fimmtíu tónleika í Kaldalóni í Hörpu.
» Meðal annars verða kynntar perlur íslenskra einsöngslaga.
» Sungið er á íslensku en tónlistin kynnt á ensku.