Á trampólíni Þau geta verið hættuleg.
Á trampólíni Þau geta verið hættuleg.
Fimleikafélag Selfoss mun fara vandlega yfir slys sem varð síðdegis á þriðjudag þegar fjórtán ára stúlka fótbrotnaði á báðum fótum eftir að hafa leikið sér á trampólíni ásamt þremur öðrum stúlkum.

Fimleikafélag Selfoss mun fara vandlega yfir slys sem varð síðdegis á þriðjudag þegar fjórtán ára stúlka fótbrotnaði á báðum fótum eftir að hafa leikið sér á trampólíni ásamt þremur öðrum stúlkum. Stúlkan þurfti að fara í stóra aðgerð í kjölfarið og dvelur á Landspítalanum. Líðan hennar er eftir atvikum góð.

Stúlkurnar æfa allar fimleika með félaginu og léku sér á trampólíninu fyrir æfingu, og því án eftirlits kennara. Um er að ræða kraftmeira trampólín en finnast í görðum og voru þær fjórar á því saman. Stukku þrjár samtímis á trampólínið og skutu þeirri fjórðu hátt í loft upp.

Svo mikill var krafturinn þegar ein þeirra stóð að hún hlaut opið beinbrot á báðum fótum. Stúlkurnar sem með henni voru fengu áfallahjálp frá þjálfurum, foreldrum og sérfræðingum.

Brutu reglur með leik sínum

Samkvæmt upplýsingum frá þjálfara Fimleikafélags Selfoss brutu stúlkurnar með leik sínum nokkrar reglur. Verður brýnt fyrir öllum iðkendum í kjölfarið hvernig nota skuli trampólín og farið yfir allar reglur. Þjálfarinn segir þetta ekki einsdæmi því sambærilegt mál hafi komið upp hjá fimleikafélagi á höfuðborgarsvæðinu þar sem stúlka hlaut beinbrot eftir svipaðan leik.

Þjálfarinn vonast einnig til að þetta hörmulega slys verði öðrum víti til varnaðar, enda trampólín í mörgum húsgörðum. Sama gildi um þau, stórhættulegt sé þegar fleiri en einni hoppi í einu.