Gos Náttúrulegt eldgos á Íslandi.
Gos Náttúrulegt eldgos á Íslandi. — Morgunblaðið/Kristinn
Breska blaðið Guardian hefur komist yfir plögg sem sýna að Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, hefur beðið vísindamenn að leggja mat á ýmiss konar verkfræðilegar aðgerðir á hnattræna vísu sem gætu dregið úr hlýnun.

Breska blaðið Guardian hefur komist yfir plögg sem sýna að Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, hefur beðið vísindamenn að leggja mat á ýmiss konar verkfræðilegar aðgerðir á hnattræna vísu sem gætu dregið úr hlýnun. Eitt af því sem rætt hefur verið um er „manngerð“ eldgos sem myndu auka magn brennisteinsagna í andrúmsloftinu. Agnirnar endurvarpa sólargeislum og lækka þannig hitastigið.

Einnig er rætt um að dreifa járnögnum í hafið sem myndi auka þörungavöxt, þeir soga í sig CO 2 áður en þeir sökkva dauðir niður á hafsbotn. Stungið hefur líka verið upp á að breyta uppleystu koldíoxíði í sjónum í kalk sem myndi einnig sökkva; hafið gæti þá tekið við meira af CO 2 . Aðrar hugmyndir eru m.a. að erfðabreyta ýmsum gróðri, gera hann ljósari til að hann endurvarpi betur sólarljósi, sömuleiðis mætti mála götur og húsaþök hvít og loks mætti reyna að „veiða“ CO 2 úr andrúmsloftinu og koma efninu fyrir á öruggum stað.

Viðbrögð margra umhverfissinna voru hörð, að sögn Aftenposten . Bent var á að lítið væri vitað hvaða aukaverkanir margar af þessum aðgerðum myndu hafa í för með sér. Norski prófessorinn Helge Drange sagði að eina aðgerðin sem hann gæti stutt væri að veiða koldíoxíðið úr loftinu. En mikilvægara væri að ráðast að rótum vandans og draga úr losun koldíoxíðs.

kjon@mbl.is