Einar Stefánsson
Einar Stefánsson
Eftir Einar Stefánsson: "Launamunur lækna á Íslandi og þeim löndum sem íslenskir læknar starfa í er orðinn margfaldur, tvö- til fimmfaldur og þaðan af meira."

Fram að þessu hafa gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu verið í fremstu röð í heiminum og langtum meiri en búast mætti við hjá lítilli og afskekktri þjóð. Gæðin hafa byggst fyrst og fremst á mjög hæfu starfsfólki. Íslendingar hafa notið þess að íslenskir læknar hafa sótt sérnám til bestu háskólasjúkrahúsa heims og í flestum tilvikum kosið að snúa heim til Íslands til starfa, þrátt fyrir lakari kjör og aðstæður. Góð læknismenntun við Háskóla Íslands og gott orðspor íslenskra lækna hefur að auki tryggt að íslenskir læknar komist að á bestu háskólaspítölum heims, kynslóð eftir kynslóð.

Þetta ferli er að riðlast. Ungir íslenskir læknar eru hættir að leita heim eftir sérfræðiþjálfun og setjast frekar að erlendis, oftast þar sem þeir hafa þegar búið í nokkur ár. Ungir Íslendingar víla ekki fyrir sér að búa og starfa erlendis. Ferðalög eru ódýrari og auðveldari en áður, síma- og tölvusamskipti sömuleiðis, og miklu algengara að fólk búi erlendis, en haldi samt sambandi við ættingja og vini á Íslandi. Sú ramma taug, sem rekka dregur föðurtúna til, er veikari en áður var og dugar vart lengur til að toga á móti gríðarlegum mun í kjörum og starfsaðstöðu.

Launamunur lækna á Íslandi og þeim löndum sem íslenskir læknar starfa í er orðinn margfaldur, tvö- til fimmfaldur og þaðan af meira. Útlærðir sérfræðingar velja milli þess að halda áfram störfum erlendis við góðar aðstæður og kjör eða flytja til Íslands við margfalt verri kjör og aðstæður. Samanburðurinn er ekki eingöngu milli landa heldur líka á hlutfallslegum launum í hverju landi. Íslenskir læknar eru nefnilega ekki bara illa launaðir í evrópskum og amerískum samanburði, heldur líka í íslensku samhengi. Hálffertugur sérfræðingur sem flyst til Íslands til að starfa á sjúkrahúsi hefur u.þ.b. hálfa milljón í mánaðarlaun. Þótt hann/hún geti bætt launin eitthvað með yfirvinnu og vöktum, eru þetta ekki vænleg kjör til að kaupa húsnæði, borga námslán og koma undir sig fótunum, áratug á eftir jafnöldrum.

Í Morgunblaðinu 28. júní sl. mátti lesa að leysa eigi læknaskortinn á Íslandi með innflutningi erlendra lækna. Það þýðir í raun að íslensk heilbrigðisþjónusta leitar inn á alþjóðlegan vinnumarkað lækna um starfsmenn. Á þessum markaði ráða laun og önnur kjör. Læknar leita til þeirra landa sem bjóða bestu kjörin – bestu læknarnir fara þangað sem best er boðið og þeir lakari til þeirra landa sem bjóða verr. Þetta er einfalt markaðskerfi. Þetta mun sömuleiðis flýta þeirri þróun að íslenskir læknar líti á sig sem hluta af alþjóðlegum vinnumarkaði lækna og leiti starfa á þeim grundvelli.

Íslensk heilbrigðisþjónusta hefur verið miklu betri en búast mætti við, ef tekið er tillit til mannfæðar, stöðu landsins og tilkostnaðar. Áratugum saman hefur tekist að viðhalda miklum gæðum á heimsmælikvarða. Nú stefnir í að Ísland tapi þessari sérstöðu sinni og gæði íslensks heilbrigðiskerfis verði þau sem búast mætti við hjá fámennri og afskekktri þjóð.

Höfundur er prófessor og yfirlæknir á Landspítala.