Kúreki Eliades Ochoa er unglingurinn í Buena Vista Social Club, aðeins 63 ára gamall.
Kúreki Eliades Ochoa er unglingurinn í Buena Vista Social Club, aðeins 63 ára gamall.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólk klappar og ruggar sér í sætunum. Par eitt lætur sér það ekki nægja heldur rís úr sætum og færir sig til hliðar þar sem þau stíga seiðandi dans.

af tónlist

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Liðsmenn AfroCubism komu næstum því fljúgandi inn á sviðið í Eldborg. Þrumuveður í London tafði för þeirra félaga til Íslands og þeir því vart lentir þegar tónleikarnir byrjuðu. Í höfuðborg breska heimsveldisins höfðu þeir spilað kvöldinu áður í Royal Albert Hall. Þar tóku þeir einnig á móti verðlaunum í flokki „heimstónlistarbræðings“ Songlines-heimstónlistarverðlaunanna, en verðlaunin eru kennd við Songlines-tímaritið.

Heimstónlistarbræðingur passar vel til að lýsa AfroCubism en þar mætast tónlist frá Kúbu og Malí. Kúbuhluta sveitarinnar skipa meðlimir Buena Vista Social Club undir forystu Eliades Ochoa. Hann er unglingurinn í Buena Vista Social Club. Aðeins 63 ára og gjarnan kallaður Johnny Cash Kúbu. Enda þekktur fyrir að klæðast svörtu og ganga um með stóran kúrekahatt á höfði. Samlíkingin kemur þó ekki eingöngu til af klæðaburðinum heldur er Ochoa líka alvöru „guajiro“ eða kúreki úr sveitinni. Tónlistarmennirnir frá Malí eru undir forystu Toumani Diabaté. Hann spjallar við tónleikagesti og segir að hér sé komin fram á sjónarviðið ný útgáfa af Buena Vista Social Club. Enda er bræðingur þessi alveg nýtt afbrigði af Kúbutónlist þeirrar sveitar með afrískum áhrifum í bland. Sú samsuða kemur vel út og þegar söngur bætist við er eins og tvær ólíkar tónlistartegundir kallist á. Trommusláttur Malímanna fléttast saman við latínóstef Kúbumanna og lætur vel í eyrum.

Samstarf sveitarinnar upplýsir Diabaté um að rekja megi aftur til sjöunda áratugarins. Þá var ungt fólk frá Malí sent til Kúbu til að nema þar tónsmíðar. Afraksturinn er til að mynda sú tónlist sem tónleikagestir fá að njóta þetta kvöld. „Vestur-Afríka er eitt fátækasta svæði heims en við erum rík að menningu,“ segir Diabeté og það eru orð að sönnu. Hljómsveitin nær vel saman og byggir smám saman upp góða stemningu. Fólk klappar og ruggar sér í sætunum. Par eitt lætur sér það ekki nægja heldur rís úr sætum og færir sig til hliðar þar sem þau stíga seiðandi dans. Allt getur greinilega gerst í þessum virðulega tónleikasal og ég bjóst ekki endilega við að sjá fólk dansa þar inni. En þetta lýsir tónlist AfroCubism afar vel. Hún hrífur mann og leiðir, ruggar og seiðir. Alveg þangað til maður fær ekki lengur setið kyrr og er staðinn upp til að liðka mjaðmirnar og stíga taktinn...