— Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Dýragarðurinn í Peking hefur reynt að fá frjóvguð lundaegg frá Íslandi en yfirvöld hafa ekki gefið útflutningsleyfi. Sigtryggur Rósmar Eyþórsson, framkvæmdastjóri XCO ehf.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Dýragarðurinn í Peking hefur reynt að fá frjóvguð lundaegg frá Íslandi en yfirvöld hafa ekki gefið útflutningsleyfi. Sigtryggur Rósmar Eyþórsson, framkvæmdastjóri XCO ehf. sem hefur átt viðskipti við Kína áratugum saman, sagði að verslunarfulltrúi kínverska sendiráðsins hefði leitað til sín fyrir fjórum árum fyrir hönd dýragarðsins og spurt hvort ekki væri hægt að fá hér lundapysjur.

„Þeir höfðu heyrt að dýragarðar hefðu fengið pysjur héðan,“ sagði Sigtryggur og kvaðst vita að íslenskir lundar væru í dýragörðum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Þegar beiðnin barst var ástand lundastofnsins ekki jafn slæmt og nú. Sigtryggur heimsótti dýragarðinn í Peking 2009 og sá þar stórt kælt búr þar sem lundunum var ætlaður félagsskapur við mörgæsir. Búrið er að helmingi laug með kældum sjó.

Sigtryggur hafði samband við starfsmann Náttúrufræðistofnunar sem hafði reynslu af pysjuútflutningi. Sá lagði til að senda frekar egg í hitakassa. Kínverjarnir vildu fyrst fá 300 lundaegg en drógu svo úr og óskuðu eftir að fá 50 egg og að fuglafræðingur fylgdi sendingunni héðan. Sigtryggur sótti um leyfi til að flytja út eggin.

„Þá rakst ég á þröskulda sem mér hefur ekki tekist að yfirstíga enn,“ sagði Sigtryggur. Hann hefur sótt um útflutningsleyfi á lundaeggjum til umhverfisráðuneytisins fjögur ár í röð og alltaf fengið neitun. Sigtryggur gekk á fund umhverfisráðherra í vetur og lagði fram beiðni. Um síðustu mánaðamót var beiðninni hafnað vegna slæms ástand lundans.

Sigtryggur kvaðst vita af slæmu ástandi lunda á Suður- og Vesturlandi en það væri betra fyrir norðan. Hann hafði rætt við fuglafræðing sem þekkir vel til í lundabyggðum og taldi sá það ekki ógna stofninum þótt flutt yrðu út nokkur lundaegg frá svæði þar sem ástandið er gott.

Sigtryggur sagði að hann hefði enga hagsmuni af þessu stússi. Hann væri einungis að liðsinna vinum sínum í Kína eftir gott samstarf.

Kínverjar lýstu áhuga á að fá hvítabjörn frá Íslandi

„Hann var að ganga á land!“

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson ræddi um að koma á samstarfi milli dýragarðsins í Peking og Húsdýragarðsins. „Kínverski verslunarfulltrúinn kom með þá hugmynd að Húsdýragarðurinn fengi lánaðan pandabjörn í nokkra mánuði. Það myndi vekja mikla lukku hjá ungu kynslóðinni að sjá pandabjörn,“ sagði Sigtryggur. En fleiri birnir hafa verið nefndir í samskiptunum við Kínverja.

„Ég fékk tölvupóst í vor þar sem þeir spurðu hvort hægt væri að fá hér hvítabjörn. Ég svaraði því að þeir kæmu örsjaldan og væntanlega væri betra að hafa samband við Danmörku vegna Grænlands. Svo var ég að bíða eftir samtali við tengilið í umhverfisráðuneytinu og minntist á þetta við ritara. Þá sagði hún: „Hvítabjörn? Hann var að ganga á land fyrir klukkutíma!““.