Ólafur Haukstein Knútsson
Ólafur Haukstein Knútsson
Eftir Ólaf Haukstein Knútsson: "En hvað með ykkur, ráðamenn þessa lands? Hversu mikils virðið þið störf okkar? Hversu mikilvæg „auðlind“ erum við í ykkar augum?"

Í heimi viðskipta og stjórnmála kemur orðið „mannauður“ iðulega fyrir í ræðu og riti þeirra sem þar sitja í forsvari á hverjum tíma. Orð þetta kemur oft fyrir þegar verið er að fjalla um hugök eins og framlegð, hagnað, markaðssetningu vöru og þjónustu stofnana og fyrirtækja. Mannauður er þá einhvers konar auðlind eða fjársjóður sem stofnun eða fyrirtæki býr yfir. Í þessu sambandi mætti þá augljóslega tala um mannauð ákveðinna starfsstétta og jafnvel heillar þjóðar. Með öðrum orðum, þá eru starfsmenn fyrirtækja og stofnana – og þjóða, skilgreindir sem auðlind, en ekki bara sem kostnaður og baggi á samfélaginu.

Framsæknar stofnanir og fyrirtæki undirstrika þar með mikilvægi starfsfólksins sem stefnumótandi eign og eða auðlind. Það er auðvitað fólkið sem framleiðir og selur vörur eða þjónustu. Því er hægt að segja að það auki verðgildi fyrirtækisins eða stofnunarinnar að hafa á að skipa góðu, reynslumiklu og vel menntuðu fólki. Í mínum huga ætti því að huga vel að þessari auðlind, auka vegsemd hennar og virðingu, og markvisst reyna að bæta öryggi og aðbúnað allan, þar með talið kaup og kjör. Það er þá hagur allra! Ef starfsmenn eru eingöngu skilgreindir sem kostnaður er hætta á að fyrirtæki eða stofnun verði tilviljanakennt samsafn af fólki, og er til þess fallið að draga úr áhuga og frumkvæði starfsmanna.

En er þetta ekki sá raunveruleiki sem við lögreglumenn búum við? Er hugtakið „mannauður“ ekki bara enn eitt klisjukennda og innantóma orðskrípið sem menn grípa til þegar það hentar? Í mínum huga er þetta hugtak merkingarlaust þegar litið er til hinna vinnandi stétta í landinu.

Það hefur greinilega ekki haft mikið vægi í huga þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr þegar gengið var að samningaborði ríkisins og Landssambands lögreglumanna á liðnum dögum, og þá ekki síður lítið vægi í huga formanns gerðardóms og meðdómara hans sem tilnefndur var af hálfu fjármálaráðuneytisins – m.t.t. niðurstöðu dómsins. Í umfjöllun dómsins um kjör okkar kemur fram viðurkenning á því að við höfum dregist aftur úr í launaþróun viðmiðunarstétta. Engu að síður var horft vísvitandi fram hjá því. Krafa okkar lögreglumanna er sú að sanngirni, réttlætis og jafnræðis sé gætt. Við erum ekki að fara fram á meira en okkur ber. Það er síður hægt að gera kröfu um að fólk haldi við áhuga, metnaði og afköstum, ef kaup og kjör eru langt undir því sem eðlilegt getur talist. Mikilvægt er að komast hjá starfsaðstæðum sem geta leitt til vinnustreitu hjá fólki, s.s. miklu vinnuálagi, fjarveru frá fjölskyldu, lágum launum o.s.frv. Það gengur ekki til langs tíma litið að vinna við slíkar kringumstæður. Brottfall úr stéttinni er óhjákvæmilegt nema ríkisvaldið leiðrétti þá mismunun sem er í gangi.

Ég held ég megi segja að lögreglumenn séu almennt bjartsýnir og vongóðir að eðlisfari. Við þurfum á því að halda í okkar störfum þar sem við erum oftar en ekki að fást við dekkri hliðar lífsins. Við höfum í það minnsta sýnt mikið langlundargeð og þrautseigju í kjarabaráttu okkar síðastliðin misseri og ár. Við erum að upplifa nú að gengið hafi verið yfir okkur á skítugum skónum og nú er mælirinn fullur! Ég skora á Alþingi Íslendinga að taka upp málefnalega og ábyrga umræðu varðandi bætt kjör lögreglumanna í landinu.

Greinar og viðtöl hafa birst í fjölmiðlum undanfarið þar sem komið hefur verið vel inn á hvers eðlis lögreglustarfið er – hvaða fórnir við þurfum að færa til að inna starf okkar af hendi. Það eru líka ákveðnar fórnir sem við færum sem eru ekki jafn fyrirsjáanlegar. Minni lífaldur vegna gríðarlegs álags á líkamann vegna vaktavinnu og úrlausna verkefna við oft á tíðum lífshættulegar aðstæður og jafnvel í kulda og trekki. Heilsan verður sjaldnast afturkræf. Því miður eru margir lögreglumenn sem veikjast fyrr en eðlilegt getur talist. Margir lögreglumenn, einkum þeir sem eru komnir á aldur og jafnvel hættir, bera harm sinn í hljóði vegna reynslu og atburða í starfinu sem hefur markað þá fyrir lífstíð. Það fer enginn í gegnum þetta starf án þess að „bera fingraför á sálartetrinu“, nema hann sé mjög kaldlyndur – og eða í mikilli afneitun.

Við lögreglumenn finnum fyrir gríðarlegum meðbyr almennings úr öllum stigum samfélagsins – samstaðan og samhugurinn er nánast algjör. Fyrir það ber að þakka. Við erum snortnir og þakklátir fyrir velvilja almennings og virðingu hans fyrir okkar störfum – mætti ríkja meiri skilningur frá ráðamönnum þjóðarinnar. Það er hvetjandi og gott að finna að starf okkar er samfélaginu einhvers virði. Þessi meðbyr hvetur okkur enn frekar til dáða í öllum okkar störfum í þágu almennings.

En hvað með ykkur, ráðamenn þessa lands? Hversu mikils virðið þið störf okkar? Hversu mikilvæg „auðlind“ erum við í ykkar augum? Það er ekki nóg að tala með fagurgala – það þarf að vera samræmi milli orða og athafna. Nú er tækifæri fyrir ykkur til að láta verkin tala og leiðrétta kjör okkar. Það er sanngjörn og réttlát krafa okkar lögreglumanna.

Höfundur er lögreglumaður.