Golf
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, mun að öllu óbreyttu taka þátt í úrtökumóti fyrir bandarísku PGA-mótaröðina í golfi í fyrsta skipti á ferlinum. Birgir er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins skráður til leiks á 1. stigi úrtökumótanna og mun keppa á Pinehurst-svæðinu í Norður-Karólínuríki í lok október.
Birgir hefur hingað til reynt við Evrópumótaröðina og tókst að þræða nálaraugað og komast í gegnum úrtökumótin árið 2006. Þar er samkeppnin gífurlega hörð og einungis um 30 kylfingar af 1000 komast í gegn. Svipaða sögu er að segja af úrtökumótunum fyrir PGA en Birgir sleppur við forkeppni sem haldin er og fer beint á 1. stigið. Leikið verður á Pinewild vellinum á Pinehurst svæðinu en áhugafólk um íþróttina kannast vel við völlinn Pinehurst nr. 2 en þar fer opna bandaríska mótið reglulega fram.
Takist Birgi að komast í gegn tekur 2. stigið við í nóvember. Fari svo þarf hann væntanlega að gera upp við sig hvort hann vilji reyna við PGA eða Evrópumótaröðina en hann kemst beint á 2. stigið í úrtökumótunum í Evrópu vegna árangurs síns á Áskorendamótaröðinni í sumar. Útlit er fyrir að staða hans þar tryggi honum jafnframt fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni 2012.