Fámennt Matthías Hemstock og Tómas R. Einarsson taka sér hlé á bílskúrsæfingu í maí síðastliðnum.
Fámennt Matthías Hemstock og Tómas R. Einarsson taka sér hlé á bílskúrsæfingu í maí síðastliðnum. — Morgunblaðið/Sigurgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gestinum varð því ljóst að verkið hefði verið flutt fyrir tómum sal, ef ekki hefði viljað betur til, og létti talsvert við þá hugsun

Af listum

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Jæja, á ég þá að fara aftur á gistiheimilið til Erlu og klára að horfa á kvennalandsleikinn?“ hugsaði gestur með sér þegar ekki komu fleiri á listviðburðinn á Patreksfirði. Ég hef greinilega hugsað upphátt því listamennirnir brugðust hart við og vildu ekki sleppa af mér hendinni. Sögðust spila þótt ég yrði einn og það varð úr, þrátt fyrir að mér þætti það óþægilegt og vildi losna úr aðstæðunum. Ég sá ekki eftir því að láta tilleiðast.

Tónlistarmennirnir Tómas R. Einarsson og Matthías MD Hemstock héldu þrenna tónleika á Vestfjörðum í síðustu viku og með þeim í för var Jón Sigurpálsson, myndlistarmaður og safnvörður á Ísafirði, sem er höfundur annars verksins sem flutt var. Þeir félagar slógu saman í ferð.

Höfundur pistilsins var staddur á Patreksfirði og þegar hann sá tónlistarmennina á ferð fór hann í Albínu, sjoppu bæjarins, til að athuga hvort tónleikar væru auglýstir. Enginn kannaðist við það. Ákveðið var að spyrja listamennina sjálfa og í ljós kom að tilgangur ferðar þeirra var ekki að skoða Látrabjarg eða njóta veitinga á Þorpinu heldur að halda tónleika í Skjaldborg seinna um kvöldið.

Kynning tónleikanna hafði eitthvað mistekist, það er allavega skýring á dræmri aðsókn.

Jón Sigurpálsson sagði frá fyrra verkinu í óformlegri kynningu í anddyrinu. Það er mynd-/tónverkið Quadrant eða Hringfjórðungur. Jón samdi verkið þegar hann var við nám í Hollandi. Það var frumflutt í Amsterdam á árinu 1983 og síðan í Tókíó nokkrum árum síðar en hefur ekki áður verið flutt á Íslandi, svo vitað sé. Snögg leit á netinu sýnir að verkið hefur verið gefið út á sínum tíma í takmörkuðu upplagi og eintök árituð af höfundi eru enn til sölu í „helstu“ bókaverslunum þar ytra.

Quadrant er samið fyrir slagverksleikara, fimm blindramma og málarabretti. Þetta gefur næga vísbendingu um verkið þar sem mismunandi listformum er blandað saman. Matthías MD Hemstock flutti. Verkinu var skipt niður á þrenna tónleika, fyrstu litirnir fóru í rammana á tónleikum á Ísafirði, meira slettist á þá á einkatónleikunum á Patreksfirði og væntanlega hefur orðið til fullgert myndverk á síðustu tónleikunum, á Hólmavík kvöldið eftir. Gestinum varð því ljóst að verkið hefði verið flutt fyrir tómum sal, ef ekki hefði viljað betur til, og létti talsvert við þá hugsun.

Gesturinn nýtti aðstöðu sína til að spyrja, án þess að það truflaði aðra, hvað yrði um verkið fullgert. Jón svaraði því til að það gæti orðið til sölu, ef einhver hefði áhuga. Matthías barnaði svarið með því að segja að það yrði mikil breyting á sínum listamannsferli ef málverk seldist!

Tómas R. Einarsson slær á persónulega strengi í lagaflokknum Strengur sem hann flutti ásamt Matthíasi og myndvarpa. Flokkurinn var frumfluttur á Listahátíð í Reykjavík fyrr á þessu ári og þá var verkið rækilega kynnt. Það hefur einnig komið út á samnefndum mynddisk. Verkið er samið fyrir kontrabassa og slagverk og þriðji flytjandinn er vatnið, eins og höfundurinn sjálfur sagði, en niður sjávar, vatna og lækja af slóðum forfeðra hans er mikilvægur hluti þess.

Strengur er óður Tómasar til forfeðra hans. Á tjaldinu birtast gamlar fjölskyldumyndir og myndskeið frá vötnunum. Auðvelt er að ímynda sér að höfundurinn hafi haft myndirnar fyrir augum þegar hann samdi lögin og jafnvel einnig vatnsniðinn við hlustir.

Þetta var notaleg kvöldstund, þar sem áhyggjur af ástandi vegamála og úrslitum landsleiksins gleymdust. Verst að fleiri skuli ekki hafa notið. Ekki hefði Patreksfirðingum veitt af, á róstusömum tímum í baráttu fyrir bættum samgöngum.

Síðasta lag Tómasar var þess eðlis að ég var að velta því fyrir mér hvort viðeigandi væri að klappa en ákvörðunin var sem betur fer tekin úr mínum höndum því húsvörðurinn hafði fylgst spenntur með og það voru þó, þrátt fyrir allt, tveir ánægðir áheyrendur sem þökkuðu fyrir sig.